Stofnfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn í Neskaupstað 11. desember 1957. Helsta ástæðan fyrir stofnun félagsins var aukin síldveiði úti fyrir Austfjörðum. Síldarsöltun hafði hafist á ný í Neskaupstað eftir langt hlé árið 1952 en vöntun á afkastamikilli síldarverksmiðju var dragbítur á slíka starfsemi. Fyrir lá að ef Neskaupstaður ætti að verða síldarbær sem stæði undir nafni yrði að reisa þar síldarverksmiðju sem tæki við úrgangi frá söltunarstöðvum auk þess afla sem ekki reyndist hæfur til söltunar. Fyrsta verkefni hins nýja félags skyldi verða að reisa slíka verksmiðju. Öruggt þótti að verksmiðja á þessum stað myndi fá nægilegt hráefni yfir vertíðartímann því síldin veiddist skammt frá landi og á annan tug síldarbáta voru gerðir út frá Neskaupstað þegar hér var komið sögu.
Í upphafi var Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) stærsti hluthafinn í Síldarvinnslunni með 60% hlut. Bæjarsjóður Neskaupstaðar átti 10% og Dráttarbrautin hf. í Neskaupstað 6%. Aðrir hluthafar voru 32 talsins og voru það bæði fyrirtæki og einstaklingar. Samkvæmt stofnsamningi, sem samþykktur var á stofnfundi Síldarvinnslunnar, var megintilgangur félagsins að reisa og reka síldarverksmiðju, síldarverkun og annan skyldan rekstur.
Upphaf starfseminnar
Fljótlega eftir stofnun Síldarvinnslunnar var tekin ákvörðun um að reisa 2.400 mála síldarverksmiðju. Vélsmiðjan Héðinn í Reykjavík var fengin til að hanna verksmiðjuna en ákveðið var að festa kaup á notuðum vélbúnaði frá síldarverksmiðjunni á Dagverðareyri við Eyjafjörð. Framkvæmdir við byggingu verksmiðjunnar hófust í aprílmánuði 1958 og 17. júlí um sumarið var tekið á móti fyrstu síldinni til vinnslu.
Um 4.000 tonn af síld bárust til verksmiðjunnar á fyrstu vertíðinni og þótti tilkoma hennar marka skýr þáttaskil í atvinnusögu Neskaupstaðar. Á næstu árum tók verksmiðjan á móti miklu hráefni og skilaði góðum arði. Það var hún sem lagði grunn að sterku fyrirtæki. Síðar var verksmiðjan endurbætt og voru oft slegin met á hinum svonefndu síldarárum. Verksmiðjan tók á móti mestu hráefni árið 1966 en þá voru unnin í henni 107.533 tonn af síld.
Útgerð hafin – fjölþættari starfsemi
Árið 1963 tók stjórn Síldarvinnslunnar ákvörðun um að fyrirtækið skyldi hefja útgerð. Samið var um smíði á tveimur 264 tonna síldveiðiskipum í Austur-Þýskalandi og átti rekstur þeirra að stuðla að öruggari hráefnisöflun fyrir síldarverksmiðju fyrirtækisins. Skipin tvö, sem fengu nafnið Barði og Bjartur, komu í fyrsta sinn til heimahafnar í mars- og maímánuði 1965 og gekk útgerð þeirra vel frá upphafi.
Velgengni á útgerðarsviðinu leiddi brátt til þess að Síldarvinnslan festi kaup á tveimur skipum til viðbótar. Síldveiðiskipið Börkur kom nýtt til landsins árið 1966 og ári síðar bættist Birtingur í flotann. Bæði þessi skip voru rúmlega 300 tonn að stærð og smíðuð í Noregi.
Mikil breyting varð á framleiðslustarfsemi Síldarvinnslunnar í marsmánuði 1965. Þá var gengið frá kaupsamningi á milli Síldarvinnslunnar og SÚN sem fól í sér að Síldarvinnslan festi kaup á eftirtöldum eignum og framleiðslutækjum sem SÚN hafði átt og rekið: Hraðfrystihús, fiskimjölsverksmiðja, lifrarbræðsla, ísframleiðsla, fiskhjallar og helmingshlutur í síldarsöltunarstöð. Með þessum kaupum jukust umsvif Síldarvinnslunnar mikið. Fyrirtækið hóf að sinna fiskiðnaði með fjölbreyttum hætti og starfsfólki fjölgaði mikið. Kaupin vöktu einnig athygli vegna þess að þarna var í reynd dótturfélag að festa kaup á öllum helstu eignum móðurfélags.
Að því kom að veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum brugðust og þá færðust áherslur Síldarvinnslunnar yfir á botnfisk- og loðnuveiðar. Árið 1970 markaði nokkur þáttaskil í sögu fyrirtækisins en þá festi það kaup á fyrsta fullbúna skuttogara Íslendinga. Skipið var keypt notað frá Frakklandi og fékk nafnið Barði. Annar skuttogari, Bjartur, bættist síðan í flota fyrirtækisins árið 1973 og sá þriðji, Birtingur, árið 1977. Síldarvinnslan hóf móttöku á loðnu árið 1968 og brátt urðu veiðar og vinnsla loðnu mikilvægur þáttur í starfsemi fyrirtækisins. Sama ár hóf Síldarvinnslan saltfiskverkun í verulegum mæli þannig að segja má að starfsemi fyrirtækisins hafi sífellt orðið fjölbreyttari.
Síldarvinnslan þurfti oft að aðlaga starfsemi sína breyttum aðstæðum á sviði veiða og vinnslu. Árið 1973 festi fyrirtækið kaup á stóru nótaskipi, Berki, sem ætlað var að tryggja verksmiðjunni í Neskaupstað aukið hráefni. Árið 1981 var annað nótaskip keypt, Beitir, sem jafnframt var ætlað að tryggja að hráefni bærist til Neskaupstaðar. Ári eftir kaupin á Beiti voru gerðar breytingar á skipinu þannig að það gat lagt stund á loðnu- og botnfiskveiðar jöfnum höndum. Beiti var síðan breytt í frystitogara árið 1987 og árið 1989 var skuttogarinn Barði keyptur en hann hafði möguleika á því að heilfrysta aflann um borð. Árið 1996 var flökunarlína síðan sett í Barða. Rækjufrystitogarinn Blængur var keyptur árið 1993 og var hann eitt af fyrstu skipunum í eigu Íslendinga sem sérútbúið var til rækjuveiða. Vegna samdráttar í rækjuveiðum var Blængur seldur árið 1998.
Staðreyndin er sú að Síldarvinnslan var ávallt að gera breytingar á starfsemi sinni. Veiðar breyttust og þróuðust og sífellt þurfti að vera vakandi yfir því hvernig skynsamlegast var að hagnýta aflann.
Snjóflóðin 1974 voru mikið áfall
Föstudagsins 20. desember árið 1974 verður lengi minnst í Neskaupstað. Þann dag féllu tvö snjóflóð innarlega í bænum og lögðu helstu framleiðslutæki bæjarbúa í rúst og stórskemmdu önnur. Tólf manns týndu lífi í flóðunum. Fyrra flóðið féll á helsta athafnasvæði Síldarvinnslunnar og gereyðilagði loðnuverksmiðjuna og fleiri byggingar og tanka sem stóðu í grenndinni. Fiskvinnslustöðin skemmdist einnig mikið og starfsmannahús sem stóð ofan við hana brotnaði í spón. Sjö af þeim sem fórust í flóðunum voru fastir starfsmenn Síldarvinnslunnar.
Tjón Síldarvinnslunnar af völdum þessara náttúruhamfara var gífurlegt og þrátt fyrir fögur fyrirheit fór því fjarri að allt tjón fyrirtækisins fengist bætt. Ótrúlega skömmu eftir flóðin tóku hjól atvinnulífsins að snúast á ný. Niðurlagningaverksmiðja Síldarvinnslunnar hóf starfsemi fljótlega, en sú verksmiðja hafði tekið til starfa árið 1971. Allur báta- og togarafiskur var saltaður í fyrstu en 20. mars 1975 hófst vinnsla í hraðfrystihúsi fyrirtækisins á ný.
Vegna hamfaranna var engin loðnuvinnsla í Neskaupstað á árinu 1975. Í ársbyrjun 1975 var tekin ákvörðun um að reisa nýja loðnuverksmiðju við nýju höfnina fyrir botni fjarðarins. Í júlímánuði hófust framkvæmdir við byggingu verksmiðjunnar og 12. febrúar 1976 var fyrstu loðnunni landað til vinnslu í henni.
Fyrirtæki í vörn og sókn
Á árunum eftir snjóflóðin og fram yfir 1990 var rekstur Síldarvinnslunnar fjarri því að vera dans á rósum. Að vísu voru keypt skip á þessu tímabili en fjárfestingarnar voru fyrirtækinu erfiðar. Á umræddum tíma var afurðaverð oft lágt og rekstrarskilyrði óhagstæð. Undir lok þessa skeiðs mátti þó eygja bjartari tíma.
Árið 1994 urðu nokkur þáttaskil í sögu Síldarvinnslunnar en þá var tekin ákvörðun um að skrá hlutabréf í fyrirtækinu á markaði og mikið vaxtarskeið hófst. Segja má að þetta vaxtarskeið standi enn þó Síldarvinnslan hafi verið skráð úr Kauphöllinni 2004. Tímabilið sem hér um ræðir einkenndist fyrst af hlutafjáraukningu en allan tímann af góðri afkomu og auknum styrk á flestum sviðum. Ýmislegt var fyrirtækinu hagstætt eins og til dæmis veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum, kolmunnaveiðar og síðast en ekki síst makrílveiðar.
Síldarvinnslan hefur fjárfest mikið á þessu tímabili og styrkt undirstöður sínar. Má í því sambandi nefna endurbætur á fiskimjölsverksmiðju, skipakaup, byggingu nýs fiskiðjuvers í Neskaupstað og stórra frystigeymsla þar. Þá hefur fyrirtækið vaxið mikið vegna kaupa á fyrirtækjum og samruna við fyrirtæki. Í því sambandi má nefna samruna Síldarvinnslunnar og SR-mjöls og kaupin á útgerðarfélögunum Bergi-Hugin ehf. í Vestmannaeyjum, Runólfi Hallfreðssyni ehf. á Akranesi og Gullbergi hf. á Seyðisfirði. Þá festi Síldarvinnslan einnig kaup á Brimbergi ehf. á Seyðisfirði sem rak frystihús á staðnum.
Mikil breyting varð á eignarhaldi fyrirtækisins í kjölfar þess að hlutabréfin fóru á markað. Nú eru hluthafar um 300. Helstu eigendur eru Samherji hf. með 44,64% eignarhlut, Kjálkanes ehf. með 34,23%, Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað á 10,97%, Snæfugl ehf. 5,29% og Hraunlón ehf. 1,62%.
Starfsmannafjöldi og tækniþróun
Mikilvægt er fyrir sjávarútvegsfyrirtæki eins og Síldarvinnsluna að hagnýta sér fullkomnustu tækni sem völ er á hverju sinni. Í sumum tilvikum hefur fyrirtækið verið í fararbroddi hvað varðar innleiðingu nýjunga og má í því sambandi nefna útgerð skuttogara og byggingu fiskiðjuvers í Neskaupstað sem sérstaklega var útbúið til vinnslu á uppsjávartegundum.
Ekkert fyrirtæki vex og dafnar án góðs starfsfólks og Síldarvinnslan hefur ávallt notið samviskusamra og dugmikilla starfsmanna. Á fyrstu starfsárunum eða til ársins 1965 rak fyrirtækið einungis síldarverksmiðju og þá voru fastir starfsmenn tiltölulega fáir en fjölgaði yfir sumartímann á meðan á síldarvertíð stóð. Á árinu 1965 urðu þáttaskil en þá hóf fyrirtækið útgerð tveggja síldveiðiskipa auk þess að hefja rekstur þeirra framleiðslutækja sem Samvinnufélag útgerðarmanna (SÚN) hafði áður átt og rekið. Við þessi tímamót fjölgaði starfsmönnum mikið og má nefna að í hraðfrystihúsinu, sem SÚN hafði áður rekið, störfuðu gjarnan 70-100 manns auk þeirra sem störfuðu við síldarsöltun, í síldarverksmiðju eða voru í áhöfnum síldarskipanna.
Með auknum umsvifum fjölgaði starfsmönnunum enn frekar. Skipaflotinn stækkaði og voru skipin orðin fimm árið 1981. Árið 1968 hófst saltfiskverkun í stórum stíl og varð verkun á saltfiski og skreið umsvifamikill þáttur starfseminnar. Þegar mest var umleikis störfuðu á annað hundrað manns í saltfiskverkunarstöðinni. Þá skal nefnt að Síldarvinnslan hóf að reka Dráttarbrautina á árinu 1972 og þar voru starfsmenn á bilinu 20 til 40.
Á áratugnum 1987-1997 voru starfsmenn Síldarvinnslunnar gjarnan um 360 talsins en upp úr því fór þeim að fækka verulega bæði vegna tæknivæðingar og eins vegna ýmissa breytinga á vinnslu og útgerð. Endurbætur á fiskimjölsverksmiðju árið 1996 leiddi til fækkunar starfa þar og eins fækkaði störfum við síldarsöltun vegna aukinnar vélvæðingar. Með tilkomu nýs fiskiðjuvers árið 1997 fækkaði störfum mikið bæði við vinnslu á uppsjávarfiski og bolfiski. Þá var saltfiskverkun hætt árið 1999 og síldarsöltun að mestu árið 2002. Þá hætti Síldarvinnslan einnig rekstri Dráttarbrautarinnar árið 2002.
Þegar samruni Síldarvinnslunnar og SR-mjöls var ákveðinn um áramótin 2002-2003 störfuðu 284 hjá Síldarvinnslunni og 172 hjá SR-mjöli eða samtals 456 manns. Strax eftir samrunann var hafist handa við að fækka fiskimjölsverksmiðjum, einfalda starfsemina eins og frekast var kostur og selja ýmis stoðfyrirtæki þannig að tveimur árum eftir samrunann voru starfsmennirnir um 260 talsins.
Árið 2007 voru starfsmenn Síldarvinnslunnar 202 að tölu og fimm árum síðar voru þeir um 230. Fjölgun starfsmanna hefur átt sér stað á síðari árum vegna kaupa á fyrirtækjunum á Seyðisfirði, Bergi-Hugin ehf. í Vestmannaeyjum og Runólfi Hallfreðssyni ehf. á Akranesi þannig að starfsmannafjöldinn er nú um 360.
Á meðal öflugustu sjávarútvegsfyrirtækja landsins
Síldarvinnslan er á meðal öflugustu sjávarútvegsfyrirtækja landsins og sennilega hið
öflugusta, þegar einungis er horft til veiða og vinnslu á uppsjávartegundum.
Meginþættir starfseminnar á árinu 2020 eru eftirtaldir:
Fiskimjölsverksmiðjur í Neskaupstað og á Seyðisfirði
Fiskiðjuver í Neskaupstað þar sem megináhersla er lögð á vinnslu uppsjávartegunda
Frystihús á Seyðisfirði þar sem unninn er bolfiskur
Frystigeymslur í Neskaupstað
Útgerð uppsjávarskipanna Beitis NK og Barkar NK
Útgerð uppsjávarskipsins Bjarna Ólafssonar AK sem er í eigu dótturfélagsins Runólfs Hallfreðssonar ehf.
Útgerð ísfisktogarans Gullvers NS
Útgerð ísfisktogaranna Vestmannaeyjar VE og Bergeyjar VE sem eru í eigu dótturfélagsins Bergs-Hugins ehf.
Útgerð frystitogarans Blængs NK
Síldarvinnslan á hlutdeild í nokkrum fyrirtækjum og skulu hér hin helstu nefnd: Síldarvinnslan á 33% í grænlenska fyrirtækinu Polar Pelagic sem gerir út uppsjávarskipið Polar Amaroq. Fyrirtækið á einnig meirihlutann í fóðurverksmiðjunni Laxá hf. á Akureyri. Þá á fyrirtækið hlut í útgerðarfélaginu Atlantic Coast í New Bedford í Bandaríkjunum en það gerir út út þrjá báta til hörpuskelsveiða.
Stjórn Síldarvinnslunnar hf.
Framkvæmdastjórn
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd