Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar / Símey

2022

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar (SÍMEY) er sjálfseignarstofnun sem starfar á sviði fullorðinsfræðslu. Að SÍMEY standa stéttarfélög, menntastofnanir, sveitarfélög og atvinnurekendur á Eyjafjarðarsvæðinu. Miðstöðin fagnaði 20 ára afmæli sínu á árinu 2020 en starfsemin hefur vaxið og dafnað jafnt og þétt frá fyrsta degi.

Að efla símenntun
Helstu markmið Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar allt frá stofnun hafa verið að efla símenntun í Eyjafirði og auka samstarf atvinnulífs og skóla til að tryggja samkeppnishæfni atvinnulífs á svæðinu. Í því felst m.a. að veita einstaklingum náms- og starfsráðgjöf og bjóða hagnýta og fræðandi þekkingu á öllum skólastigum.
Á síðustu árum hefur umfang starfseminnar á fyrirtækjasviði vaxið hratt. SÍMEY veitir fyrirtækjum ráðgjöf um sí- og endurmenntun, skipuleggur námsframboð og aðstoðar við uppbyggingu fyrirtækjaskóla. Þarfagreiningar innan fyrirtækja og stofnana undir merkjum MARKVISS hugmyndafræðinnar hafa nýst vel til að aðstoða við gerð fræðsluáætlana og uppbyggingu starfsþróunar starfsmanna, í samstarfi við fræðslusjóði stéttarfélaga.
Hæfnigreiningar á vinnumarkaði eru einnig vaxandi þáttur í starfseminni sem og raunfærnimat í ýmsum atvinnugreinum. Einstaklingar sem undirgangast það hafa í kjölfarið gjarnan lokið löggiltu iðnnámi.

Mjór er mikils vísir
Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar var stofnuð í mars árið 2000. Fyrsta starfsárið voru starfsmennirnir tveir, í einu og hálfu stöðugildi. Nú eru þeir 12 talsins en auk þeirra starfa hjá miðstöðinni um 150 verktakar, þar á meðal fjöldi kennara og sérfræðinga af ýmsum sviðum atvinnulífsins.
SÍMEY er til húsa að Þórsstíg 4 á Akureyri. Þar eru átta skrifstofur, átta kennslustofur, afgreiðsla, fullbúið eldhús og kaffitorg. Einnig er námskeiðahald SÍMEY mikið úti í atvinnulífinu, innan fyrirtækja og stofnana. Þá er SÍMEY í samstarfi við Verkmenntaskólann á Akureyri um leigu á aðstöðu er snýr að verklegum smiðjum, m.a. í málmsuðu og FAB-Lab. SÍMEY er einnig með starfsstöð á Dalvík sem skipuleggur starfsemina við utanverðan Eyjafjörð, í samstarfi við Dalvíkurbyggð, Menntaskólann á Tröllaskaga og Einingu-Iðju.
Framkvæmdastjóri SÍMEY er Valgeir B. Magnússon. Hann er sá fjórði til að gegna þeirri stöðu frá upphafi. Fyrsti framkvæmdastjóri SÍMEY var Katrín Dóra Þorsteinsdóttir, þá Soffía Gísladóttir, svo Erla Björg Guðmundsdóttir en Valgeir hefur verið framkvæmdastjóri frá árinu 2016. Stjórnarformaður SÍMEY er Arna Jakobína Björnsdóttir.
Nemendur SÍMEY frá upphafi eru um 35.000 talsins auk þess sem um 8.000 einstaklingar hafa sótt þangað ýmsa aðra þjónustu. Nemendastundir á þessum 20 árum eru um 1.360.000. Það má því til sanns vegar færa að SÍMEY sé ein stærsta menntastofnunin á starfssvæði sínu.

Aðalstjórn


 


Fyrir hönd:


Stjórnarformaður:
Anna Jakobína Björnsd. Opinberra stéttarfélaga
Stjórnarmenn:


 


 


Sigríður Huld Jónsd. Fræðslustofnana
Ingimar Eydal Opinberra fyrirtækja
Halldór Óli Kjartanss. Almennra stéttarfélaga
Sverrir Gestss. Almennra fyrirtækja
Axel Grettiss. Sveitarfélaga við Eyjafjörð
Halla Margrét Tryggvad. Akureyrarbæjar
Varastjórn


 


Fyrir hönd:


Hjördís Sigursteinsd. Opinberra stéttarfélaga
Erla Björnsd. Opinberra fyrirtækja
Anna Júlíusd. Almennra stéttarfélaga
Anna María Kristinsd. Almennra fyrirtækja
Maria Albína Tryggvad. Sveitarfélaga við Eyjafjörð
Hlynur Már Erlingss. Akureyrarbæjar

Gæðavottuð starfsemi
Í lok október 2018 fékk SÍMEY afhenta staðfestingu á svokallaðri EQM+ gæðavottun (European Quality Mark) en hún tekur til hönnunar, þróunar og umsýslu náms í fullorðinsfræðslu, náms- og starfsráðgjafar og raunfærnimats. Vottunin er til þriggja ára og gildir til loka október 2021. SÍMEY fékk árið 2012 EQM gæðavottun fyrir fræðslustarf en þessi endurnýjaða vottun er víðtækari.

Klæðskerasaumaðar lausnir
Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, segir starfsemina miða að því að bjóða klæðskerasaumaðar lausnir við allra hæfi á sviði sí- og endurmenntunar og framhaldsmenntunar. Markhópurinn sé einstaklingar og fyrirtæki á starfssvæðinu og starfsemin sé fjölbreyttari en margir kunni að halda.
„Til SÍMEY sækja þeir sem hafa ekki lokið framhaldsmenntun en vilja auka þekkingu sína. Það á bæði við um þau námskeið og námsleiðir sem SÍMEY býður upp á en einnig um náms- og starfsráðgjöfina.“
Valgeir segir að á tímum hraðra samfélagsbreytinga og tækninýjunga sé mikilvægara en nokkru sinni fyrr að þróast í starfi og sækja sér þá þekkingu sem atvinnulíf dagsins í dag kalli á. Hann nefnir raunfærnimatið sem dæmi: „SÍMEY sinnir raunfærnimati á víðum grunni en þar fá einstaklingar starfsreynslu sína metna á móti námi. Raunfærnimat, m.a. innan sjávarútvegs, í iðn- og þjónustugreinum og á uppeldissviði hefur verið mjög áberandi i starfi miðstöðvarinnar.“ Hann segir framþróun raunfærnimats mjög mikilvæga á næstu árum. „Þar verður það tengt enn frekar við störf fólks á vinnumarkaði og getur haft víðtækar skírskotanir varðandi aðlögun okkar að fjórðu iðnbyltingunni svonefndu.“

Fjölmörg sóknarfæri í fullorðinsfræðslunni
Áður en COVID-faraldurinn hófst snemma árs 2020 hafði vægi fjarnáms aukist talsvert hjá SÍMEY. Það komst í áður óþekktar hæðir það sem eftir lifði árs og Valgeir segir ljóst að fjarnám sé komið til að vera sem einn þáttur starfseminnar. Hann leggur áherslu á að allir geti leitað til SÍMEY eftir aukinni þekkingu og færni, hvort sem fólk hafi lokið skilgreindri framhaldsmenntun eða ekki. „Fólk á öllum aldri og úr öllum starfsstéttum hefur brennandi áhuga á að auka menntun sína og færni og tileinka sér þær tækninýjungar sem í boði eru. Við horfum því bjartsýn fram á veginn. SÍMEY hefur ríku hlutverki að gegna í þessu ferli og við sjáum fjölmörg sóknarfæri í fullorðinsfræðslunni,“ segir Valgeir.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd