Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

2022

Sjóvá er tryggingafélag sem býður upp á alhliða tryggingaþjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki í landinu. Hlutverk Sjóvá er að tryggja verðmætin í lífi fólks og er lögð áhersla á að sinna því hlutverki af sanngirni og umhyggju. Starfsfólk leggur sig fram við að mæta ólíkum þörfum viðskiptavina og veita þjónustu og ráðgjöf sem skapar traust og hugarró í lífi þeirra.
Starfsemi Sjóvá á rætur sínar að rekja til ársins 1918 þegar Sjóvátryggingarfélag Íslands var stofnað en með því var stigið fyrsta skrefið til að starfrækja hér á landi sjálfstætt innlent tryggingafélag. Árið 1943 voru Almennar tryggingar stofnaðar en þessi tvö félög sameinuðust síðan í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. árið 1989. Samnefnt félag var stofnað á grunni þess fyrrnefnda árið 2009 en það er í daglegu tali kallað Sjóvá. Félagið hefur verið skráð á hlutabréfamarkað Kauphallarinnar frá því í apríl 2014.
Yfir 180 starfsmenn starfa hjá Sjóvá og er kynjahlutfall jafnt. Forstjóri er Hermann Björnsson en hann hefur gegnt starfinu frá 2011. Framkvæmastjórn skipa ásamt honum Auður Daníelsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar, Elín Þórunn Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri tjóna og Ólafur Njáll Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjármála og þróunar.

Þjónusta þar sem þú ert
Höfuðstöðvar Sjóvá eru í Kringlunni 5 en að auki eru starfrækt útibú og þjónustuskrifstofur á 22 stöðum vítt og breitt um landið. Undanfarin ár hefur verið lögð rík áhersla á að þróa notendavænar rafrænar lausnir og samskiptaleiðir í takt við þarfir viðskiptavina. Sem dæmi var Sjóvá fyrsta tryggingafélagið á Íslandi til að selja líf- og sjúkdómatryggingar á netinu. Þá er lagt mikið upp úr því að tala um tryggingar á mannamáli. Sem dæmi var vefurinn sjova.is allur skrifaður með það að leiðarljósi og hlaut hann meðal annars Íslensku vefverðlaunin fyrir einfalda og aðgengilega framsetningu.

Ánægja viðskiptavina í forgrunni
Framtíðarsýn Sjóvá er að vera tryggingafélag sem þér líður vel hjá. Ánægja viðskiptavina hefur verið sett í forgrunn allra aðgerða síðustu ár og leggur starfsfólk sig alltaf fram um að veita framúrskarandi þjónustu, sama hvort það er við sölu, ráðgjöf eða afgreiðslu tjóna. Árangurinn af þessari markvissu vinnu hefur ekki látið á sér standa og hefur Sjóvá verið efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni þrjú síðustu ár; 2017, 2018 og 2019.
Við hjá Sjóvá trúum því að ánægja starfsfólks og ánægja viðskiptavina haldist þétt í hendur. Á undanförnum árum hefur starfsánægja hjá okkur verið með því hæsta sem mælist hjá íslenskum fyrirtækjum og höfum við sömuleiðis hlotið nafnbótina Fyrirtæki ársins í flokki stærri fyrirtækja síðustu árin.

Jafnrétti skilar árangri
Hjá Sjóvá er lögð rík áhersla á jafnréttismál og er unnið eftir skýrri stefnu í þeim efnum. Sjóvá hefur verið með jafnlaunavottun frá 2014 og árið 2019 fékk Sjóvá fyrst fyrirtækja hæstu einkunn á GEMMAQ-kvarða Keldunnar, sem veitir upplýsingar um stöðu kynjajafnréttis í leiðtogastöðum skráðra félaga á Íslandi. Haustið 2020 hlaut Sjóvá einnig hvatningarverðlaun jafnréttismála sem veitt eru fyrirtæki sem hefur stuðlað að jafnrétti á markvissan hátt í starfsemi sinni.
Stjórnendur Sjóvá líta á það sem skyldu fyrirtækisins að vera í fararbroddi í þessum málaflokki og munu halda áfram að sinna honum af krafti. Þeir eru að sama skapi sannfærðir um að þær markvissu aðgerðir sem ráðist hefur verið í til að tryggja jafnrétti kynjanna hafi skilað margþættum árangri, bæði hvað varðar ánægju starfsfólks og viðskiptavina, og eins í rekstrinum.

Samfélagslega ábyrg starfsemi
Hjá Sjóvá er lagður metnaður í að starfa í sátt við samfélagið og umhverfið og byggist sú vinna m.a. á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Með því að haga starfseminni á samfélagslega ábyrgan hátt er hægt að stuðla að arðsemi og vexti til framtíðar, til hagsbótar fyrir samfélagið allt. Rekstur Sjóvá samanstendur af vátryggingarekstri annars vegar og fjárfestingastarfsemi hins vegar. Markmið félagsins er að byggja afkomu félagsins ekki um of á fjárfestingatekjum, heldur að vátryggingareksturinn sé sjálfbær og það hefur tekist á undanförnum árum. Þennan árangur hafa stjórnendur fyrst og fremst þakkað þeim öfluga mannauði og þeirri einstöku fyrirtækjamenningu sem Sjóvá býr yfir.
Sjóvá hefur alla tíð styrkt við fjölmörg samfélagsleg málefni og er litið sérstaklega til þess að verkefnin sem eru styrkt stuðli að öruggara samfélagi, auknum lífsgæðum og að þau hafi forvarnargildi. Sjóvá hefur verið aðalstyrktaraðili Slysavarnarfélagsins Landsbjargar allt frá stofnun þess og hefur átt afar farsælt samstarf við félagið um tryggingar, forvarnir og öryggismál. Sjóvá hefur einnig verið hluti af Ólympíufjölskyldunni frá upphafi. Í samræmi við áherslur Sjóvá á jafnréttismál er fyrirtækið einnig stoltur styrktarðaðili Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis FKA og forsætisráðuneytisins. Þá hefur Sjóvá einnig verið stuðningsaðili Sjóvá Kvennahlaups ÍSÍ frá því að hlaupið var fyrst haldið árið 1990.
Starfsfólk Sjóvá býr að áratugalangri reynslu af forvarnarstarfi og leggur sig fram um að miðla þessari þekkingu til að koma í veg fyrir tjón. Á undanförnum árum hefur m.a. verið unnið að öflugum forvarnarverkefnum í umferðinni með ýmsum samstarfsaðilum, með þetta að leiðarljósi. Sem dæmi má nefna átaksverkefni til að sporna við notkun farsíma undir stýri, verkefni sem bæta aðgengi að upplýsingum um færð og veður og auka þekkingu erlendra ferðamanna á aðstæðum á íslenskum vegum og margt fleira.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd