Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) er miðstöð sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu á Norður- og Austurlandi. Það veitir almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu þar sem áhersla er lögð á bráðaþjónustu og helstu sérgreinameðferðir í lyf-, hand- og geðlæknisþjónustu. SAk er annað tveggja sérgreinasjúkrahúsa landsins og gegnir lykilhlutverki í almannavörnum. Það er jafnframt kennslusjúkrahús sem leggur ríka áherslu á kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindum. Stöðugur vöxtur hefur verið í starfseminni og reksturinn að sama skapi verið farsæll. Kannanir sýna mjög mikla ánægju með þjónustu sjúkrahússins á meðal skjólstæðinga þess og mikið traust til sjúkrahússins. SAk hlaut á árinu 2015 alþjóðlega gæðavottun á starfsemi sinni, fyrst íslenskra heilbrigðisstofnana. Sú gæðavottun var endurnýjuð árið 2018 og í apríl 2019 fékk sjúkrahúsið vottun samkvæmt alþjóðlega gæðastaðlinum ISO 9001:2015 – fyrst íslenskra heilbrigðisstofnana. www.sak.is
Nær 150 ára samfelld saga
Rætur Sjúkrahússins á Akureyri ná allt aftur til ársins 1873 en þá hófst lengsta samfellda saga sjúkrahúss á Íslandi. Byggingasagan hófst 11. nóvember árið 1873 þegar danski stórkaupmaðurinn Friðrik C.M. Gudmann færði Akureyrarbæ húsið Aðalstræti 14 að gjöf til starfrækslu sjúkrahúss. Spítalinn var vígður 7. júlí 1874 (8 rúm). Árið 1899 var ráðist í nýbyggingu (12 rúm) og stækkað árið 1920 (40 rúm). Elstu núverandi byggingar á Eyrarlandsholti eru frá árinu 1953 (120 rúm) en þann 15. desember það ár tók Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) formlega til starfa í nýju og glæsilegu húsnæði. Ráðist var í stækkun á árunum 1973-1990 (170 rúm). Suðurálma sjúkrahússins var byggð á árunum 1994-2007 og síðan hefur verið ráðist í margvíslegar breytingar og endurbætur. Árið 2020 er fjöldi rýma 139, þar af 110 á legudeildum og 29 á dagdeildum. Nafni sjúkrahússins var breytt í Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) árið 2007 með lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007.
Heilsuhæli Norðurlands að Kristnesi var tekið í notkun árið 1927. Frá árinu 1993 hefur það verið hluti af starfsemi SAk og heitir nú Kristnesspítali.
Fjölbreytt starfsemi
Starfsemi sjúkrahússins skiptist í þrjú klínísk svið, auk fjármála- og rekstrarsviðs, og er einn framkvæmdastjóri yfir hverju þeirra. Klínísku sviðin eru: Bráða- og þróunarsvið – innan þess eru bráðalækningar, bráðamóttaka, myndgreiningalækningar, myndgreiningadeild, rannsóknadeild, deild mennta og vísinda, Sjúkraflutningaskólinn og gæðamál.
Handlækningasvið – innan þess eru skurðlækningar, bæklunarskurðlækningar, skurð-lækningadeild, skurðstofa og sótthreinsun, svæfinga- og gjörgæslulækningar, svæfingadeild, gjörgæsludeild, fæðinga- og kvensjúkdómalækningar, fæðingadeild og læknaritaramiðstöð.
Lyflækningasvið – innan þess eru lyflækningar, lyflækningadeild, geðlækningar, geðdeild, endurhæfing og öldrunarlækningar, Kristnesspítali, barnalækningar, barnadeild, almenn göngudeild og sjúkrahúsapótek.
Fjármála- og rekstrarsvið – innan þess eru skrifstofa fjármála, upplýsingatæknideild, rekstrardeild, ræstimiðstöð, eldhús og öryggismál.
Sjúkrahúsið á Akureyri hefur frá árinu 2002 rekið Sjúkraflutningaskólann. Þá hefur læknavakt fyrir sjúkraflug verið starfrækt frá SAk frá árinu 2002 en frá þeim tíma hefur Akureyri verið skilgreind miðstöð sjúkraflugs á Íslandi. Stöðugur vöxtur hefur verið í þeirri starfsemi.
Forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri er Bjarni Jónasson. Framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs er Guðmundur Magnússon, framkvæmdastjóri hjúkrunar og bráða- og þjónustusviðs er Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga og handlækningasviðs er Sigurður E. Sigurðsson og framkvæmdastjóri lyflækningasviðs er Alice H. Björgvinsdóttir.
Öryggi – Samvinna – Framsækni
Gildi Sjúkrahússins á Akureyri eru þrjú: Öryggi – Samvinna – Framsækni. Öryggi sjúklinga og starfsmanna er í forgrunni og kappkostað að ná því fram með umhyggju, virðingu og góðri samvinnu að leiðarljósi. Framsæknin birtist á ýmsum sviðum. Sífellt er hugað að frekari framþróun starfseminnar, hvort sem um er að ræða endurbætur á núverandi vinnulagi eða upptöku nýrrar þjónustu. Sjúkrahúsið er þátttakandi í samnorrænum verkefnum á sviði fjarheilbrigðisþjónustu og er í fremstu röð hvað það varðar að nýta tækni til að bæta þjónustuna. Einnig er markvisst unnið að því að bæta þjónustu við ört stækkandi hóp eldri íbúa sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda.
Mannauður
Mannauðsstefna Sjúkrahússins á Akureyri er leiðarljós stjórnenda og starfsfólks sem gerir sjúkrahúsið að eftirsóknarverðum vinnustað. Ársverk voru 517 talsins á árinu 2019 og almennt hefur gengið vel að manna stöður. Viðamikil fræðslustarfsemi fer fram innan veggja SAk og mikil áhersla er lögð á starfsmannaheilsuvernd, með það að markmiði að hlúa að starfsfólki og vinnuumhverfi þess og stuðla að aukinni vellíðan.
Mikil velvild í samfélaginu
Sem fyrr segir sýna niðurstöður kannana að Sjúkrahúsið á Akureyri nýtur mikils trausts í samfélaginu og að 9 af hverjum 10 eru ánægðir með þjónustu þess. Þessi mikli velvilji kristallast í gríðarlegu öflugu starfi Hollvinasamtaka Sjúkrahússins á Akureyri en þau voru stofnuð í desember árið 2013. Þau hafa þegar lyft grettistaki í sögu sjúkrahússins og fært því ýmis tæki og búnað að gjöf sem nemur milljónatugum ár hvert. Áður en Hollvinir SAk komu til sögunnar gegndi Gjafasjóður sjúkrahússins veigamiklu hlutverki og gerir enn. Ætla má að að framlög frá Hollvinum SAk og úr Gjafasjóði nemi um fjórðungi af þeim fjármunum sem sjúkrahúsið hefur nýtt til kaupa á tækjum og búnaði undanfarna áratugi. Slík velvild úti í samfélaginu er ómetanleg.
Horft til framtíðar
Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem samþykkt var af Alþingi 2019 og fjármálaáætlun er gert ráð fyrir byggingu legudeildar við SAk á árunum 2023 og 2024. Brýn þörf er fyrir þá framkvæmd og fleiri brýn verkefni bíða úrlausnar. Þau verða leyst á besta mögulega hátt, með hag skjólstæðinga sjúkrahússins að leiðarljósi.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd