Hlutverk, markmið og verkefni
Sjúkratryggingar annast framkvæmd laga um sjúkratryggingar sem sett voru árið 2008. Markmið laganna er að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Jafnframt að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustu og hámarksgæðum hennar, styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna. Heilbrigðisráðherra skipar fimm manna stjórn Sjúkratrygginga en í henni sitja bæði einstaklingar með mikla reynslu og þekkingu á sviði heilbrigðismála og aðilar með mikla yfirsýn og reynslu af atvinnulífinu.
Starfsemi Sjúkratrygginga fellur í þrjá meginflokka. Í fyrsta lagi semur stofnunin, samkvæmt samningsfyrirmælum heilbrigðisráðherra, um heilbrigðisþjónustu bæði við einka- og opinbera aðila. Í öðru lagi annast stofnunin afgreiðslu sjúkratrygginga, þ.e. að greiða veitendum fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem þeir veita. Greiðslurnar byggjast á mati á réttindum notenda til greiðsluþátttöku hins opinbera í kostnaði við þjónustu, lyf eða hjálpartæki. Undir þetta fellur einnig umsýsla um slysa- og sjúklingatryggingar, þ.e. bótagreiðslur til sjúklinga, svo sem vegna skaða er tengist heilbrigðisþjónustu.
Í þriðja lagi annast stofnunin umsýslu hjálpartækja þ.e. búnað og vörur sem ætlað er að auka og viðhalda færni, efla þátttöku einstaklings í daglegu lífi auk þess að efla sjálfstæði og auka lífsgæði hans. Sjúkratryggingar semja við birgja um kaup á búnaði og úthluta honum til notenda. Algeng hjálpartæki eru t.d. hjólastólar og sykursýkisbúnaður. Einnig fellur hér undir mjög flókinn búnaður svo sem til tjáskipta.
Þessu þríþætta hlutverki Sjúkratrygginga var áður sinnt af Tryggingastofnun en með lögunum frá 2008 var þetta hlutverk flutt til nýrrar stofnunar, Sjúkratrygginga Íslands. Verkefni sem eru á hendi félagsmálaráðuneytis urðu eftir hjá Tryggingastofnun en þau sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið flutt yfir til Sjúkratrygginga. Verkefni Sjúkratrygginga hafa vaxið verulega á þeim rúma áratug sem stofnunin hefur verið við lýði. Aukningin er annars vegar vegna skipulagsbreytinga, t.d. voru samningar við hjúkrunarheimili fluttir frá heilbrigðisráðuneyti til Sjúkratrygginga árið 2016. Einnig var hlutverk stofnunarinnar aukið og skýrt í heilbrigðisstefnu sem Alþingi setti árið 2019. Hins vegar hafa verkefni stofnunarinnar vaxið í takt við þá heilbrigðisþjónustu sem stofnunin semur um og greiðir fyrir. Fjárframlög til heilbrigðisþjónustu, og þar með framboð á þjónustu, hefur vaxið síðustu ár til að bregðast við aukinni eftirspurn. Aukning eftirspurnar er af mörgum orsökum, svo sem vegna fjölgunar landsmanna, hækkandi meðalaldurs, aukinnar byrði langvinnra sjúkdóma, nýrrar þekkingar og tækni.
Þróun Sjúkratrygginga
Sjúkratryggingar hafa á síðustu árum tekið verulegum breytingum til að geta tekist á við þau veigamiklu verkefni sem stofnuninni er trúað fyrir. Stofnunin setti sér sína fyrstu langtímastefnu árið 2020 og er unnið að innleiðingu hennar. Skref í því ferli er t.d. stofnun sérstakrar hagdeildar til að vinna þekkingu úr gögnum; þekkingu sem síðan er nýtt til að bæta og efla þá þjónustu sem stofnunin ber ábyrgð á. Þá hafa nútímalegri vinnubrögð verið innleidd við kaup á heilbrigðisþjónustu, s.s. með samningum við Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri um svokallaða þjónustutengda fjármögnun en með því hugtaki er átt við að fjármögnun þessara stofnana taki í vaxandi mæli mið af umfangi og eðli þeirrar þjónustu sem þar er veitt. Sérstök eftirlitsdeild var sett á laggirnar og er henni ætlað að hafa eftirlit með samningsaðilum og þjónustuveitendum. Upplýsingatæknimál hafa verið í brennidepli síðustu ár enda burðarás í allri starfsemi og þjónustu við viðskiptavini. Sívaxandi hluti erinda og samskipta fer fram í gegnum gáttir á netinu og vefur stofnunarinnar hefur verið þróaður með aðgengi óháð færni að leiðarljósi. Svona mætti lengi telja og því ljóst að á stuttu æviskeiði stofnunarinnar hefur hún tekist á við mikil og fjölþætt verkefni sem skilað hafa sér í bættri heilbrigðisþjónustu fyrir landsmenn.
Vinnustaðurinn Sjúkratryggingar
Starfsemi Sjúkratrygginga er á tveimur stöðum á Vínlandsleið. Meginhluti starfseminnar fer fram í rúmgóðu, sérhönnuðu skrifstofuhúsnæði við
Vínlandsleið 16 en hjálpartækjalagerinn er á Vínlandsleið 6-8. Sjúkratryggingar voru fyrsta ríkisstofnunin hérlendis til að hverfa frá hefðbundnum skrifstofurýmum. Þess í stað var innleitt svokallað verkefnamiðað vinnuumhverfi (VMVU). Í því felst að aðstaða starfsmanna er í opnu rými sem hannað er til að nýtast sem best við ólík verkefni og hafa allir starfsmenn aðgang að sömu aðstöðu. Engar skrifstofur er að finna á Vínlandsleið heldur geta starfsmenn valið t.d. hefðbundna vinnustöð með rafdrifinni hæðarstillingu, hópvinnuborð þar sem teymi getur rýnt sameiginlega í skjöl á veggskjá, notalega sófa til að ræða málin eða lesa skýrslur, eða svokallað kyrrðarrými þar sem ríkir andrúmsloft áþekkt því sem þekkist á bókasöfnum. Fartölvur og heyrnartól eru staðalbúnaður starfsmanna og mikil áhersla hefur verið lögð á góða hljóðvist og aðgengi að fjölbreyttum fundarherbergjum þannig að starfsmenn geti haft algert næði ef svo ber undir.
Flestir eru sammála um að vel hafi tekist til með hönnun og nýtingu húsnæðisins þó vissulega geti það falið í sér áskoranir, einkum fyrir nýliða. Með verkefnamiðuðu vinnuumhverfi þarf færri fermetra og það sem sparast í leigukostnaði má nýta til að bæta starfsaðstöðu enn frekar. Það að allir hafi aðgang að sameiginlegri vinnuaðstöðu eflir liðsheild, eykur flæði hugmynda og upplýsinga og vinnur gegn stéttaskiptingu.
Sjúkratryggingar bjóða starfsfólki sínu upp á mikinn sveigjanleika í vinnu. Stefna stofnunarinnar er að starfsmenn geti unnið fjarvinnu hluta vikunnar og jafnvel til lengri tíma. Sú stefna byggist að hluta til á góðri reynslu af slíku fyrirkomulagi meðan á COVID faraldrinum stóð en nær öll starfsemi stofnunarinnar fór fram í fjarvinnu vikum og mánuðum saman meðan COVID 19 herjaði sem mest á landsmenn.
Sjúkratryggingar hafa verið framarlega í innleiðingu fjarvinnu og hefur það skilað sér bæði í ánægju starfsmanna en einnig í því að hægt er að bjóða störf án staðsetningar, enda býr hluti starfsmanna utan höfuðborgarsvæðisins og jafnvel erlendis. Fjarvinna í einhverju formi er einnig umhverfisvænn kostur og kallast því vel á við grænar áherslur stofnunarinnar almennt.
Á landsbyggðinni eru umboð stofnunarinnar rekin af sýslumannsembættum og einnig eru starfandi umboð fyrir afgreiðslu hjálpartækja.
Hjá Sjúkratryggingum starfa um 135 manns, 7 af hverjum 10 eru konur og gildir það hlutfall jafnt um stjórnendur sem almenna starfsmenn.
Stefna Sjúkratrygginga er að bjóða sveigjanlegan og fjölbreyttan vinnustað þar sem allir geta fundið sig velkomna. Hjá stofnuninni starfar fólk á öllum aldri, með ólíkan bakgrunn og frá ýmsum þjóðlöndum. Sá elsti er um áttrætt og þeir yngstu í kringum tvítugt. Styrkurinn felst í fjölbreytninni.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd