Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) eru heildarsamtök fjármála- og tryggingafélaga á Íslandi.
Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) tóku formlega til starfa í janúarbyrjun árið 2007 en þau urðu til í nóvember 2006 þegar Samtök banka og verðbréfafyrirtækja (SBV) sameinuðust Sambandi íslenskra tryggingarfélaga (SÍT). Áður höfðu SBV orðið til við sameiningu Sambands íslenskra viðskiptabanka (SÍV), Sambands lánastofnana (SL) og Samtaka verðbréfafyrirtækja (SV) í desember 2000. Í byrjun árs 2020 eru aðildarfyrirtæki samtakanna tuttugu og fimm talsins.
Í byrjun júní 2020 var Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans kjörin formaður SFF en hún tók við af Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka.
SFF leggja áherslu á gott samtal og góða samvinnu við stjórnvöld, eftirlitsstofnanir, atvinnulíf og ekki síst fólkið í landinu. Markmið SFF er að stuðla að samkeppnishæfum starfsskilyrðum með áherslu á heilbrigt, traust, skilvirkt og þjónandi fjármálakerfi. SFF leggja sig fram við að auka þekkingu á starfsemi fjármálafyrirtækja og tryggingafélaga, starfsumhverfi þeirra, með gagnaöflun og upplýsingagjöf. Fulltrúar samtakanna taka virkan þátt í opinberri umræðu með því að hlusta, greina það sem betur má fara og leita leiða til úrbóta – atvinnulífi og heimilum til hagsbóta.
Samtökin eru virk í alþjóðasamstarfi enda starfa aðildarfyrirtæki þeirra í alþjóðlegu umhverfi og að mestu samkvæmt evrópsku lagaumhverfi. SFF eiga aðild að Evrópsku bankasamtökunum (EBF) og Samtökum evrópskra tryggingafélaga (Insurance Europe) og eiga m.a. fulltrúa í framkvæmdastjórn beggja samtaka. SFF eiga einnig í nánu samstarfi við norræn systursamtök.
Fjármálafyrirtæki og tryggingafélög eru leiðandi í tækninýjungum og stafrænum lausnum í sínu þjónustuframboði. Því eru SFF aðilar að Fjártækniklasanum og Nordic Future Innovation (NFI).
Á vegum SFF er jafnframt haldið úti fjölda sérfræðihópa um þau viðfangsefni sem eru á borðum samtakanna hverju sinni. Sérfræðihóparnir eru skipaðir fulltrúum samtakanna og aðildarfélaganna. Þar með er sótt í víðtækan og fjölbreyttan þekkingargrunn sem nýtist í öllu starfi samtakanna. Samtökin hafa á undanförnum árum lagt mikla áherslu á fjármálafræðslu og reka í því skyni fjármálalæsisverkefnið Fjármálavit í samstarfi við Landssamtök lífeyrissjóða.
Hjá SFF starfa sex sérfræðingar með mikla reynslu á ólíkum sviðum fjármála- og trygginga-markaða. Telur samanlögð starfsreynsla þeirra 32 ár hjá samtökunum og tæp 90 ár þegar önnur reynsla á fjármála – og tryggingamörkuðum er meðtalin.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd