Sigurður Ólafsson ehf.

2022

Hinn 10. maí 1972 var skrifað undir kaupsamning á 78 tonna trébáti Þerney KE af Einari
Sigurðsyni (Ríka) og var Þerney gefið nafnið Sigurður Ólafsson SF 44. Skömmu síðar var stofnað hlutafélagið Sigurður Ólafsson ehf. Stofnendur voru Ólafur Björn Þorbjörnsson skipstjóri, Sigurbjörg Karlsdóttir, Óskar Guðmundsson skipstjóri, Laufey Óskarsdóttir og Baldur Bjarnarson vélstjóri. Tilgangur félagsins var að reka útgerð og skylda starfsemi. Byggt var 500 fm fiskverkunar- og veiðarfærahús. Sigurður Ólafsson SF44 var gerður út á línu, net og humartroll. Sáu Ólafur Björn og Óskar um skipstjórn og Baldur um vélstjórn og voru að jafnaði 7-10 ársverk hjá fyrirtækinu fyrstu árin. Árið 1979 var ákveðið að stækka bátinn og var þá 70 tonna trébátnum skipt út fyrir 105 tonna stálbát. Sá bátur hafði verið smíðaður 1960 fyrir Guðmund Runólfsson og hét í upphafi Runólfur SH 135 og síðar Sigurvon og Sigurður Sveinsson áður en hann kemur til Hornafjarðar og fær þá sama nafn og trébáturinn hafði borið, eða Sigurður Ólafsson SF 44. Báturinn var svo áfram gerður helst út á línu, net og troll en einnig til síldveiða í reknet.1986 var Hrellir ehf.stofnaður af Sigurði Ólafssyni ehf., Guðjóni Þorbjörnssyni og eigendum Garðeyjar ehf. og var tilgangur félagsins útflutningur á fiski og flutninga/bryggjuþjónusta við útgerðir.

Starfsemin
Fiskmarkaður Hornafjarðar var stofnaður 1992 og var Sigurður Ólafsson ehf. ogHrellir ehf. stofnfélagar. 1999 var útflutningsstarfsemi og bryggjuþjónusta Hrellis ehf., seld inn í Fiskmarkað Hornafjarðar og Guðjón kaupir allt hlutafé félagsins sem frá þeim tíma er eingöngu ráðgjafafyrirtæki í sjávarútvegi. Árið 1987 var svo Sigurði Ólafssyni SF 44 siglt til Þýskalands þar sem hann var lengdur, yfirbyggður og breytt í nótabát. Kom hann úr þeim framkvæmdum í september 1987 og fór þá beint til síldveiða með hringnót og svo áfram næstu ár var honum haldið til veiða með net, fiskitroll og humartroll, auk nótaveiðana en nótaveiðar voru stundaðar á bátnum frá 1987 og til 1998 en þá var síldarkvótanum skipt út fyrir þorsk. Árið 1987 var svo að auki keyptur Sómi 800 sem gefið var nafnið Kalli SF 144 og var hann svo gerður út á handfæri á sumrin og sá Óskar um skipstjórn á honum en þess á milli sá hann um netavinnu í landi en Ólafur og Baldur áfram um skip- og vélstjórn á Sigurði Ólafssyni SF 44. 
Ársverk félagsins á þessum árum voru áfram u.þ.b. 11 en misjafnt var hversu margir voru í áhöfn eftir því á hvaða veiðafæri var gert út en kjarni mannskapsins jafnan sá sami. 
Árið 1995 stofnar Sigurður Ólafsson ehf. ásamt nokkrum aðilum á Hornafirði útgerðafyrirtækið Melavík ehf. Keyptur var bátur sem fékk sama nafn eða Melavík SF 34 og var hann gerður út til línuveiða. Melavík ehf. var svo seld ásamt kvóta til Fiskiðjusamlags Húsavíkur árið 2002.
Árið 2002 var Sómanum skipt út fyrir nýrri Sómabát og sá Óskar áfram um skipstjórn auk landvinnu. Sigurður Ólafsson SF 44 hefur svo til þessa dags verið gerður út á mismunandi veiðafæri eftir ástandi, mörkuðum og hentugleika hverju sinni þar sem alltaf hefur verið hugsað um að hámarka verðmæti þess afla sem borin er að landi og eftir að kvótakerfið kom á var enn meira lagt í að stilla útgerðina af miðað við mestu verðmæti hverju sinni.
Undanfarin ár hefur aflanum nánast eingöngu verið landað á fiskmarkað en humar seldur ferskur beint til veitingastaða. Útgerðarmynstur bátana hefur verið þannig að Kalli SF 144 hefur verið gerður út til strandveiða á sumrin. Sigurður Ólafsson hefur verið gerður út á þorskveiðar í net á vetrarvertíð frá janúar og fram í apríl, en þá hefur verið skipt yfir á humartroll og humar veiddur fram á mitt sumar. Á haustin hefur svo verið stunduð trollveiði í humar- eða fiskitroll eins og betur hefur hentað hverju sinni. Áhöfnin er að jafnaði 7 fastar stöður en svo hafa þrír lausamenn sem bæst við á netaveiðum, því þá eru 10 í áhöfn þannig að með starfsmönnum í landi eru þetta u.þ.b. 10-12 ársverk hjá félaginu. Í gegn um tíðina hefur að auki verið fjárfest í fiskveiðiheimildum, bæði beint og með því að kaupa upp smærri útgerðir.

Mannauður
Starfsmannavelta fyrirtækisins hefur alltaf verið mjög lítil með föstum kjarna og mjög hægum mannabreytingum í öllum stöðum. Flestir manna hafa verið árum saman og jafnvel áratugi í vinnu hjá fyrirtækinu. Rekstur félagsins hefur að jafnaði gengið vel en sveiflast með mörkuðum, afurðaverði og rekstargrundvelli hverju sinni. Stjórn félagsins hefur alla tíð verið í höndum eigenda félagsins sem í upphafi vorum fimm en tveir ef þeim eru látnir í dag, eða þau Baldur Bjarnason d. 19. maí 2010 og Sigurbjörg Karlsdóttir d. 6. júní 2017.
Árið 2018 fer Ólafur skipstjóri í land og við skipstjórn á Sigurði Ólafssyn SF 44 tekur Sigurður Ólafsson sem áður var stýrimaður og afleysingaskipstjóri. Ólafur fer þá í landvinnuna með Óskari. Á síðustu árum hefur svo þriðji ættliður Ólafs komið til starfa um borð í Sigurð Ólafsson SF 44. Í dag er stjórn félagsins skipuð þeim Ólafi Birni Þorbjörnssyni, Óskari Guðmundssyni og Kristínu Einarsdóttur sem öll eru eigendur og Sigurður Ólafsson til vara.

Aðsetur
Árið 1996 var skipt um húsnæði og stærra og hentugra húsnæði keypt að Krosseyjarvegi 17 og þar hefur síðan verið vinnuaðstaða útgerðarinnar á neðri hæð en efri hæð skrifstofurýmis leigð út til bókhaldsstofu.

Hlíðartúni 21
780 Höfn í Hornafirði
8944044
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd