Sementsverksmiðjan hf.

2022

Sementsverksmiðjan ehf. er með lögheimili á Akranesi. Árið 1948 voru samþykkt heimildarlög á Alþingi um byggingu sementsverksmiðju og var henni valinn staður á Akranesi. Sementsverksmiðjan var í fyrstu eign íslenska ríkisins, en var breytt í hlutafélag í eigu ríkisins frá og með 1. janúar 1994. Samþykkt var á árinu 2003 heimild til iðnaðarráðherra til að selja eignarhluta ríkissjóðs í Sementsverksmiðjunni hf. og eignaðist Íslenskt sement ehf. verksmiðjuna í framhaldi af því. Á árinu 2011 varð Sementsverksmiðjan einkahlutafélag.

Eigendur
Núverandi eigandi Sementsverksmiðjunnar er Eignarhaldsfélagið Hornsteinn, sem er í meirihlutaeigu HeidelbergCement, en auk þess eiga nokkur innlend fyrirtæki eignarhlut í Hornsteini. Eignarhaldsfélagið á þrjú dótturfyrirtæki, Björgun ehf., Sementsverksmiðjuna ehf. og BM Vallá ehf. Heidelberg Cement er alþjóðlegt fyrirtæki leiðandi í framleiðslu á fylliefnum, sementi, steypu og steinsteypueiningum.

Stjórnendur
Fyrsti framkvæmdastjóri Sementsverksmiðju ríkisins var dr. Jón E. Vestdal sem starfaði til 1967. Svavar Pálsson var framkvæmdastjóri 1968-1971 og fjármálalegur framkvæmdastjóri 1972 -1977. Dr. Guðmundur Guðmundsson var tæknilegur framkvæmdastjóri frá 1972-1993. Gylfi Þórðarson var fjármálalegur framkvæmdastjóri frá 1978-1993 og framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar hf. frá 1994-2005. Gunnar H. Sigurðsson hefur verið framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar ehf. frá 2005.
Núverandi stjórn Sementsverksmiðjunnar ehf. skipa Þorsteinn Víglundsson formaður, Giv Brandenberg og Sigurður Magnússon.

Starfsemin
Þann 14. júní 1958 var í fyrsta sinn kveikt undir gjallbrennsluofninum og þar með hóf verk-smiðjan sementsframleiðslu. Framleiðslugeta fyrirtækisins var um 115 þúsund tonn af sementsgjalli á ári, en úr því gjalli var hægt að framleiða um 135 þúsund tonn af sementi. Verksmiðjan gat malað umtalsvert meira af sementsgjalli en nam hámarks gjallframleiðslu hennar. Þegar á þurfti að halda var flutt inn gjall til mölunar. Þannig var hægt að mæta auknum kröfum landsmanna þegar á þurfti að halda.
Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og eftir fjárhagslega endurskipulagningu var ákveðið að hætta sementsframleiðslu á Akranesi. Fyrirtækinu var breytt í innflutningsfyrirtæki og hófst innflutningur sements á árinu 2012. Sementsverksmiðjan flytur í dag inn þrjár sementstegundir frá norska sementsfrsmleiðandanum Norcem AS. Sementstegundirnar eru Anleggsement, Standardsement FA og Industrisement. Anleggsenmentið er hreint portlandsement, Standardsementið er svokallað blandað sement en Industrisementið er hraðsement.
Sementið er flutt til landsins í sérútbúnum skipum í 7.200 tonna förmum. Úr skipunum er sementinu dælt í birgðastöðvar. Sementsverksmiðjan rekur tvær birgðastöðvar, 16.000 tonna birgðastöð á Akranesi og 4.000 tonna birgðastöð á Akureyri. Út frá birgðastöðvunum er sementinu dreift til viðskiptavina sem eru steypuframleiðendur, múr- og einingaverksmiðjur. Sementinu er dreift í sérútbúnum bílum sem taka um 30 tonn hver. Sementinu er dælt með lofti úr bílunum í sementssíló í eigu viðskiptavina.
Í starfsstöð fyrirtækisins á Akranesi er aðstaða til pökkunar í stórsekki sem taka allt að einu og hálfu tonni. Pökkun sements í 20 kg sekki er úthýst og sér múrdeild BM Vallár í Garðabæ um þá pökkun. Pakkað sement í 20 kg sekkjum er selt í öllum helstu byggingarvöruverslunum landsins.

Starfsfólk
Starfsmannafjöldi Sementsverksmiðjunnar hefur verið breytilegur í gegnum árin. Í upphafi störfuðu um 80 manns við framleiðsluna. Þegar mest var um 1980 störfuðu tæplega 200 manns hjá fyrirtækinu. Með aukinni tæknivæðingu og hagræðingu fækkaði starfsfólki. Í dag starfa einungis 5 starfsmenn hjá fyrirtækinu, en dreifingu sements, rekstri birgðarstöðvar á Akureyri, skrifstofuhaldi, rannsóknarstarfssemi og mötuneyti hefur verið úthýst.

Gæðavottun
Mikil áhersla er lögð á að gæði sementsins uppfylli kröfur viðskiptavina og standist allar skilgreindar gæðakröfur samkvæmt stöðlum. Til að tryggja gæðin hefur Sementsverksmiðjan rekið vottað gæðakerfi frá árinu 1998, eða í um 24 ár. Þá hefur félagið aðgang að sérfræðingum í málefnum sements, bæði innanlands og utan, sem ávallt eru reiðubúnir að veita viðskiptavinum okkar upplýsingar og stuðning.

Umhverfismál
Við framleiðslu sements er kalksteinn brenndur í gjallbrennsluofnum við um 1450 celsíus-gráður, en við það efnaferli losnar koldíoxíð. Sementsframleiðsla í heiminum er þannig sú framleiðsla sem er einna mest mengandi með tilliti til gróðurhúsalofttegunda. Með aukinni umhverfisvitund stjórnvalda og almennings er nú lögð áhersla á að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Til að bregðast við þessari áskorun hefur framleiðandi sementsins Norcem AS sett sér það markmið, að á árinu 2030 verði sementið frá Noregi að fullu kolefnisjafnað. Þetta hyggst framleiðandinn meðal annars gera með því að fanga koldíoxið úr útblæstri gjallbrennsluofnanna og koma þannig í veg fyrir að það berist í andrúmsloftið. Sement frá Norcem verður þannig ennþá umhverfisvænna byggingarefni.

Stjórn

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd