Seltjarnarnesbær er sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu. Seltjarnarnes á sér langa og merka sögu allt frá þjóðveldisöld. Hinn forni Seltjarnarneshreppur náði yfir allt Nesið sem liggur á milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar og allt til fjalla. Jarðir voru síðan smám saman teknar út úr hreppnum og þegar Seltjarnarnes fékk kaupstaðarréttindi 1974 voru 160-170 hektarar eftir af hinum forna hreppi og íbúar tæplega 2500. Þann 1. janúar 2020 voru íbúar bæjarins 4.726. Sjö manna bæjarstjórn fer með stjórn Seltjarnarnesbæjar. Í sveitastjórnarkosningum í maí 2018 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 4 menn kjörna í bæjarstjórn, Samfylkingin 2 menn og Viðreisn/Neslistinn 1 mann. Bæjarstjóri er Ásgerður Halldórsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins. Nýtt skipurit bæjarins tók gildi 1. mars 2020. Starfseminni er þar skipt í fjögur svið: Fjölskyldusvið, skipulags- og umhverfissvið, þjónustu- og samskiptasvið og fjármálasvið. Bærinn hefur sett sér stefnu í fjölskyldu-, skóla-, starfsmanna-, umhverfis- og menningarmálum. Bæjarfélagið hefur ákveðið í erfiðri stöðu vegna veirufaraldursins COVID -19 að standa vörð um grunnþjónustu bæjarfélagsins svo sem fræðslustarfsemi, æskulýðs- og íþróttastarf og félagslega þjónustu.
Skólar og félagsstarf
Í Seltjarnarnesbæ er leikskóli, grunnskóli og tónlistarskóli. Fjöldi nemenda í leikskóla árið 2020 var 224, 562 nemendur stunduðu nám í grunnskólanum og nemendur í tónlistarskólanum voru 299. Félagsmiðstöðin Selið og Íþróttamiðstöð Seltjarnarness eru ramminn utan um æskulýðs- og íþróttastarf bæjarins. Sundlaug Seltjarnarness er 25 m löng og staðsett í Íþróttamiðstöðinni. Það eru heitir og kaldir pottar, gufubað og vatnsrennibraut. Trimmklúbbur TKS hefur aðsetur í sundlauginni og þar er kennd sundleikfimi fyrir eldri borgara. Íþróttafélagið Grótta starfar í bænum en félagið hefur innan sinna raða knattspyrnu-, fimleika- og handknattleiksdeildir. Gervigrasvöllur er við Suðurströnd. Íþróttafélagið Grótta lék í fyrsta sinn í sögunni í efstu deild karla í knattspyrnu sumarið 2020 auk þess sem karlaliðið í handknattleik spilaði í efstu deild sömuleiðis. Kvennalið Gróttu í handknattleik lék einnig í efstu deild. Golfklúbbur Ness er níu holu golfvöllur ásamt æfingasvæði við Suðurnes. Í Nesklúbbnum eru nú árið 2020 um 800 félagsmenn og fjöldi á biðlista.
Félagsstarf aldraða er í þjónustukjarna við Skólabraut 3-5 en dagvistun aldraðra fluttist haustið 2019 í Seltjörn hjúkrunarheimili sem tekið var í notkun fyrr það sama ár. Seltjörn er sérlega glæsilegt og fullkomið hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi. Seltjarnarnesbær á einnig hlut í hjúkrunarheimilinu Eir og hafa aldraðir Seltirningar val um að dvelja þar sem og hjá Hrafnistu þar sem bærinn á einnig nokkur rými.
Lista- og menningarlíf
Tilgangur menningarstefnu bæjarins er að íbúar bæjarins fái notið lista- og menningarstarfs. Leiðarljós stefnunnar er að efla áhuga, löngun og möguleika bæjarbúa til að njóta menningar. Bókasafn Seltjarnarness lánar út bækur og ýmis gögn, býður aðgang að tölvum og fjölbreyttri dagskrá og viðburði fyrir alla aldurshópa, en bókasafnið er jafnframt mennigarmiðstöð Seltirninga. Sýningarsalur Seltjarnarness, Gallerí Grótta er fjölnota salur inni á bókasafninu þar sem að haldnar eru fjölbreyttar myndlistarsýningar og ýmsir viðburðir. Á Seltjarnarnesi eru einnig náttúrugripasafn, stjörnuskoðunarfélag, lyfjafræðasafn og fræðasetur í Gróttu. Nesstofa hið sögufræga hús er ennfremur staðsett á Seltjarnarnesi. Auk þessa starfa í bænum kórar, lúðrasveit, björgunarsveit og ýmis félög og klúbbar.
Sveitarfélagið
Seltirningar eiga sína eigin hitaveitu, Hitaveitu Seltjarnarness. Seltjarnarnesbær er aðili að byggðasamlögunum Sorpu, Strætó og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins auk þess sem hann á aðild að Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis. Seltjarnarnes er þátttakandi í samstarfi Sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu SSH og situr Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri þar í stjórn.
Náttúra
Innan bæjarmarka Seltjarnarness eru tvö friðlönd, Grótta sem friðlýst var árið 1974 og Bakkatjörn árið 2000. Þar er einkum verið er að vernda fjölskrúðugt fuglalíf. Valhúsahæðin er náttúruvætti og þar er að finna rákað berg eftir ísaldarjökul, sem og herminjar frá stríðsárunum. Hún var friðlýst 1998. Seltjarnarnesbær á einnig aðild að fólkvanginum Bláfjöllum frá 1985.
Við gerð aðalskipulags hefur bærinn sett sér að tekið verði mið af varðveislu náttúrugæða og menningarverðmæta. Íbúum verði auðveldað að njóta náttúru, sögu og menningarminja.
Starfsmannastefna og aðsetur
Í árslok 2020 voru 238 stöðugildi hjá Seltjarnarnesbæ og 350 starfsmenn.
Seltjarnarnesbær leggur rækt við menntunarmál starfsfólks þannig að hagnýt og fræðileg þekking þess sé ætíð í samræmi við kröfur tímans. Starfsmannastefna bæjarins er í 20 liðum þar sem meðal annars eru sett fram markmið og siðareglur fyrir starfsfólk. Bæjarstjórnin hefur m.a. samþykkt eineltisáætlun, fjölskyldustefnu, jafnréttisstefnu og siðareglur fyrir kjörna bæjarfulltrúa.
Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2020 var unnin sameiginlega af öllum bæjar-fulltrúunum. Niðurstaða ársreiknings Seltjarnarness fyrir árið 2019 ber vott um sterka fjárhagsstöðu bæjarins. Skrifstofur Seltjarnarnesbæjar eru Austurströnd 2, síminn er 595-9100 og netfang [email protected]
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd