Samtök verslunar og þjónustu

2022

Atvinnugreinarnar verslun og þjónusta halda áfram stöðu sinni sem burðarstoðir í íslensku atvinnulífi. Innan þessara greina eru verslunarfyrirtæki, bæði í smásölu og heildsölu og fjölbreytt flóra þjónustufyrirtækja á borð við flutningafyrirtæki, bæði í millilandaflutningum og innanlandsflutningum, fjarskiptafyrirtæki, ráðgjafarfyrirtæki og hreingerningarfyrirtæki svo dæmi séu nefnd. Þjónustugreinin er því mjög fjölbreytt atvinnugrein en innan hennar rúmast öll þjónustufyrirtæki fyrir utan fyrirtæki í fjármálaþjónustu og ferðaþjónustu. Þá hafa Samtök verslunar og þjónustu nú um árabil einnig gætt hagsmuna fyrir einkarekin heilbrigðisfyrirtæki og einkarekna skóla á leik- og grunnskólastigi, en fyrirtæki í þessum greinum eru mikilvæg þjónustufyrirtæki fyrir allan almenning í landinu.
Gífurleg breyting hefur orðið á undanförnum árum í öllu umhverfi verslunarfyrirtækja hér á landi eins og annars staðar í nágrannaríkjum okkar. Sífellt stærri hluti verslunar fer fram með rafrænum hætti. Þetta hefur það í för með sér að sú erlenda samkeppni sem innlend verslun hefur lengi búið við, hefur aukist að mun. Þetta er einfaldlega birtingarmynd þess frelsis sem við búum við á flestum sviðum viðskipta, þar sem fólki og fyrirtækjum er frjálst að eiga viðskipti við þá aðila sem þau svo kjósa. Landamæri í hefðbundnum skilningi þess orðs, hafa hér lítil sem engin áhrif lengur. Þessu til viðbótar hafa Íslendingar löngum ferðast mikið og gera einfaldlega kröfu um sama vöruúrval og sambærilega þjónustu sem íbúar annarra landa í okkar heimshluta búa við.
Covid heimsfaraldurinn hefur flýtt þessari þróun að mun og er það reyndar orðið umtalsvert áhyggjuefni fyrir innlenda verslun og raunar fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum einnig, hversu fyrirferðarmikil stór alþjóðleg fyrirtæki eru orðin á ýmsum sviðum viðskipta. Það er þess vegna mikilvægt að allt verði gert til að íslenskum fyrirtækjum, í verslun og þjónustu sem öðrum atvinnugreinum, verði gert kleift að takast á við erlenda samkeppni á jafnréttisgrunni. Ekkert bendir til annars en að samkeppni úr þessari áttinni muni aukast á komandi árum. Það er á ábyrgð stjórnvalda að tryggja að jafnræði verði tryggtog eðlileg samkeppni fái áfram þrifist.

Milliríkjaverslun er mikilvæg

Við Íslendingar erum sú þjóð í Evrópu sem hvað mest er háð erlendum aðföngum á vörum. Þetta á við um stóran hluta af bæði almennum neysluvörum og fjárfestingarvörum. Íslenskt atvinnulíf á allt undir því að samgöngur við landið séu góðar, bæði á sjó og landi. Íslensk skipafélög og íslensk flugfélög hafa um langt árabil veitt atvinnulífinu einkar góða þjónustu að þessu leyti, oft við krefjandi aðstæður. Lönd á EES svæðinu eru lang mikilvægustu viðskiptalönd okkar, en 59% af öllum innflutningi til landsins kemur þaðan. Markaðshlutdeild annarra svæða í innflutningsverslun okkar er sem hér segir: Bandaríkin 6,7%, Kína 8,4%, Japan 1,8% og önnur Evrópuríki en EES ríki 8,2%.

Ferðaþjónusta og íslensk verslun

Sú mikla breyting sem varð á íslensku atvinnulífi á síðasta áratug samhliða því að ferðamönnum sem sóttu Ísland heim stórfjölgaði, hafði á heildina litið jákvæð áhrif á verslun. Áhrifin voru augljóslega mest á þeim stöðum sem fjölsóttir eru af ferðamönnum. Sérstaklega ber að nefna þau jákvæðu áhrif sem þessi breyting hefur haft í för með sér fyrir verslun og aðra þjónustu í miðborg Reykjavíkur. Árið 2018, þegar um 2,2 milljónir ferðamanna heimsóttu landið, var hlutfall erlendra greiðslukorta, að meðaltali 24% af allri kortaveltu hér á landi. Þannig að af þessu má sjá hvaða áhrif hin mikla fjölgun ferðamanna hefur haft á viðskipti hér á landi.

Mikilvægi þjónustufyrirtækja

Starfsemi þjónustufyrirtækja er afar fjölbreytt og spannar mörg og ólík svið atvinnulífsins. Starfsemi þessara fyrirtækja hefur því hlutverki að gegna víða í samfélaginu, víðar en flestir gera sér grein fyrir, en vegna þess hve atvinnugreinin þjónusta er fjölbreytt hefur oft verið erfiðleikum bundið að skilgreina hana sem sérstaka atvinnugrein. Innan hennar eru engu að síður fyrirtæki á borð við flutningafyrirtæki, fjölmiðlafyrirtæki, heilbrigðisfyrirtæki, ráðgjafarfyrirtæki, upplýsingatæknifyrirtæki og fjarskiptafyrirtæki svo dæmi séu nefnd.

Hagsmunamál verslunarinnar

Aukið frelsi í viðskiptum hefur meginstefið í hagsmunabaráttu verslunarinnar í gegn um tíðina. Aðild Íslands að EFTA og síðan þátttaka í EES samstarfinu gerbreytti stöðunni að þessu leyti og opnaði nýjar víddir í viðskiptum okkar við aðrar þjóðir. EES samningurinnn opnaði fyrir aðgang okkar að innri markaði Evrópusambandsins, bæði hvað varðar innflutning og útflutning. Þá hefur barátta fyrir sanngjörnu skattkerfi, sem ekki skerðir samkeppnisstöðu innlendrar verslunar, tekið mikinn tíma fyrir þá sem sinna hagsmunabaráttu fyrir innlenda verslun. Á árum áður mátti verslunin heyja harða baráttu fyrir afnámi sérstaks skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það var tímafrek barátta, sem fram fór á síðustu öld, en samt ástæða til að minnast á hér þar sem hún er ágætt dæmi um ósanngjarna skattheimtu sem verslunin mátti oft sæta á meðan aðrar atvinnugreinar nutu meiri velvilja meðal þeirra sem fóru með skattlagningarvaldið. Vörugjöld voru lengi vel mikill þyrnir í augum íslenskrar verslunar, enda var um að ræða handahófskenda og ógagnsæja skattlagningu, sem skekkti mjög samkeppnisstöðu, bæði einstakra vörutegunda og verslunarinnar í heild sinni. Í upphafi síðasta áratugar var það metið sem eitt allra mikilvægasta baráttumál íslenskrar verslunar að fá vörugjöldin afnumin með öllu. Eftir að Samtök verslunar og þjónustu settu þetta mál á oddinn 2010 tókst með tímanum að sannfæra stjórnvöld um að afnema vörugjöldin í áföngum og voru þau að fullu úr sögunni 2017. Staðan var einfaldlega sú að þegar stjórnvöld tóku að skoða þetta form skattheimtu fyrir alvöru, kom í ljós að þau skiluðu tiltölulega litlum tekjum í ríkissjóð og voru auk þess flókin í framkvæmd. Baráttan fyrir auknu frelsi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir er stöðug og viðvarandi. Hér er um mikið hagsmunmál að ræða fyrir verslunina og ekki síður neytendur þar sem innlendar landbúnaðarvörur eru stór hluti af daglegum innkaupum hvers heimilis. Nokkur hefur áunnist í þessu efni en með samningi milli Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur sem undirritaður var 2015, jókst hlutdeild innfluttra landbúnaðarvara á íslenskum markaði. Samningurinn tryggði jafnframt aukið tollfrjáls aðgengi fyrir íslenskar landbúnaðarvörur til ríkja Evrópusambandsins. Nú þegar samningurinn hefur að fullu komið til framkvæmda hefur hann greinilega haft jákvæð áhrif á samkeppni á búvörumarkaði sem neytendur munu njóta í auknum mæli góðs af þegar fram í sækir.

Framtíðin – stafræn umbreyting

Fyrirtæki í verslun og þjónustu munu á komandi árum horfast í augu við meiri áskoranir en nokkru sinni fyrr. Sú mikla umbreyting sem er að verða í öllu umhverfi fyrirtækja kallar á nýja nálgun og nýja hugsun hjá atvinnurekendum í þessum greinum. Stafræn umbreyting (stundum kölluð fjórða iðnbyltingin) hefur þegar haft gríðarleg áhrif á alla starfsemi fyrirtækja og fullyrða má að við höfum aðeins séð byrjunina á þeirri umbreytingu sem hér er að verða. Það er því lífsspursmál fyrir íslenska verslun og íslensk þjónustufyrirtæki að nýta stafræna tækni til að takast á við hinn nýja veruleika og ekki síður að nýta sér nálægðina við markaðinn og það forskot sem það gefur að nýta sér hið sameiginlega tungumál okkar, íslenskuna í þessu sambandi. Mörg þeirra starfa sem hafa verið óbreytt um áratugaskeið munu hverfa og ný störf koma í staðinn. Sjálfsafgreiðsla í verslunum verður regla frekar en undantekning og meiri sjálfvirkni í aðfangakeðjunni þar sem vöruhús starfa meira og minna án þess að mannshöndin komi þar að. Þetta eru meðal þeirra breytinga sem við höfum þegar séð og þær verða fleiri á komandi árum. Það er hins vegar ekki þar með sagt að störfum í verslun og þjónustu muni fækka. Þau munu tvímælalaust breytast, störfum sem ekki kefjast sérstakrar menntunar mun fækka og störfum sem krefjast sérhæfingar mun fjölga. Krafan verður um meiri menntun og meiri sérfræðiþekkingu alls starfsfólks, einkum og sér í lagi á sviði stafrænnar tækni.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd