Sjómannafélag Íslands

2022

Haustið 1915 var Hásetafélag Reykjavíkur stofnað í Bárubúð norðan Tjarnarinnar í Reykjavík. Það voru nýir tímar á Íslandi. Fyrsti olíuhreyfillinn hafði verið settur í bát árið 1902, fyrsti togarinn komið til landsins tveimur árum síðar, bílaöld gengið í garð með fyrstu rennireiðinni. Þjóðin hafði fengið heimastjórn 1904 og fullveldi var handan horns. Togarinn Jón forseti hafði komið til heimahafnar 1907 í Reykjavík. Það var heiður himinn þegar Gullfoss kom til landsins í apríl 1915. „Siglingadraumar íslensku þjóðarinnar eru að rætast. Það er bjart yfir þjóð vorri,“ sagði Sigurður Eggerz ráðherra fullur bjartsýni þó í Evrópu geisaði mannskæð styrjöld. Járnbraut liðaðist með grjót úr Öskjuhlíð til hafnargerðar. Fiskimenn voru tæplega tíu þúsund, heildarafli landsmanna losaði 100 þúsund tonn. Reykjavík var „trollarabær“. Sjávarútvegur var hornsteinn framfarasóknar íslensku þjóðarinnar.

Reykjavík úr bæ í borg
Jón Bach var fyrsti formaður Hásetafélagsins sem varð Sjómannafélag Reykjavíkur í janúar 1919. Sigurjón Á. Ólafsson formaður Sjómannafélags Reykjavíkur 1920-1951. Ísland fór frá því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu í topp fimm við aldarlok. Sjómenn léku lykilhlutverk, en það var ekki án fórna. Á 20. öld gáfu 3.600 sjómenn líf sitt svo þjóðin mætti sækja fram, öðlast fullveldi og sjálfstæði … frjálsir menn þegar aldir renna. Reykjavík breyttist úr bæ í borg.
Vistin um borð í togurum var hörð, satt best að segja þrældómur, alræmdar vökur sólarhringum saman. Vökulögin voru samþykkt á Alþingi lokadaginn 11. maí 1921. Sjómenn hrundu kröfum útvegsmanna um kauplækkun í einni af höfuðorrustum íslenskrar verkalýðsbaráttu, Blöndalhs-slagnum 1923. Sjómannafélag Reykjavíkur var brjóstvörn alþýðufólks ásamt Dagsbrún undir forystu Héðins Valdimarssonar. Sjómenn gengu í Alþjóðaflutningaverkamannasambandið ITF þann 1. júlí 1923. Skipaútgerð ríkisins var stofnuð 1929, skipadeild SÍS 1952.

Sjómannadagurinn 1938
Sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur vorið 1938 undir styttu Leifs Eiríkssonar. „Stórfengleg hátíðahöld, virðulegasta og mesta skrúðganga sem hjer hefir sést“ sagði Morgunblaðið. Svo kom stríðið, hernám Breta og ameríski herinn. Ísland varð sjálfstætt ríki 17. júní 1944. Liðlega 400 sjómenn fórust í Síðari heimsstyrjöldinni, um 230 má rekja til stríðsins þegar þýskir kafbátar gerðu árásir úr launsátri á víðáttum Atlantshafsins, þýskar flugvélar réðust á íslensk skip úr lofti. Garðar Jónsson var formaður Sjómannafélagsins 1951-1961. Dvalarheimili aldraðra sjómanna, Hrafnista var vígð í Laugarásnum 1957. Hrafnista markaði tímamót í málefnum aldraðra með Happdrætti DAS sem bakhjarl, óx og dafnaði í áranna rás.
Sjómannasamband Íslands var stofnað 1957. Jón dreki Sigurðsson var formaður Sjómannafélags Reykjavíkur 1961-1972, um árabil formaður Sjómannasambandsins. Hilmar Jónsson var formaður Sjómannafélagsins 1972-1978. Pétur sjómaður Sigurðsson var einn áhrifamesti forystumaður sjómanna, kjörinn ritari stjórnar 1961, sat í stjórn til 1991, formaður Sjómannadagsráðs 1962-1993.
Landhelgin færð út
Landhelgin var færð út í fjórar mílur 1952 þegar fjörðum og flóum var lokað fyrir togurum. Bretar svöruðu með löndunarbanni á íslenska togara. Íslensk þjóðin svaraði með því selja fisk til Sovétríkja Jósefs Stalín og kaupa olíu, moskvitsa og rússajeppa frá gerska heimsveldinu. Landhelgin var færð út í 12 mílur 1958 og Bretar sendu herskip á Íslandsmið. Þorskastríðin voru harðvítug, landhelgin færð út í 50 mílur árið 1973 og í 200 mílur 1975. Íslendingar slitu stjórnmálasambandi við Breta eftir ásiglingar breskra herskipa á íslensk varðskip. Fullnaðarsigur í Þorskastríðunum vannst með samningum í Osló 1976. Ísland sótti fram, jökulár virkjaðar, jarðvarmi nýttur. Búrfellsvirkjun og Ísal risu. Stóriðja varð önnur stoð atvinnulífs.

Nýir tímar, ný viðfangsefni
Guðmundur Hallvarðsson var formaður Sjómannafélags Reykjavíkur 1978-1992. Hann hafði verið kosinn í stjórn 1972 og beitti sér í umbótum í aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi í skipum ásamt endurskoðun siglinga- og sjómannalaga. Jónas Garðarsson var kjörinn formaður 1994-2005 og 2015-2019 Þegar leið að aldarlokum tóku Eimskip og SÍS að skrá kaupskip sín erlendis undir hentifána. Farmönnum fækkaði um 800 á níunda áratugnum. Þetta varð eitt af stóru málum Sjómannafélagsins í samstarfi við Alþjóðaflutningaverkamannasambandið, ITF.

Sjómannafélag Íslands
Nýir tímar kröfðust nýrra vinnubragða. Sjómannafélag Reykjavíkur varð á nýrri öld að landsfélagi þegar sjómenn sameinuðust matsveinum og til varð Sjómannafélag Íslands sem sagði sig úr Sjómannasambandinu og Alþýðusambandi Íslands. Matsveinafélagið hafði verið stofnað 1952. Nýtt nafn Sjómannafélag Íslands var skráð 2001. Sameining gekk í gildi árið 2007. Brytar gengu í Sjómannafélagið, einnig hafnfirskir sjómenn, svo og hásetar og þernur á Herjólfi og Baldri með stórbættum kjörum.

Stjórn og starfsfólk
Helgi Kristinsson var formaður Sjómannafélags Íslands 2005-2015. Bergur Þorkelsson er formaður félagsins er formaður og í stjórn með honum sitja Helgi Kristinsson varaformaður, Steinar Daði Haralds gjaldkeri, Sævar Már Magnússon ritari, Jónas Ægir Kristinsson varagjaldkeri, Páll Þór Ómarsson Hillers meðstjórnandi og Kristinn Vignir Helgason meðstjórnandi. Í félaginu er stjórn matsveinadeildar og á einn fulltrúin hennar rétt á stjórnarsetu í aðalstjórn. Stjórn matsveinadeildar er skipuð Eiríki Gíslasyni formanni, Bjarna Sveinsyni og Kristjáni Sigurbjarnsyni meðstjórnendum. Varamenn í stjórn eru, Þórarinn Jónas Stefánsson, Jón Hafsteinn Ragnarsson, Vignir Ólafsson, Guðberg Halldórsson og Daníel Lecki. Skrifstofa félagsins er í Skipholti 50d í Reykjavík og eru starfsmenn Guðbjörg Elín Friðfinnsdóttir í móttöku og afgreiðslu orlofshúsa, Jónas Garðarsson sem eftirlitsmaður ITF og Bergur Þorkelsson formaður.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd