Seðlabanki Íslands

2022

Seðlabanki Íslands er sjálfstæð stofnun í eigu íslenska ríkisins og heyrir undir forsætisráðherra. Bankinn var stofnaður árið 1961 en fyrir það hafði seðlabankastarfsemi m.a. verið í höndum Landsbanka Íslands og Íslandsbanka. Starfsmenn bankans voru tæplega 300 í ársbyrjun 2020 eftir sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.
Samkvæmt lögum skal Seðlabankinn stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Árið 2001 var verðbólgumarkmið tekið upp sem skilgreinir stöðugt verðlag sem 2½% verðbólgu á tólf mánuðum. Seðlabankinn hefur fullt sjálfstæði til að beita stýritækjum sínum til að ná lögbundnum markmiðum. Á árinu 2013 var fjármálastöðugleiki fyrst sérstaklega tilgreindur í lögum sem markmið í starfi bankans, til viðbótar við að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi. Með lagabreytingum í ársbyrjun 2020 og tilfærslu verkefna Fjármálaeftirlitsins til Seðlabankans bættist við markmið um trausta og örugga fjármálastarfsemi.

Skipulag
Til ársins 2009 fór þriggja manna bankastjórn með ákvörðunarvald í öllum helstu málum Seðlabankans. Það ár var peningastefnunefnd sett á fót til þess að taka ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum. Ákvarðanir aðrar en þær sem heyrðu undir nefndina voru eftir það í höndum eins seðlabankastjóra auk þess sem skipaður var aðstoðarseðlabankastjóri. Með tilkomu fjármálastöðugleika sem markmiðs fyrir bankann árið 2014 voru fjármálastöðugleikaráð og kerfisáhættunefnd sett á fót með þátttöku Seðlabankans og fleiri aðila, og með sameiningu við Fjármálaeftirlitið í upphafi árs 2020 færðist eftirlit með fjármálastarfsemi einnig til Seðlabankans.

Ásgeir Jónsson, ársfundur Seðlabankans 25. mars 2020: „Nýr Seðlabanki varð til með sameiningu við Fjármálaeftirlitið 1. janúar 2020 – Seðlabanki sem hefur skýrt umboð og ótal tæki til þess að tryggja bæði verðstöðugleika og fjármálastöðugleika með aðgerðum sem snúa að peningastefnu, þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirliti. Beiting stjórntækja bankans er í höndum þriggja nefnda sem eru skipaðar bæði innri og ytri meðlimum sem taka sameiginlegar ákvarðanir með kosningu. Þessar þrjár nefndir hafa skýrt skilgreind markmið og tæki til að ná þeim. Þær taka sjálfstæðar ákvarðanir sem þær verða að rökstyðja opinberlega. Með þessu móti er hvort tveggja tryggt, valddreifing og gagnsæi. Sameiningin auðveldar okkur að takast á við áföll af því tagi sem nú dynur yfir. Ég er sannfærður um að hið hefðbundna reikningslögmál að 1+1 séu 2 gildi ekki í þessu tilviki. Styrkur þessara stofnana sameinaðra verður mun meiri en samlagning á þeim sitt í hvoru lagi.“

Með gildistöku nýrra laga um bankann í ársbyrjun 2020 var fyrirkomulagi ákvörðunartöku og skipulagi bankans breytt. Tvær nefndir til viðbótar við peningastefnunefnd voru settar á fót. Þessar þrjár nefndir, peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd taka ákvarðanir um beitingu valdheimilda Seðlabankans varðandi peningastefnu og fjármálastöðugleika og á sviði fjármálaeftirlits. Þá eru tilteknar ákvarðanir teknar sameiginlega af seðlabankastjóra og varaseðlabankastjórum svo sem varðandi skipulag bankans og varðveislu gjaldeyrisforða. Að öðru leyti stýrir seðlabankastjóri og ber ábyrgð á starfsemi og rekstri Seðlabanka Íslands og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum bankans sem ekki eru falin öðrum með lögum. Varaseðlabankastjórar leiða málefni bankans á sviðum peningastefnu, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits. Þessu til viðbótar sinnir Seðlabankinn einnig öðrum viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisforða og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslumiðlun í landinu og við útlönd. Bankaráð Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með því að bankinn starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda og er það skipað sjö fulltrúum sem kosnir eru hlutfallskosningu af Alþingi að loknum þingkosningum.

Peningastefna
Eitt af markmiðum Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi. Það er nánar skilgreint sem 2½% hækkun vísitölu neysluverðs á tólf mánuðum og er það meginviðfangsefni peningastefnunnar. Ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands í peningamálum til að ná þessu markmiði eru teknar af peningastefnunefnd bankans. Peningastefnunefnd tekur ákvarðanir um vexti til að framfylgja peningastefnu bankans. Einnig tekur nefndin ákvarðanir um viðskipti við lánastofnanir, önnur en um lán til þrautavara, um bindiskyldu, viðskipti á gjaldeyrismarkaði og viðskipti með verðbréf sem ætlað er að stuðla að því að markmiðum bankans um stöðugt verðlag verði náð. Ákvarðanir peningastefnunefndar byggjast á vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahagsmálum.

Vaxtaákvarðanir Seðlabankans hafa áhrif á skammtíma- og langtímavexti, laust fé í fjármálakerfinu, peningamagn í umferð og bankaútlán, gengi gjaldmiðla, eignaverð og síðast en ekki síst væntingar markaðsaðila um framtíðarþróun allra þessara þátta. Allt þetta hefur síðan áhrif á neyslu- og fjárfestingaákvarðanir einstaklinga og fyrirtækja og þar með á heildareftirspurn og svo að lokum á verðbólgu.

Í peningastefnunefnd situr seðlabankastjóri (formaður), varaseðlabankastjóri peningastefnu, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og tveir ytri sérfræðingar á sviði efnahags- og peningamála sem ráðherra skipar til fimm ára í senn.  Peningastefnunefnd fundar a.m.k. sex sinnum á ári og birtir fundargerðir sínar opinberlega og gerir grein fyrir ákvörðunum sínum og forsendum þeirra. Peningastefnunefnd skilar Alþingi skýrslu um störf sín tvisvar sinnum á ári. Varaseðlabankastjóri peningastefnu leiðir og hefur faglega umsjón með vinnu bankans á sviði peningastefnu og ber ábyrgð á undirbúningi vinnu fyrir peningastefnunefnd. Hagfræði- og peningastefnusvið sér um greiningar á efnahagsmálum, þjóðhags- og verðbólguspá Seðlabankans og áhættumat sem liggja til grundvallar við mótun peningastefnunnar. Einnig er útgáfa ritsins Peningamál í höndum sviðsins og er ritið gefið út fjórum sinnum á ári þar sem mat bankans á stöðu og horfum í efnahagsmálum kemur fram. Framkvæmd peningastefnu Seðlabankans er í höndum markaðsviðskiptasviðs.

Fjármálastöðugleiki

Undir fjármálastöðugleikasvið heyrir yfirsýn fjármálainnviða. Á sviði greiðslumiðlunar er það hlutverk Seðlabankans að stuðla að öryggi, virkni og hagkvæmni kjarnainnviða íslensks fjármálakerfis, eða kerfislega mikilvægra fjármálainnviða og þar með fjármálastöðugleika. Fjármálainnviði má kalla „pípulagnir“ eða „vegakerfi“ markaðanna og undir það falla m.a. kerfi greiðslujöfnunar, uppgjörs eða skráningar greiðslna, verðbréfa-, afleiðu- og/eða annarra fjármálaviðskipta.

Annað markmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að fjármálastöðugleika, að fjármálakerfið búi yfir slíkum viðnámsþrótti að það geti staðist áföll í efnahagslífi og á fjármálamörkuðum, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti. Þjóðhagsvarúð tekur til eftirlits með fjármálakerfinu í heild til þess að tryggja fjármálastöðugleika og beitingu tækja til að stemma stigu við kerfisáhættu fremur en áhættu einstakra fyrirtækja.

Þjóðhagsvarúð miðar að því að viðhalda fjármálastöðugleika sem ólíkt verðstöðugleika er ekki auðmælanlegur þótt augljóst verði um leið og hans nýtur ekki við. Fjármálastöðugleiki felst í að fjármálakerfið búi yfir nægjanlegum viðnámsþrótti til að standa af sér áföll sem verða í efnahagslífinu eða á fjármálamörkuðum.

Ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands varðandi fjármálastöðugleika eru teknar af fjármálastöðugleikanefnd. Stjórntæki bankans teljast í þessu sambandi meðal annars takmarkanir á fjármálafyrirtæki, s.s. eiginfjáraukar umfram kröfur um lágmark eiginfjár sem ætlað er að mæta sértækri áhættu til að mynda vegna stærðar fjármálafyrirtækja eða vegna aðstæðna í hagkerfinu, auk reglna um gjaldeyrisjöfnuð, laust fé og stöðuga fjármögnun. Einnig er hægt að beita almennum takmörkunum á einstaka hópa lánþega, s.s. takmörkunum á leyfilegt veðsetningarhlutfall húsnæðislána, lán í erlendum gjaldmiðlum o.fl. Ákvarðanir fjármálastöðugleikanefndar byggjast á mati á ástandi og horfum í fjármálakerfinu og á fjármálamörkuðum, hagkerfinu í heild, kerfisáhættu og viðnámsþrótti gagnvart mögulegum áföllum. Í fjármálastöðugleikanefnd situr seðlabankastjóri (formaður), varaseðlabankastjórarnir þrír og þrír ytri sérfræðingar í málefnum fjármálamarkaðar eða hagfræði. Ráðherra sem fer með málefni fjármálastöðugleika skipar ytri nefndarmenn til fimm ára í senn. Tilnefndur embættismaður ráðuneytis sem fer með málefni fjármálastöðugleika, skal einnig eiga sæti á fundum nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt. Nefndin fundar að minnsta kosti fjórum sinnum á ári og gerir opinberlega grein fyrir ákvörðunum sínum um beitingu tækja nema ef ætla má að opinber birting geti haft neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika. Fjármálastöðugleikanefnd skilar Alþingi skýrslu um störf sín einu sinni á ári. Varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika leiðir og hefur faglega umsjón með vinnu bankans á sviði fjármálastöðugleika og ber ábyrgð á undirbúningi vinnu fyrir nefndina. Fjármálastöðugleikasvið sér um greiningar, álagspróf Seðlabankans, og mat á kerfisáhættu sem liggja til grundvallar við fundi fjármálastöðugleikanefndar og gefur út ritið Fjármálastöðugleika tvisvar á ári þar sem fram kemur ítarleg úttekt á þjóðhagslegu umhverfi, fjármálamörkuðum og fjármálastofnunum.

Fjármálaeftirlit
Þriðja markmið bankans er traust og örugg fjármálastarfsemi. Það felur m.a. í sér að hafa eftirlit með og framfylgja lögum og reglum um fjármálastarfsemi, meta áhættu í rekstri eftirlitsskyldra aðila og meta hæfi stjórnenda með það að markmiði að fjármálamarkaðurinn sé skilvirkur og njóti trausts til að gegna þjóðhagslegu hlutverki sínu. Fjármálaeftirlitsnefnd tekur ákvarðanir sem Fjármálaeftirlitinu eru faldar samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Meðal ákvarðana sem teknar eru af fjármálaeftirlitsnefnd má nefna ákvörðun um eiginfjárþörf kerfislega mikilvægra banka (stoð II-R), veitingu starfsleyfa til fjármálafyrirtækja og vátryggingafélaga, álagningu stjórnvaldssekta og ákvörðun um kæru til lögreglu vegna brota á lögum þar sem Fjármálaeftirliti er falið að hafa eftirlit með framkvæmd, mat á hæfi aðila til að fara með virkan eignarhlut í kerfislega mikilvægu fjármálafyrirtæki og brottvikningu stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra eftirlitsskylds aðila sem ekki er talinn uppfylla hæfisskilyrði laga. Fjármálaeftirlitsnefnd er skipuð seðlabankastjóra, varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits, varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika og þremur sérfræðingum í málefnum fjármála-markaðar sem ráðherra skipar. Seðlabankastjóri og varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits gegna báðir formennsku í nefndinni en við miðsmunandi kringumstæður. Fjármálaeftirlitsnefnd heldur fundi að jafnaði tíu sinnum á ári. Fjármálaeftirlitsnefnd er heimilt að birta ákvarðanir sínar, í samræmi við gagnsæisstefnu Fjármálaeftirlits Seðlabankans. Nefndin skal skila Alþingi skýrslu um störf sín einu sinni á ári. Varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits leiðir og hefur faglega umsjón með vinnu bankans á sviði fjármálaeftirlits og ber ábyrgð á undirbúningi vinnu fyrir fjármálaeftirlitsnefnd bankans. Fjármálaeftirlit fer fram á fjórum sviðum; banka, lífeyris og vátrygginga, markaða og viðskiptahátta og lagalegs eftirlits og vettvangsathugana. Framkvæmdastjórar sviðanna bera ábyrgð á faglegri vinnu og koma að undirbúningi ákvarðana sem lagðar eru fyrir fjármálaeftirlitsnefnd. Í ritinu Fjármálaeftirlit er skýrt frá því hvernig Seðlabankinn vinnur að þeim verkefnum sem honum eru falin á sviði fjármálaeftirlits.

Starfsemi Seðlabankans
Starfsemi Seðlabankans skiptist í sjö fagsvið auk fjögurra stoðsviða og skrifstofu bankastjóra sem sér m.a. um stefnumótun, alþjóðasamskipti, upplýsingamiðlun, reglusetningu og lögfræðiráðgjöf. Fagsvið bankans eru hagfræði og peningastefna, markaðsviðskipti, fjármálastöðugleiki, bankar, lífeyrir og vátryggingar, markaðir og viðskiptahættir og lagalegt eftirlit og vettvangsathuganir. Stoðsvið bankans eru rekstur, upplýsingatækni og gagnasöfnun, fjárhagur og mannauður. Auk þess starfar í bankanum innri endurskoðandi sem ráðinn er af bankaráði.

Mannauður
Starfsmenn Seðlabankans voru í lok árs 2020 ríflega 300, 163 karlar og 141 kona. Hlutfall háskólamenntaðra starfsmanna var um 88% og eru flestir þeirra menntaðir á sviði viðskipta- og hagfræði, lögfræði, verkfræði og upplýsingatækni. Seðlabankinn hefur sett sér að fylgja jafnlaunastefnu, að allir starfsmenn njóti jafnra launa og sömu kjara og réttinda fyrir sömu störf, og hlaut formlega jafnlaunavottun í janúar 2019. Seðlabankinn leggur áherslu á að starfsmenn hafi tækifæri til að sinna endurmenntun og sæki námskeið, fjölbreytta fræðslu og ráðstefnur á sínu sviði. Þá er það stefna bankans að starfsmenn geti vænst starfsþróunar innan bankans, m.a. með tækifærum til að flytjast milli verkefna.

Húsnæði
Starfsemi Seðlabanka Íslands flutti í húsnæði við Kalkofnsveg árið 1987 en hornsteinn hafði verið lagður að byggingunni árið áður. Fyrir flutninga hafði Seðlabankinn m.a. deilt rými með Landsbanka Íslands í þremur byggingum við Austurstræti og Hafnarstræti. Byggingin er hönnuð með starfsemi Seðlabankans í huga. Með veggjum sem snúa að Kalkofnsvegi kalla arkitektarnir fram ímynd virkis en húsið stendur á þeim stað þar sem „Batteríið“, fallbyssuvirki Jörundar hundadagakonungs, stóð áður. Lögð var áhersla á að byggt væri til langs tíma og er því um að ræða trausta og viðhaldslitla nútímabyggingu. Hún er að hluta klædd með áli og er ein fyrsta bygging af því tagi hér á landi. Á útveggjum lágbyggingar og súlum hábyggingar er gabbrósteinn úr Hoffelli í Hornafirði sem gefur henni sterkt svipmót.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd