Seyðisfjörður er djúpur fjörður umkringdur háum tilkomumiklum fjöllum. Þéttbýlið stendur fyrir botni fjarðarins á milli Bjólfs og Strandartinds. Áður voru einnig þorp á Eyrum og Vestdalseyrum. Á Búðareyrinni við „Lónið“ er nokkuð samfelldur kjarni af gömlum timburhúsum sem flest eru byggð um aldamótin 1900, auk þess sem slík hús eru víða annars staðar í bænum og setja mikinn svip á þéttbýlið. Hús þessi eru byggð að norskri fyrirmynd og mörg hver flutt inn frá Noregi. Byggð hefur verið á Seyðisfirði allt frá landnámsöld er Bjólfur nam þar land. Verslun hófst á Seyðisfirði 1848 og óx brátt mikið. Varð það upphaf þéttbýlis á staðnum. Eftir miðja 19. öld hófu Norðmenn síldveiðar fyrir Austurlandi og höfðu snemma mikil umsvif á Seyðisfirði. Fjölgaði þá íbúum mikið og fékk staðurinn kaupstaðarréttindi 1895, en þá voru íbúar 567 talsins.
Sagan
Í sögu bæjarins hafa skipst á skin og skúrir og hafa síldargöngur og aflabrögð ráðið þar miklu. Seyðisfjörður kom mikið við sögu í síðari heimsstyrjöldinni og var m.a. ein helsta viðkomustöð flota bandamanna í siglingum til Múrmansk. Bærinn varð þá nokkrum sinnum fyrir loftárásum Þjóðverja. Í einni slíkri, 10. febrúar 1944, var olískipinu El Grilló sökkt og hvílir það á botni fjarðarins. Töluverður olíuleki hefur verið frá flakinu og hefur í gegnum árin verið farið í veigamiklar hreinsunaraðgerðir, m.a. árið 2020 þegar Landhelgisgæslan var fengin í að steypa upp í lok á flakinu. Einn af merkari atburðum í sögu Seyðisfjarðar var þegar sæsímastrengur frá útlöndum var lagður til Íslands og tekinn í land í firðinum árið 1906. Í kjölfar þess teygðu símalínur sig þaðan vítt um landið. Rafstöð var reist við Fjarðará árið 1913 og er elsta starfrækta riðstraumsvirkjun í landinu. Þar er lítið safn á vegum RARIK, þar sem sögu virkjunarinnar og rafvæðingar eru gerð skil með munum og myndum.
Skólastarf
Skóli hefur verið starfræktur á Seyðisfirði frá 1881. Glæsilegt skólahús sem í daglegu tali kallast Gamli skóli, kom tilhöggvið frá Noregi og var reist á þremur mánuðum árið 1907, en svokallaður Nýi skóli eða rauða byggingin austan megin við Sólveigartorg var tekið í notkun árið 1986. Rauða húsið hýsir stofur undir list- og verkgreinar og má því kalla listadeild en þar er einnig að finna sameiginlegt bókasafn bæjarins og skólans. Haustið 2016 hófst skólastarf í sameinuðum þriggja deilda skóla undir nafninu Seyðisfjarðarskóli, skiptist hann í grunnskóladeild, leikskóladeild og listadeild. Að auki er skipulögð stoðdeild.
Samgöngur
Inn úr firðinum gengur dalverpi í áttina að Fjarðarheiði og um þá heiði liggur vegurinn til Egilsstaða, sem gerður var akfær 1934. Fjarðarheiðin hefur frá upphafi verið mikill farartálmi þegar veður eru vond. Samkvæmt núgildandi samgönguáætlun er gert ráð fyrir því að Fjarðarheiðargöng verði næsta jarðgangnaframkvæmd á landinu. Fjarðarheiðargöng eru nú í matsferli og áætlað að framkvæmdir hefjist árið 2022. Árið 1975 hófu Færeyingar áætlunarferðir á sumrin með bíla- og farþegaferju milli Seyðisfjarðar og Norðurlanda, í samvinnu við heimamenn. Í dag flytur Norræna ríflega 20 þúsund farþega til og frá landinu árlega. Komum skemmtiferðaskipa hefur fjölgað mikið í áranna rás, ríflega 40 þúsund skemmtiferðaskipafarþegar komu til Seyðisfjarðar árið 2019 með 68 skemmtiferðaskipum, en það ár var metár í bæði fjölda skipa og skemmtiferðarskipafarþega.
Lista-, menningar- og atvinnulíf
Menningarlíf er í miklum blóma á Seyðisfirði. Í dag má þar finna rótgrónar stofnanir á borð við Tækniminjasafn Austurlands og Skaftfell – myndlistamiðstöð Austurlands. Tækniminjasafn Austurlands fjallar um sögu Íslands með áherslu á tæknivæðingu landsins frá um 1880 til dagsins í dag. Vegna sérhæfingar safnsins er mikið um óvenjulegar vélar og aðrar menningarminjar sem ekki eru til sýnis í mörgum öðrum söfnum landsins. Starfsemi Skaftfells er helguð samtímamyndlist á alþjóðavísu og þjónar sem tengiliður á milli leikinna og lærðra. Í Skaftfelli er öflugt sýningahald og viðburðadagskrá, gestavinnustofur fyrir alþjóðlega lista-menn og fjölþætt fræðslustarf. Skaftfell tekur árlega á móti nemendum frá Listaháskóla Íslands. Á Seyðisfirði má finna fjölda skúlptúra sem gleðja augað. Auk þess má einnig finna og upplifa fjölbreytta viðburði sem sannarlega hafa fest sig í sessi á landsvísu; Sumartónleikaröðina Bláa kirkjan, Smiðjuhátíð Tækniminjasafnsins, List í ljósi og LungA listahátíð. LungA hátíðin hefur verið haldin í tuttugu ár og hefur frá upphafi haft það að markmiði að efla áhuga ungs fólks á menningu og listum. LungA skólinn verður til út frá LungA listahátíð árið 2013, en skólinn er fyrsti lista-lýðskólinn á Íslandi og er í ferli um að verða viðurkennd menntastofnun innan skólakerfis landsins. Hið blómlega menningarlíf í bland við náttúrufegurð fjarðarins hefur laðað marga að staðnum og hefur heimsóknum ferðamanna til Seyðisfjarðar, á bæði landi og legi, fjölgað umtalsvert á síðasta áratug. Fjölmörg tækifæri eru til útivistar í Seyðisfirði og má t.a.m nefna Hagavöll sem er níu holu golfvöllur, skíðasvæðið í Stafdal og fjölda stikaðra gönguleiða. Seyðisfjörður þykir einnig einkar góður til sjósækinnar útivistar.
Ferðaþjónusta sem atvinnugrein hefur sótt í sig veðrið og er nú ein helsta atvinnugrein Seyðisfjarðar, ásamt hafnsækinni atvinnu. Ísfisktogarinn Gullver NS er gerður út frá Seyðisfirði og er fiskurinn unninn í frystihúsi Gullbergs ehf. Síldarvinnslan hf. starfrækir þar eina fullkomnustu fiskimjölsverksmiðju landsins.
Sameining sveitarfélaga
Í október 2019 var gengið til kosninga um mögulega sameiningu sveitarfélaga, sem yrði það stærsta að flatarmáli á Íslandi. Afgerandi niðurstaða fékkst með sameiningu fjögurra sveitarfélaga og þann 4. október 2020 rann Seyðisfjarðarkaupstaður inn í nýtt sameinað sveitarfélag, Múlaþing. Í nýju sveitarfélagi eru saman komin, fyrrum Seyðisfjarðarkaupstaður, Fljótsdalshérað, Djúpavogshreppur og Borgarfjörður eystri, með alls fimm þúsund og tvo íbúa.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd