Síldarminjasafnið

2022

Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði er stærsta sjóminja- og iðnaðarsafn landsins, en uppbygging þess hefur verið einstök á landsvísu. Síldarminjasafnið er dæmi um safn, sem segja má að hafi sprottið upp úr grasrótinni með framtaki Félags áhugamanna um minjasafn, FÁUM. Með stofnun félagsins árið 1989 hófst ötul og fórnfús vinna sjálfboðaliða við endurgerð Róaldsbrakka sem áður var hluti af einni stærstu söltunarstöð landsins; glæsilegt háreist hús, byggt í sjó fram. Eftir að brakkinn var endurgerður, var framan við húsið smíðað síldarplan og bryggjustúfur sem stendur fram í lítið lón þannig að líkt er eftir umhverfi hússins á árum áður. Róaldsbrakki var vígður sem fyrsta safnhús Síldarminjasafnsins þann 9. júlí 1994. Síðan þá hefur safnið vaxið mjög og dafnað. Árið 1998 var hafist handa við uppbyggingu Gránu, bræðsluminjasafns og aðeins tveimur árum seinna voru lögð fram drög að nýrri húsbyggingu; Bátahúsinu. Verkefnin voru ærin á næstu árum. Grána var vígð sumarið 2003 og aðeins ári seinna var sýningin í Bátahúsinu opnuð almenningi. Í umræddum þremur safnhúsum fá gestir innsýn í hið stórbrotna og heillandi síldarævintýri og kynnast sögu síldveiða og vinnslu á silfri hafsins – en síldin var einn helsti örlagavaldur Íslands á tuttugustu öld. Róaldsbrakki er norskt síldarhús frá 1907. Þar er flest eins og var á árum áður, þegar síldarstúlkur bjuggu í húsinu sumarlangt. Í Gránu er að finna dæmi um litla síldarverksmiðju frá því á fjórða áratugnum og kynnast gestir þar sögu bræðsluiðnaðarins, sem löngum var kallaður fyrsta stóriðja Íslendinga. Í Bátahúsinu eru bátar bundnir við bryggjur, búnir viðeigandi veiðarfærum, með það að markmiði að endurskapa lítinn hluta af síldarhöfninni frá því um miðja síðustu öld. Neta- og beitningaskúrar standa til hliðar sem minnisvarðar um þá fjölbreyttu iðju sem fram fór á höfninni á árum áður. Hákon krónprins Noregs vígði húsið við hátíðlega athöfn árið 2004. Árið 2014 var hafist handa við endurreisn Salthússins svokallaða, 18. aldar pakkhúss sem upprunalega var í eigu Rússakeisara sem hluti af hvalstöð. Húsið hefur ferðast víða en mun þjóna hlutverki varðveisluhúss Síldarminjasafnsins í framtíðinni. Umfangsmiklum safnkosti verður komið fyrir við kjöraðstæður. Þar að auki verður ný sýning um veturinn í hluta hússins.

Hlutverk, verðlaun og viðurkenningar
Hlutverk Síldarminjasafnsins er að tryggja söfnun og varðveislu menningarsögulegra minja, tengdum síldveiðum og iðnaði. Sögu síldarævintýrisins svokallaða er miðlað í sýningum safnsins, með bókaútgáfu og safnkennslu, með fyrirlestrum og öðrum kynningum. Starfsmenn safnsins stunda að jafnaði rannsóknir og skráningu á safnkosti. Síldarminjasafnið hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir sýningar sínar og starfsemi. Hæst ber að nefna Íslensku safnverðlaunin árið 2000 og Evrópuverðlaun safna sem besta nýja iðnaðarsafn Evrópu 2004. Gestum hefur farið verulega fjölgandi ár eftir ár – á tuttugu árum fjölgaði gestum úr 5.000 á ári í tæp 28.000. Safnið er sjálfseignarstofnun og í stjórn þess sitja fulltrúar frá Félagi áhugamanna um minjasafn og sveitarfélaginu Fjallabyggð auk þess sem safnstjóri skipar fulltrúa í stjórn.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd