Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, skammstafað SFS, voru stofnuð 31. október 2014 þegar Landsamband íslenskra útvegsmanna og Samtök fiskvinnslustöðva sameinuðust. Formaður samtakanna var kosinn Jens Garðar Helgason. Markmið samtakanna hefur frá byrjun verið að gæta hagsmuna þeirra er starfa í sjávarútvegi, þar með talið fyrirtækja í fiskeldi. Á auka aðalfundi Landssambands fiskeldisstöðva 14. desember 2018 var tekin sameiginleg ákvörðun aðildarfyrirtækjanna um að óska eftir aðild að Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Þá var jafnframt ákveðið að leggja niður daglega starfsemi LF og hefur henni verið sinnt af SFS síðan. Skrifstofa samtakanna er að Borgartúni 35 og starfsmenn eru 15.
Íslenskur sjávarútvegur er um margt sérstakur og í fremstu röð. Ýmislegt veldur því. Aflamarkskerfið, sem einnig er nefnt kvótakerfi, er stór hluti af skýringunni. Samkvæmt því er fastmótað skipulag á sókn í tegundir og það byggist á vísindalegum grunni. Að sjálfsögðu má deila um það hverju kerfið hefur skilað á einstaka stað, en heildarniðurstaðan er óumdeild; fáar þjóðir hafa náð eins góðum árangri við að hámarka afrakstur af fiskveiðum. Víða um heim er sjávarútvegur ríkisstyrktur, en íslensk sjávarútvegsfyrirtæki greiða milljarðatugi á ári hverju til ríkisins. Hagsmunir þeirra sem vinna í sjávarútvegi haldast í hendur við hagsmuni þjóðarinnar og náttúrunnar. Eitt meginmarkmið samtakanna hefur verið að styðja við endurreisn þorskstofnsins við Ísland, en ástand hans fór hríðversnandi síðari hluta 20. aldarinnar og í raun fram á fyrstu ár nýrrar aldar. Sú vinna hefur borið árangur.
Með hóflegu veiðiálagi undanfarin ár hafa þorskárgangar, hver af öðrum, lifað lengur og tekið út meiri vöxt og þannig gefið af sér meiri afla og lagt meira til hrygningarstofnsins. Grundvöllur þessarar þróunar er það veiðistjórnunarkerfi sem viðhaft er. Það hvílir á markvissri stjórnun á fiskveiðum með nauðsynlegri festu við ákvörðun leyfilegs heildarafla, aflareglu, ásamt eftirfylgni og eftirliti. Íslendingar eru leiðandi þjóð í þróun á langtíma aflareglum í fiskveiðum og mikilvægt er að nýting á fiskistofnum á Íslandsmiðum byggist ávallt á grunni þeirra. Þannig kerfi tryggir framtíðarhagsmuni.
Vond umgengni um auðlindir hafsins leiðir til lakari afkomu fyrirtækja, minni tekna ríkisins og minni skaða á náttúrunni. Umhverfismál hafa lengi verið í brennidepli innan SFS og hefur íslenskum sjávarútvegi orðið nokkuð vel ágengt í þeim efnum. Eldsneytisnotkun í sjávarútvegi hefur nálega helmingast frá árinu 1990 og fari svo fram sem horfir mun draga enn úr notkuninni á næstu árum. Sjávarútvegur ber höfuð og herðar yfir aðra atvinnuvegi á Íslandi þegar kemur að samdrætti í losun á gróðurhúsalofttegundum. Þar hafa fjárfestingar í nýjum og fullkomnari skipum, vélum og tækjum haft sitt að segja og þá ekki síður það fyrirkomulag sem viðhaft er við stjórn fiskveiða. Á sama tíma og umhverfisáhrif af fiskveiðum hafa minnkað hafa útflutningsverðmæti aukist.
Íslenskur sjávarútvegur á allt sitt undir því að selja afurðir á alþjóðlegum markaði, enda eru um 98% af íslensku sjávarfangi seld þar. Samkeppnin á mörkuðum þar sem íslensk fyrirtæki hafa komið ár sinni fyrir borð miðast ekki eingöngu við það að íslenskur þorskur keppi við þorsk frá öðrum þjóðum, eða ýsa við ýsu. Markaðssetning á fiski snýst öðrum þræði um að fá fólk til að borða fisk, síðan er hægt að reyna að fá fólk til að kaupa ákveðnar tegundir af fiski frá ákveðnum löndum. Íslenskt sjávarfang keppir við sjávarfang frá öllum heimshornum. Einnig frá löndum þar sem vinnuafl er margfalt ódýrara en hér á landi. Því er brýnt að verja samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs svo hann verði, hér eftir sem hingað til, ein meginstoð efnahagslegrar hagsældar á Íslandi.
Til að treysta og bæta lífskjör í landinu þurfum við ávallt að halda okkur á braut nýsköpunar og þróunar og þar þurfum við að vera í forystu. Til þess að það sé hægt verður greinin að skila arði og fá að halda því eftir af arðinum sem þarf til að endurnýja og endurskapa tækjabúnað sem er kjarninn í eigin fé fyrirtækjanna. Ef við höldum ekki forystu okkar heldur drögumst aftur úr þá verður framlag sjávarútvegs til verðmætasköpunar í samfélaginu vart svipur hjá sjón miðað við það sem nú er. Af þessu má ljóst vera að nýsköpun verður ávallt að vera samofin starfsemi íslensks sjávarútvegs og það hefur hún verið á undanförnum árum. Fjölmörg iðn- og tæknifyrirtæki, sem starfa náið með sjávarútveginum, hafa skotið upp kollinum á undanförnum árum. Er nú svo komið að mörg þeirra flytja út vörur fyrir tugi milljarða á ári.
Fiskeldi á Íslandi hefur vaxið fiskur um hrygg á liðnum árum. Nú er svo komið að útflutningstekjur af fiskeldi nema um 10% af útflutningsverðmæti sjávarafurða. Þetta hlutfall hefur vaxið nokkuð skart og mun fiskeldi án vafa verða búbót á komandi árum, auk þess að treysta byggðafestu víða um land, einkum á Vestfjörðum og á Austurlandi. Fari svo fram sem horfir má gera ráð fyrir því að útflutningur á eldisafurðum tvöfaldist frá árinu 2019 til 2021 og nemi þá um 40 milljörðum króna. Ný lög um starfsumhverfi fiskeldis voru samþykkt á Alþingi árið 2019 og einnig lög um gjald af starfseminni. Þótt ýmsum hafi þótt að sér vegið með lögunum er nú kominn rammi um fiskeldi sem fyrirtækin geta starfað eftir. Það veitir ákveðinn fyrirsjáanleika. Framtíð sjávarútvegs og fiskeldis á Íslandi er björt, verði rétt á málum haldið. Fiskeldið er að sanna sig sem mikilvæg stoð í efnahagslífinu og þar eru möguleikar miklir án þess að gengið sé á gæði náttúrunnar. Magnaukning er þar möguleg, en ekki með sama hætti og í veiðum á villtum fiski sem nýta þarf með sjálfbærum hætti. Hvað sem því líður, er einboðið að ákvarðanir stjórnvalda munu hafa mikil áhrif á stöðu greinanna á komandi árum. Ef skilningur er til staðar á því hversu mikilvæg samkeppnisstaða greinanna er á erlendum vettvangi, þar sem langmest af framleiðslunni er selt, er ekki ástæða til að bera kvíðboga fyrir framtíðinni.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd