Samtök iðnaðarins

2022

Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu samtök atvinnurekenda á Íslandi mynduð af um 1.400 fyrirtækjum og sjálfstæðum atvinnurekendum sem stunda margvíslega atvinnustarfsemi. Fjöldi og fjölbreytni fyrirtækjanna gefur samtökunum styrk en um leið er það áskorun að standa vörð um ólíka hagsmuni. Samtök iðnaðarins eru hreyfiafl og málsvari iðnaðar á Íslandi. Í öllu starfi samtakanna er lögð áhersla á það sem er sameiginlegt um leið og tekið er tillit til sértækari mála einstakra aðildarfyrirtækja.

Framtíðarsýn

Hlutverk og framtíðarsýn Samtaka iðnaðarins er að efla íslenskan iðnað og auka samkeppnishæfni hans. Samkeppnishæfni íslensks iðnaðar hvílir á sex stoðum sem ráða mestu um framleiðniþróun og velmegun til framtíðar. Til að bæta samkeppnishæfnina leggja Samtök iðnaðarins áherslu á umbætur í sex stoðum, sem eru menntun, nýsköpun, starfsumhverfi, innviðir, orka og umhverfi og ímynd.

Sagan

Samtök iðnaðarins voru stofnuð 24. september 1993 þegar sameinuð voru sex helstu samtök iðnaðar: Félag íslenskra iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna, Félag íslenskra prentiðnaðarins, Verktakasamband Íslands, Samband málm- og skipasmíðja og Meistara- og verktakasamband byggingamanna. Þau tóku síðan formlega til starfa um áramótin 1993-94. Einn helsti hvatamaðurinn að stofnun Samtaka iðnaðarins var Haraldur Sumarliðason, húsasmíðameistari, en hann hafði lengi verið í forystusveit Landssambands iðnaðarmanna og forseti þess um árabil. Í kjölfar sameiningarinnar var hann kjörinn fyrsti formaður SI og gegndi því starfi í 6 ár þar til hann lét af formennsku árið 1999. Aðrir formenn samtakanna eru Vilmundur Jósefsson 2000-2005, Helgi Magnússon 2006-2011, Svana Helen Björnsdóttir 2012-2013, Guðrún Hafsteinsdóttir 2014-2020 og Árni Sigurjónsson sem tók við formennsku samtakanna 2020.

Aðalfundur

Aðalfundur Samtaka iðnaðarins sem haldinn er árlega heitir Iðnþing. Hefðbundin aðalfundarstörf fara fram að morgni dags og eftir hádegi er málþing þar sem valin efni eru til umfjöllunar. Stjórn SI er skipuð 10 einstaklingum sem kjörnir eru árlega en formaður Samtaka iðnaðarins er kosinn til tveggja ára í senn. Í stjórn 2020-2021 sitja Árni Sigurjónsson hjá Marel, formaður, Sigurður R. Ragnarsson hjá ÍAV, varaformaður, Guðrún Halla Finnsdóttir hjá Norðuráli, ritari, Arna Arnardóttir, gullsmiður, Ágúst Þór Pétursson hjá Mannviti, Egill Jónsson hjá Össuri, Magnús Hilmar Helgason hjá Launafli, Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir hjá CRI, Valgerður Hrund Skúladóttir hjá Sensa og Vignir Steinþór Halldórsson hjá MótX. Varamaður er Steinþór Jónsson hjá Björnsbakaríi.

Samtök iðnaðarins

Skrifstofa Samtaka iðnaðarins er á 4. hæð í Húsi atvinnulífsins í Borgartúni 35 í Reykjavík. Þar eru 17 starfsmenn samtakanna. Sigurður Hannesson er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins frá árinu 2017. Forverar hans í starfi eru Almar Guðmundsson 2014-2017, Kristrún Heimisdóttir 2013-2014, Orri Hauksson 2010-1013, Jón Steindór Valdimarsson 2007-2010 og Sveinn Hannesson 1992-2007.

Starfsemin

Starfseminni er skipt upp í tvö svið; mannvirkjasvið og iðnaðar- og hugverkasvið. Innan sviðanna eru starfandi um 40 starfsgreinahópar. Samtök iðnaðarins vinna að hagsmunum iðnaðarins á öllum sviðum og í nánu samráði við fyrirtækin sjálf. Byggt er á markvissri stefnumótunarvinnu einstakra starfsgreinahópa og aðildarfélaga.

Útgáfa

Samtök iðnaðarins eru virk í útgáfu og samfélagsmiðlum og halda úti vefsíðu með fréttaflutningi og öllum helstu upplýsingum sem snerta iðnaðinn. Samtökin hafa gefið út fjölmargar greiningar, skýrslur, fréttabréf og tímarit. Meðal skýrslna sem samtökin hafa gefið út og unnar hafa verið af starfsmönnum samtakanna í samstarfi við stjórn SI, félagsmenn og aðra sérfræðinga eru Íslensk raforka – ávinningur og samkeppnishæfni, Nýsköpun – virkjum tækifærin – nýsköpunarstefna SI, Mótum framtíðina saman – atvinnustefna fyrir Ísland, Mætum færni framtíðar – menntastefna SI, Ísland í fremstu röð – eflum samkeppnishæfnina og Innviðir á Íslandi – ástand og framtíðarhorfur.

Framfarir

Framfarasjóður Samtaka iðnaðarins var stofnaður árið 2016 í þeim tilgangi að skapa farveg sem styður við og þróar framfaramál tengd iðnaði. Markmið sjóðsins eru að efla menntun fyrir atvinnulífið með áherslu á iðn-, verk- og tækninám, styðja við nýsköpun sem styrkir framþróun í iðnaði og framleiðniaukningu með áherslu á skilvirkt rekstrarumhverfi.

Gildi Samtaka iðnaðarins eru þrjú:
  1. Fagmennska – vönduð vinnubrögð, nýjar upplýsingar og þekking á viðfangsefnum.
  2. Samvinna – samstarf starfsmanna og félagsmanna við stjórnvöld, stofnanir, fjölmiðla
    og önnur samtök.
  3. Áræðni – forsenda árangurs – höfum kjark og þor til að takast á við krefjandi verkefni í þágu íslensks iðnaðar.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd