Sjúkraliðafélag Íslands

2022

Sjúkraliðafélag Íslands var stofnað sem fagfélag árið 1966, sama ár og fyrstu sjúkraliðarnir útskrifast á Íslandi. Skráðir stofnfélagar voru 48. Árið 1991 var Sjúkraliðafélag Íslands gert að stéttarfélagi fyrir tilstuðlan öflugra sjúkraliða sem töldu hag sínum betur borgið í stéttarfélagi, sem færi með öll mál félagsmanna. Í dag eru virkir félagsmenn um 2.200, og því til viðbótar eru um 1.500 sjúkraliðar í lífeyrisdeild félagsins.

Kjarnastarfsemi félagsins
Meginhlutverk Sjúkraliðafélags Íslands er að gæta að hagsmunum sjúkraliðastéttarinnar í hvívetna og varðveita og efla samheldni sjúkraliða, tryggja réttindi þeirra og standa vörð um kjaramál. Kjarnastarfsemi félagsins fer fram á skrifstofunni sem sinnir allri þjónustu við félagsmenn. Starfsfólkið veitir félagsmönnum viðeigandi upplýsingar og ráðgjöf um réttindi þeirra og skyldur, laun og starfskjör, og efnisatriði kjarasamnings og stofnanasamninga. Auk þess að sinna umsýslu sjóða, afgreiðslu umsókna um styrki og orlofskosti veitir starfsfólkið aðstoð vegna umsókna í Styrktarsjóð BSRB og fer með umsýslu og afgreiðslu á námsmati vegna sí- og endurmenntunar sjúkraliða. Skrifstofan heldur einnig utan um innra starf félagsins og er í virku samstarfi við bæði framkvæmdastjórn og félagsstjórn. Jafnframt sinnir hún umsýslu og samskiptum við trúnaðarmenn, stjórnir fræðslusjóða og starfsnefnda, auk þess að vera í virku samstarfi við BSRB.
Félagið miðlar upplýsingum til félagsmanna með útgáfu á tímaritinu Sjúkraliðinn, og kemur á framfæri fréttum og viðburðum á heimasíðu og Facebook síðu félagsins, og bregst við fyrirspurnum sem berast í gegnum síðuna eða með tölvupósti. Starfsfólkið leggur áherslu á að greiða úr þeim málum sem félagsmenn óska eftir hverju sinni og sér til þess að aðgangur að sjóðum og öðrum upplýsingum sé góður.

Skipulag félagsins
Fulltrúaþing er haldið einu sinni á ári og fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Svæðadeildir félagsins eru níu talsins með kjörnar stjórnir. Deildarformenn eru sjálfkjörnir í félagsstjórn, sem fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli fulltrúaþinga, og kemur fram sem málsvari félagsins.
Framkvæmdastjórn skipa formaður sem kjörinn er til þriggja ára í allsherjar atkvæðagreiðslu, auk þriggja félagsmanna sem kosnir eru á fulltrúaþingi til tveggja ára. Framkvæmdastjórn fylgir ákvörðunum fulltrúaþings og félagsstjórnar, og fundar að jafnaði aðra hverja viku til að tryggja daglegan rekstur félagsins.
Trúnaðarmannaráð er skipað framkvæmdastjórn og félagsstjórn auk kjörinna félagsmanna sem kosnir eru til trúnaðarstarfa fyrir félagið, ásamt trúnaðarmönnum sem kosnir eru til trúnaðarstarfa á stofnunum víðsvegar um landið. Formaður félagsins er einnig formaður trúnaðarmannaráðs sem fundar að jafnaði einu sinni á ári.

Sjúkraliðastarfið
Sjúkraliðar starfa við þau hjúkrunarstörf sem þeir hafa menntun og faglega færni til að sinna. Sjúkraliðar vinna iðulega á hjúkrunarsviði og í samstarfi við hjúkrunarfræðinga og annað starfsfólk heilbrigðisstofnana. Sjúkraliðar tileinka sér þekkingu á ákveðnu sérsviði hjúkrunar og taka þátt í hjúkrun og við að aðstoða og leiðbeina sjúklingum í athöfnum daglegs lífs. Þeir þurfa einnig að hafa eftirlit með og fyrirbyggja fylgikvilla sem geta komið upp í kjölfar rúmlegu sem og að leiðbeina sjúklingum við endurhæfingu. Einnig leiðbeina þeir aðstoðarfólki við aðhlynningu og aðstoða við aðlögun nýrra starfsmanna þegar það á við.
Sjúkraliðar starfa innan heilbrigðiskerfisins, á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum, dvalar- og hjúkrunarheimilum auk þess sinna þeir kjarnastarfsemi heimahjúkrunar. Atvinnumöguleikar sjúkraliða eru góðir enda vaxandi þörf fyrir þjónustu sjúkraliða með hækkandi lífaldri fólks og vaxandi tíðni á lífstílstengdum sjúkdómum.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd