Skagabyggð

2022

Sveitarfélagið Skagabyggð varð til við sameiningu Vindhælishrepps og Skagahrepps árið 2002. Íbúafjöldi hefur verið á bilinu 85-110 síðan 2002. Kosningar í sveitarstjórn hafa alltaf verið óbundnar, þ.e. ekki hafa komið fram framboð. Í sveitarstjórn 2018-2022 sitja Dagný Rósa Úlfarsdóttir, grunnskólakennari og er hún jafnframt oddviti, Magnús Jóhann Björnsson bóndi og varaoddviti, Magnús Guðmannsson skólabílstjóri og bóndi, Kristján Steinar Kristjánsson bóndi og Karen Helga R. Steinsdóttir leikskólastarfsmaður og bóndi. Sveitarfélagið er með þjónustusamning við Skagaströnd um flestalla þjónustu fyrir íbúa.
Á árinu 2020 var tekin ákvörðun hjá öllum sveitarfélögum í Austur-Húnavatnssýslu að fara í formlegar sameiningarviðræður og stefnt er að kosningu 2021.

Vinnulag og framleiðsluferli
Í Skagabyggð er fyrst og fremst stundaður landbúnaður. Það eru rekin 6 kúabú og um 20 sauðfjárbú. Töluverð tækniþróun hefur verið á kúabúunum og eru mjaltaþjónar á fjórum þeirra. Þá er hrossarækt töluverð í sveitarfélaginu. Ferðaþjónusta er í litlum mæli. Töluverður fjöldi íbúa vinnur utan heimilis og sækir vinnu á Blönduós eða Skagaströnd.

Skipulag og sérstaða
Yfirbygging stjórnsýslu er ekki mikil og á sveitarfélagið í samstarfi við önnur sveitarfélög í Austur-Húnavatnssýslu varðandi rekstur byggðasamlaga. Börn á leik- og grunnskólaaldri sækja skóla á Skagaströnd. Ekkert þéttbýli er í sveitarfélaginu og engar skipulagðar lóðir fyrir þéttbýlismyndun. Ein skipulögð iðnaðarlóð er í landi Hafursstaða. Íbúafjöldi hefur verið í kringum 90 síðustu ár og barnafjöldi er í kringum 15. Fyrirséð er að íbúum komi til með að fækka á næstu árum, þar sem meðalaldur er frekar hár.
Sveitarfélagið hefur staðið að uppbyggingu í Kálfshamarsvík sem er norðan Skagastrandar. Þar eru rústir byggðar frá upphafi 20. aldar, ásamt ægifögrum stuðlabergsmyndum.

Framtíðarsýn
Þar sem sveitarfélögin í Austur-Húnavatnssýslu hafa tekið þá ákvörðun að fara í formlegar sameiningarviðræður má gera ráð fyrir því að sú sameining gangi eftir. Ef svo er, verður bjart yfir Skagabyggð næstu árin. Sífelld pressa á sameiningar smærri sveitarfélaga hefur áhrif á Skagabyggð og því mikilvægt að íbúar hafi eitthvað um málið að segja. Komi til farsællar sameiningar verður það heillaskref fyrir alla sýsluna.

Aðsetur
Sveitarfélagið á og rekur félagsheimilið Skagabúð. Oddviti er með aðstöðu þar sem aðalrekstur sveitarfélagsins fer fram frá heimili oddvita. Mörgum verkefnum er útvistað: þjónustusamningi við Skagaströnd um ýmsa þjónustu, bókhaldsþjónustu sem keypt er af fyrirtækinu Lausnamið ehf. á Skagaströnd og skipulags- og þjónusta byggingarfulltrúa er aðkeypt af Blönduósbæ.
Mannauður og starfsmannafjöldi
Athyglisvert getur verið að greina frá því hve margir starfsmenn tengjast starfseminni og um helstu atriði varðandi menntun starfsmanna eftir því sem við á.
Sveitarfélagið er með fáa starfsmenn á sinni launaskrá, þ.e. oddvita og húsvörð Skagabúðar. Nefndarfólk er í heildina um 20 manns. Þetta helgast eins og áður hefur verið minnst á vegna þjónustusamninga og byggðasamlaga.

Velta og hagnaður
Fjárhagur sveitarfélagsins er viðkvæmur og fær sveitarfélagið milli 50 og 60% tekna sinna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Því hafa sveiflur hjá þeim sjóði gríðarleg áhrif á fjárhag Skagabyggðar. Niðursveifla í afurðaverði sauðfjárbænda, allt frá 2016 hefur einnig gríðarlega mikil áhrif vegna samsetningar atvinnuhátta í sveitarfélaginu. Árferði eins og 2020 þar sem mikil niðursveifla er í þjóðfélaginu hefur almennt mikil áhrif á fjárhag sveitarfélagsins.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd