Sjálfsbjörg – landssamband hreyfihamlaðra

2022

Fyrsta Sjálfsbjargarfélagið var stofnað á Siglufirði þann 9. Júní 1958. En Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra ( Sjálfsbjörg lsh.) var stofnað 4. júní 1959 af fimm aðildarfélögum víðsvegar af landinu.
Aðildarfélög Sjálfsbjargar lsh. voru flest sextán, en í dag eru aðildarfélögin  tólf,  vítt og breitt um landið. Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu er fjölmennasta félagið.
Hlutverk Sjálfsbjargar er að vinna að fullkominni þátttöku og jafnrétti hreyfihamlaðs fólks á Íslandi og eftir atvikum annarra fatlaðra og gæta réttinda og hagsmuna þess.

Sjálfsbjargarhúsið
Sjálfsbjörg lsh. á og rekur húsnæði í Hátúni 12, Reykjavík. Í húsinu er ýmis atvinnustarfsemi, og íbúðir fyrir fólk með hreyfihömlun.

Starfsmenn skrifstofu og stjórn
Framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar lsh. er Ósk Sigurðardóttir, en hún tók til starfa í nóvember 2020. Starfsmenn landssambandsins eru sjö talsins.
Margrét Lilja Arnheiðardóttir tók við sem formaður Sjálfsbjargar lsh.  í apríl 2022. Í stjórn landssambandsins sitja fimm aðalmenn og tveir varamenn víðsvegar af landinu.

Hjálpartækjaleiga Sjálfsbjargar
Hjálpartækjaleiga Sjálfsbjargar var opnuð í byrjun árs 2017. Hjálpartækjaleiga Sjálfsbjargar er með mikið úrval af hjólastólum, baðstólum, rúmum og smærri hjálpartækjum og er ein af fáum sem leigir tæki til allra landsmanna og sendir um land allt. Mikilvægt er einnig að geta leigt út hjálpartæki til ferðamanna, en sá hópur fer stækkandi.

Römpum upp Reykjavík og Römpum upp Ísland
Í mars 2021 var verkefnið Römpum upp Reykjavik sett formlega af stað, en tilgangur verkefnisins var að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum. Markmiðið var að byggja 100 rampa á einu ári í Reykjavík, en það tókst á átta mánuðum.
Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, er hvatamaður verkefnisins.
Verkefnið Römpum upp Ísland var svo sett formlega af stað á vormánuðum 2022 en markmiðið að þessu sinni er að byggja 1000 rampa um allt land.
Sjálfsbjörg landssamband er einn af stofnaðaðilum verkefnisins og eru framkvæmdastjóri og formaður Sjálfsbjargar í stjórn félagsins.

Sjálfsmat á aðgengismálum fyrir ferðaþjónustu
Samstarfsverkefni Sjálfsbjargar lsh., Ferðamálastofu, Öryrkjabandalags Íslands og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hófst árið 2021 en unnið er að sérstöku fræðslu- og hvatningarverkefni um aðgengismál fyrir ferðaþjónustuaðila. Um er að ræða sjálfsmat um aðgengismál fyrir ferðaþjónustufyrirtæki ásamt leiðbeiningum og fræðslu sem verður gefinn formlega út haustið 2022.  Til að byrja með verða í boði þrjú merki sem tákna aðgengi fyrir hreyfihamlaða, sjónskerta og blinda.

Aðgengisnámskeið
Þá hefur Sjálfsbjörg lsh. staðið fyrir aðgengisnámskeiði fyrir aðildarfélaga sína og aðgengis-fulltrúa sveitarfélaganna frá árinu 2020. En þau hafa verið haldin í samvinnu við Hörpu Cilia Ingólfsdóttur byggingarfræðing og starfsmann Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Markmiðið með námskeiðunum er að auka þekkingu um allt land á aðgengismálum fyrir aðildarfélaga og sveitarfélög.

TravAble – aðgengisupplýsinga app
Hindranir í vegi hreyfihamlaðara eru vandamál og handhægar upplýsingar um aðgengilega þjónustu, afþreyingu og mannvirki skortir. TravAble svarar þeirri brýnu þörf með því að tengja saman upplýsingar um þjónustu, afþreyingu og mannvirki og birta með smáforriti. TravAble er þjónustu- og leiðsöguapp, tengt korti, og hentar því hreyfihömluðum jafnt heima og að heiman. Áhersla er lögð á jákvæða nálgun, þ.e. að sýna einungis það sem er aðgengilegt hreyfihömluðum, ekki það sem er óaðgengilegt. Hreyfihamlaðir ferðast og vilja njóta lífsins eins og aðrir og þeirri þörf þarf að mæta.
Aðgengisdagur Sjálfsbjargar verður haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti 27. ágúst 2022 en þá munu aðildarfélög um allt land skrá inn upplýsingar um aðgengilega staði í TravAble aðgengisupplýsinga appið.

Klifur
Árið 2020 var útgáfa á Klifur blaði Sjálfsbjargar endurskoðaða og ráðinn var nýr ritstjóri 2020 Páll Tómas Finnsson. Blaðið er nú gefið út í veglegri útgáfu einu sinni á ári.

Fjáröflunarmál
Húsaleigutekjur er stærsti einstaki tekjupóstur samtakanna, en Happdrætti hafa einnig verið fastur tekjupóstur Sjálfsbjargar í áratugi. Hollvinir Sjálfsbjargar styrkja einnig landssambandið með mánaðarlegu framlagi og eru gífurlega mikilvægir fyrir starfsemina.
Minningarkort Sjálfsbjargar eru send aðstandendum í minningu látinna ástvina og getur fólk þannig einnig lagt starfseminni lið.
Vefverslun Sjálfsbjargar var sett á laggirnar 2021, en þar má finna ýmsar fallegar gjafavörur.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd