Samstök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) voru stofnuð á grundvelli sveitarstjórnarlaga árið 1969 á svæði hins gamla Vesturlandskjördæmi. Starfssvæðið nær því frá Hvalfirði í suðri að Gilsfirði í norðri. Við stofnun samtakanna stóðu 39 sveitarfélög að SSV, en eru nú 10. Þau eru; Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Borgarbyggð, Dalabyggð, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær, Grundarfjarðarbær, Snæfellsbær og Eyja- og Miklaholtshreppur. Íbúafjöldi á Vesturlandi árið 2020 var 16.662.
Stjórn SSV er skipuð 12 fulltrúum, sveitarfélögin á Vesturlandi eiga öll einn fulltrúa í stjórn en fjölmennustu sveitarfélögin tvö, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð, eiga tvo fulltrúa. Í árslok 2020 eru 12 starfsmenn hjá SSV í 10 stöðugildum.
Starfsemin
SSV hefur frá stofnun unnið að ýmsum hagsmunamálum fyrir Vesturland, auk þess að sinna ýmiskonar hagsmunagæslu fyrir sveitarfélögin á Vesturlandi. Í auknum mæli hefur SSV orðið sameiginlegur vettvangur sveitarfélaganna fyrir stefnumótun. Á vettvangi SSV hefur t.a.m. verið unnin sameiginleg samgönguáætlun þar sem sveitarfélögin hafa forgangsraðað helstu framkvæmdum og talað einum rómi um þær, unnin hefur verið velferðarstefna og menningarstefna og svo mætti áfram telja.
Atvinnuráðgjöf, Áfangastaðastofa og Sorpurðun Vesturlands
Árið 1981 var Atvinnuráðgjöf Vesturlands stofnuð undir hatti SSV og hefur verið rekin sem slík síðan. Starfsemi atvinnuráðgjafar byggir á samningi við Byggðastofnun sem kveður á um hlutverk hennar hvað viðkemur byggðaþróun og þjónustu við atvinnulíf á Vesturlandi. Atvinnuráðgjöfin hefur því veitt sveitarfélögum, fyrirtækjum og íbúum á Vesturlandi ýmiskonar þjónustu og ráðgjöf í gegnum árin. Árið 2020 var gerð sú breyting á starfsemi SSV að markaðsmál og annar stuðningur við ferðaþjónustu á Vesturlandi sameinaðist starfsemi SSV við stofnun Áfangastaðastofu Vesturlands. Helstu verkefni hennar eru; gerð og framkvæmd áfangastaðaáætlunar Vesturlands, aðkoma að stefnumótun fyrir ferðaþjónustuna á landsvísu, stuðla að vöruþróun og nýsköpun, sinna svæðisbundinni markaðssetningu í samstarfi við sveitarfélög og ferðaþjónustuaðila og veita þessum aðilum liðsinni í ýmsum málum. Frá stofnun Sorpurðunar Vesturlands árið 1998, sem er í eigu sveitarfélaganna á Vesturlandi, hefur SSV þjónustað stjórn fyrirtækisins og starfsmaður á vegum SSV veitt starfseminni forstöðu. Sorpurðun Vesturlands rekur urðunarstað fyrir landshlutann í Fíflholtum á Mýrum og sinnir úrgangsmálum í samstarfi við sorpsamlög á suðvesturhorni landsins.
Sóknaráætlun Vesturlands
Sóknaráætlanir landshluta hafa þróast á undanförnum 10 árum yfir í að verða eitt helsta stuðningstæki fyrir byggðaþróun í landshlutunum ásamt byggðaáætlun. Í lögum um byggða- og sóknaráætlanir frá árinu 2015 er kveðið á um hlutverk landshlutasamtaka varðandi vinnu og framkvæmd sóknaráætlunar, en SSV ber ábyrgð á framkvæmd Sóknaráætlunar Vesturlands. Segja má að verkefni sóknaráætlunar séu þríþætt; stefna til sóknar fyrir Vesturland, umsjón með Uppbyggingarsjóði Vesturlands sem veitir styrki til menningarmála og nýsköpunar í atvinnulífi og framkvæmd sérstakra áhersluverkefna sem eiga að ýta undir jákvæða þróun byggðar.
Framtíðin
Þegar litið er yfir farinn veg er ljóst að Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa verið þátttakendur í mörgum mikilvægum verkefnum fyrir framþróun landshlutans. Það er von okkar að svo verði áfram og við erum reiðubúin til þess að taka við verkefnum framtíðarinnar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd