Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu

2022

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) eru pólitískur samstarfsvettvangur sveitarfélaganna Reykjavík, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar og Kjalarneshrepps. SSH starfar á grundvelli sveitarstjórnarlaga og ákvæða samþykkta SSH. Framkvæmdastjóri SSH er Páll Björgvin Guðmundsson.

Verkefni SSH
Verkefni á vettvangi SSH eru margvísleg. Starfandi eru formlegar nefndir um svæðisskipulag og skólamál. Þá eru starfandi samráðs- og verkefnahópar um velferðarmál, vatnsvernd og vatnsnýtingu, svæðisskipulag, uppbyggingu skíðasvæðanna, sóknaráætlun höfuðborgar-svæðisins og önnur verkefni. Stjórn SSH fundar reglulega með utanaðkomandi aðilum um málefni sem tengjast sameiginlegum hagsmunum svæðisins. Þá stendur SSH fyrir kynningar- og umræðufundum með þingmönnum og kjörnum sveitarstjórnafulltrúum á höfuðborgarsvæðinu og lykilstarfsfólki sveitarfélaganna í hlutaðeigandi málaflokkum.

Sóknaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið 2020-2024
Sóknaráætlun er stefnuskjal eða stöðumat höfuðborgarsvæðisins og felur í sér framtíðarsýn og markmið í tilgreindum málaflokkum ásamt skilgreindum leiðum að markmiðunum. Hluti af framfylgd sóknaráætlunar er að vinna að ákveðnum áhersluverkefnum fyrir hvert ár yfir tímabilið. Má þar t.d. nefna verkefni sem tengjast samgöngumálum, samræmingu í úrgangsmálum, loftlagsstefnu fyrir höfuðborgarsvæðið, stofnun áfangastaða- og markaðsstofu, forvarnarmálum o.fl.

Ferðaþjónusta fyrir fatlað fólk
Sveitarfélögin hafa haft með sér samstarf um verkefnið frá 2014. Sett var á laggirnar rekstrarstjórn fulltrúa sveitarfélaganna og Strætó bs. sem fylgir eftir þjónustu- og fjárhagslegum þáttum akstursþjónustunnar.

Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins
Verkefnahópur var settur í gang 2017 til að undirbúa mótun stefnu um framtíðarstaðsetningu skíðasvæðanna til ársins 2030. Mótað var deiliskipulag fyrir skíðasvæðið í Bláfjöllum og skrifað undir samkomulag sveitarfélaganna um fjármögnun á fyrri hluta uppbyggingarinnar. Er uppbygging á skíðlyftunum Gosa og Drottningu í fullum gangi. Í dag annast ÍTR rekstur síðasvæðanna. Sömu aðilar og mynda stjórn SSH mynda jafnframt eigendavettvang skíðasvæðanna.

Efling almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu
Í gildi er samningur milli SSH f.h. aðildarsveitarfélaganna, Vegagerðarinnar, fjármálaráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins um tilraunaverkefni er varðar eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna í ferðum á höfuðborgarsvæðinu, minnka útblástur kolefnislofttegunda, draga úr þörf fyrir fjárfrekar framkvæmdir í umferðamannvirkjum, lækka kostnað samfélagsins vegna umferðar og umferðarslysa og auka umferðaröryggi.

Gildandi svæðisskipulag
Höfuðborgarsvæðið 2040 er sameiginleg stefna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um samstarf, skipulagsmál og hagkvæman vöxt svæðisins. Starfandi er svæðisskipulagsnefnd sem byggir á ákvæðum skipulagslaga og er skipuð tveimur fulltrúum frá hverju aðildarsveitarfélagi. Hryggjarstykkið í skipulaginu er Borgarlínan, afkastamikið kerfi almenningssamgangna. Borgarlínan er forsenda þess að sveitarfélögin geti þétt byggð í miðkjörnum og við línuna og vaxið án þess að brjóta nýtt land undir byggð utan skilgreindra vaxtarmarka.

Byggðasamlögin
SSH er sameiginlegur vettvangur sveitarfélaganna um byggðasamlög sem sveitarfélögin reka sameiginlega. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga og reka SORPU bs., Strætó bs. og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Samkvæmt samþykktri eigendastefnu er gert ráð fyrir að sameiginleg umræða eigenda um málefni þessara byggðasamlaga fari fram á eigendafundum sem á sitja handhafar eigendavalds byggðasamlaganna, stjórnir þeirra og framkvæmdastjórar. Unnið er að þróun og breytingum á stjórnsýslu byggðasamlaganna.

Áfangastaða- og markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins
Verkefnið var sett fram í sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins þar sem skoðuð var þörf fyrir áfangastaðastofu, með það að markmiði að efla samstarf og nýsköpun. Samhliða starfaði ráðgjafahópur sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og fyrirtækja í ferðaþjónustu. Markmiðið með stofnun áfangastaða-og markaðsstofu er að höfuðborgarsvæðið bjóði með samræmdum hætti fram þá möguleika sem í boði eru fyrir ferðamenn.

Fjárheld girðing um höfuðborgarsvæðið
Frá árinu 1987 hefur SSH annast rekstur og viðhald á fjárheldri girðingu um höfuðborgar-svæðið. Lausaganga búfjár er bönnuð utan girðingarinnar, og markmið með henni er að koma í veg fyrir ágang búfjár í útjaðri byggðar á höfuðborgarsvæðinu.

Söguágrip
SSH var stofnað 4. apríl 1976. Stofnaðilar voru sveitarfélögin Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Seltjarnarnes, Mosfellshreppur, Bessastaðahreppur og Kjalarneshreppur. Meginþungi starfsins fyrstu árin snerist um skipulagsmál og tengd viðfangsefni, umferðar- og samgöngumál, holræsamál, rekstur Skipulagsstofu höfuðborgarsvæðisins og gerð fyrsta svæðisskipulagsins fyrir höfuðborgarsvæðið. Árið 2008 hófst vinna á vettvangi SSH að samstilltum viðbrögðum við afleiðingum efnahagshruns. Síðan þá, til dagsins í dag, hefur starf SSH einkennst af öflugri samvinnu sveitarfélaganna. Vefsíða: ssh.is

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd