Sjálfstæðisflokkurinn

2022

Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður 25. maí 1929 með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Flokkurinn fagnaði því 90 ára afmæli sínu á árinu 2019 með hátíðarhöldum um land allt. Allt frá stofnun hefur það verið eitt meginmarkmið hans „að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“ Sjálfstæðisflokkurinn er víðsýnn og öfgalaus hægriflokkur.  Hann hefur ætíð verið flokkur alþjóðlegrar samvinnu, réttarríkis, athafna- og viðskiptafrelsis. Hann hefur lagt áherslu á tengsl öflugs atvinnulífs og velferðar, án vinnu sé engin velferð. Þessi grunnstef hafa átt samleið með þjóðinni alla tíð, enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn frá stofnun verið sú stjórnmálahreyfing á Íslandi sem jafnan hefur notið mests fylgis og komið hvað oftast og lengst að stjórn landsins. Af þeim 41 ríkisstjórnum sem myndaðar hafa verið frá stofnun Sjálfstæðisflokksins hefur flokkurinn átt aðild að 26 ríkisstjórnum og veitt 16 þeirra forystu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur barist gegn höftum, með auknu viðskipta- og athafnafrelsi, hóflegri skattheimtu, einstaklingsfrelsi og einkaframtaki. Fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins var Jón Þorláksson, verkfræðingur og síðar borgarstjóri í Reykjavík. Ólafur Thors tók við embætti formanns árið 1934 og gegndi því til ársins 1961 þegar dr. Bjarni Benediktsson tók við formennsku. Árið 1970 varð Jóhann Hafstein formaður og starfaði til 1973 þegar Geir Hallgrímsson var kjörinn formaður. Hann gegndi formennsku til 1983 þegar Þorsteinn Pálsson tók við. Davíð Oddsson var kjörinn formaður 1991 og Geir H. Haarde tók við 2005. Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins er Bjarni Benediktsson, en hann tók við formennsku árið 2009. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og ritari er Jón Gunnarsson. Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins er Þórður Þórarinsson.
Skrifstofa Sjálfstæðisflokksins er í Valhöll, Háaleitisbraut 1. Þar starfa að jafnaði sex starfsmenn auk þess sem fjórir starfsmenn starfa hjá þingflokknum með aðsetur á Alþingi. Skrifstofan annast ýmsa þjónustu við stofnanir flokksins, miðstjórn, þingflokk, borgarstjórnarflokk, félög, ráð, landssambönd og málefnanefndir, auk þess að sinna alþjóðlegu samstarfi.

Í ríkisstjórn síðan 2013
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í ríkisstjórn frá árinu 2013. Á árunum 2013 til 2017 í sams-tarfi við Framsóknarflokkinn, á árinu 2017 í samstarfi við Viðreisn og Bjarta framtíð og frá 2017 í samstarfi við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð og Framsóknarflokkinn. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins er fjármála- og efnahagsráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, er ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Kristján Þór Júlíusson er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson er utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er dómsmálaráðherra.
Kjölfestan á þingi og í sveitarstjórnum
Sjálfstæðisflokkurinn hefur um árabil verið kjölfestan í íslenskum stjórnmálum, bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum. Sextán þingmenn sitja nú í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Árið 2019 fór þingflokkurinn í hringferð um landið sem heppnaðist afar vel þar sem fram fór samtal við landsmenn. Sveitarstjórnarmenn Sjálfstæðisflokksins eru 116 á landinu öllu. Konur eru 56 eða 48,3% og karlar 60 eða 51,7%. Fulltrúunum fækkaði á árinu um tvo vegna sameiningar fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi í eitt sveitarfélag, Múlaþing. Kosið var til nýrrar sveitarstjórnar Múlaþings í september og hlaut flokkurinn fjóra fulltrúa kjörna af níu. Í framhaldinu var myndaður meirihluti í sveitarstjórn með Framsóknarflokknum. Flokkurinn er nú í meirihluta í 23 sveitarfélögum, þar af í hreinum meirihluta í 9 sveitarfélögum. Líkt og hjá þingflokknum færðist hefðbundið starf sveitarstjórna á árinu að stærstum hluta yfir á netfundi vegna kórónuveirunnar, en hafði ekki önnur áhrif á starfið.

Öflugt félagsstarf aðlagar sig að nýrri tækni
Flokkurinn starfar í um 140 félögum og ráðum vítt og breytt um landið. Fæst félög og ráð náðu að ljúka við aðalfundi sína á árinu 2020 vegna samkomutakmarkana og aðrir reglulegir fundir sem félögin standa fyrir lögðust einnig af að mestu leyti frá mars og fram á haustið þegar sum félög hófu að funda á netinu. Hefur það færst heldur í aukana og voru fjölmörg félög farin að nýta sér fjarfundaforrit til að halda uppi störfum með afar jákvæðum árangri.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er að jafnaði haldinn annað hvert ár. Landsfundur hefur æðsta vald í málefnum flokksins og markar heildarstefnu hans í landsmálum. Auk þess setur landsfundur reglur um skipulag flokksins. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er ein stærsta lýðræðissamkoma Íslands, en þar eiga vel á annað þúsund fulltrúar seturétt hverju sinni. Á fundinum er æðsta forysta flokksins kosin, auk þess sem fundurinn kýs stjórnir málefnanefnda sem halda utan um málefnastarf flokksins á milli landsfunda. Á árinu 2020 störfuðu málefnanefndir að því að móta drög að stefnu fyrir næsta landsfund auk þess sem endurskoðunarnefnd skipulagsreglna Sjálfstæðisflokksins starfaði og lauk störfum fyrir mitt ár. Nefndin var skipuð fulltrúum um land allt. Hún lagðist í heildarendurskoðun á skipulagsreglum flokksins og lagði tillögur sínar fyrir miðstjórn, en þær verða teknar fyrir á næsta landsfundi.
Í lok mars 2020 hóf flokkurinn rekstur á hlaðvarpi undir merkjum „Hægri hliðarinnar“ og hafa þættir verið sendir út að lágmarki vikulega allt frá því útsendingar hófust. Nokkrar þáttaraðir hafa verið framleiddar: Pólitíkin sem fjallar almennt um stjórnmál í landinu, Gjallarhornið í umsjón Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, Loftslagsráð sem fjallar um umhverfis- og loftslagsmál í víðum skilningi út frá sjónarhóli hægrimanna, Verkalýðsarmurinn sem er í umsjón Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins, Borgin í umsjón oddvita borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins þar sem fjallað er um borgarmálin auk þess sem einstaka þingmenn hafa verið duglegir að nýta sér tæknina og senda út eigin þætti.
Á tímum samkomutakmarkana hefur þessi leið reynst vel við að koma sjónarmiðum flokksins og flokksmanna á framfæri.

Stjórnendur

Þórður Þórarinsson
Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins
2014-

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd