Sveitarfélagið Skagafjörður var stofnað árið 1998 við sameiningu 11 hreppa í héraðinu. Heildaríbúafjöldi er rétt rúmlega 4500 og býr rúmlega helmingur þeirra á Sauðárkróki, sem er fjölmennasta bæjarfélag svæðisins og miðstöð stjórnsýslu, verslunar og þjónustu í Skagafirði. Aðrir þéttbýliskjarnar eru Hofsós, sem er elsti verslunarstaður Skagfirðinga og vaxandi ferðamannastaður, Varmahlíð, miðstöð menningar í Skagafirði og hinn sögu-frægi kirkjustaður Hólar í Hjaltadal. Sveitarfélagið leggur mikinn metnað í að þjóna og hlúa að íbúum og fyrirtækjum í Skagafirði með fjölþættri þjónustu ásamt því að uppfylla allar lögboðnar skyldur.
Heilbrigt og fjölskylduvænt samfélag
Sveitarfélagið Skagafjörður er fjölskylduvænt samfélag þar sem leitast er eftir því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðu mannlífi þar sem lífleg menning og menntun á öllum skólastigum blómstrar. Í Skagafirði eru reknir leikskólar og grunnskólar auk Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Tónlistarskóla Skagafjarðar, Háskólans á Hólum og Farskólans, miðstöðvar símenntunar á Norðurlandi vestra. Sveitarfélagið er Heilsueflandi samfélag og lögð er rík áhersla á að börn og fullorðnir geti iðkað fjölbreyttar íþróttir og stundað útiveru við sem bestar aðstæður. Á svæðinu eru flott íþróttamannvirki, líkamsræktarstöðvar, sundlaugar, golfvellir, reiðhöll, gervigrasvellir, íþróttavellir, ásamt fyrirtaks skíðasvæði.
Sagan og menningin
Skagafjörður hefur löngum verið margrómaður sem eitthvert glæsilegasta hérað landsins, þar sem náttúran, sagan og menningin eru samofin. Svæðið er annálað hrossaræktarhérað. Sögusetur íslenska hestsins er staðsett á Hólum og mikið lagt upp úr skipulögðum útreiðatúrum víðs vegar í Skagafirði. Safnamenning er mjög blómleg, en hún styður vel við ýmis athyglisverð kennileiti ásamt markverðum stöðum sem tengjast t.d. sögusviði Grettissögu eða Sturlungu. Í Skagafirði er öflug og fjölbreytt matvælaframleiðsla þar sem vinnsla landbúnaðar- og sjávarafurða mætast undir einu merki. Veitingastaðir í Skagafirði bjóða upp á fjölbreytta rétti þar sem notað er úrvals hráefni beint frá býli undir merkinu Matarkistan Skagafjörður. Markmið verkefnisins, Matarkistan Skagafjörður, er að auka sýni-leika skagfirskrar framleiðslu á veitingastöðum og í verslunum héraðsins. Með því geta gestir veitingahúsanna upplifað svæðisbundna matarmenningu með gæða hráefni beint frá býli.
Afþreying og afslöppun
Ferðaþjónusta er ört vaxandi atvinnugrein í Skagafirði og er hægt að finna fjölbreytta afþreyingu og huggulega gistingu vítt og breytt um fjörðinn allt árið um kring. Innan um óhamda náttúrfegurð Skagafjarðar má upplifa óþrjótandi afþreyingarmöguleika. Víða er hægt að renna fyrir fisk, halda í gönguferðir í fallegri náttúrunni, fara í sund, heimsækja sýningar og söfn og njóta þess sem Skagafjörður hefur upp á að bjóða í mat og drykk. Flúða- og fljótasiglingar á jökulánum eða sigling út í Drangey er einnig upplifun sem seint líður úr minni.
Mannlífið og tíðarandinn
Skagfirðingar hafa löngum verið þekktir fyrir fjölskrúðugt félagslíf og halda úti sérlega öflugri tónlistar- og söngmenningu sem er þeim í blóð borin. Til merkis um það er líflegt kórastarf í firðinum, t.d. hjá Karlakórnum Heimi, Rökkurkórnum og Skagfirska kammerkórnum, Sóldísunum og kór eldri borgara auk fjölmargra kirkjukóra og sönghópa víðsvegar um héraðið, en þar eru Álftagerðisbræður hvað þekktastir. Margir frægir tónlistamenn hafa alið manninn í Skagafirði eða eiga ættir sínar að rekja í fjörðinn, konungur skagfirsku sveiflunnar, Geirmundur Valtýsson, er án efa einn sá frægasti. Leiklistarstarf hefur einnig verið mjög atkvæðamikið í héraðinu. Leikfélag Sauðárkróks er eitt öflugasta áhugamannaleikfélag landsins og setur jafnan upp tvö leikrit á ári auk annara viðburða sem félagið kemur að. Síðustu vikuna í apríl á hverju ári blása Skagfirðingar til svonefndrar Sæluviku. Þar er jafnan mikið um dýrðir og boðið upp á fjölbreytta lista- og menningardagskrá á sviði tónlistar, leiklistar og myndlistar í bland við fróðleik og svæðisbundna matargerð. Að auki eru skólar og söfn á svæðinu mjög iðin við að efla menningarlífið árið um kring með alls kyns uppákomum.
Gönguferðir og útivist
Sveitarfélagið hefur gert mikið átak í að skipuleggja aðgengileg göngusvæði með grónum reitum, auk þess sem útsýnisskífur hafa verið settar upp víðsvegar og skiltum bætt við algengar gönguleiðir og fuglaskoðunarstaði. Fjölskylduvænar leiðir er að finna í Litlaskógi og Skógarhlíð við Sauðárkrók, Hólaskógi í Hjaltadal og Reykjarhól í Varmahlíð að ógleymdum Borgarsandinum á Sauðárkróki. Fyrir meðalvant göngufólk er mælt með leið t.d. um Austurdal meðfram hrikalegum gljúfrum Eystri-Jökulsár sem er eitt magnaðasta flúðasiglingasvæði í Evrópu. Vanir göngugarpar geta spreytt sig á Mælifellshnjúk, Molduxa, Tindastól eða Gvendarskál í Hólabyrðu sem öll eru með stikuðum gönguleiðum. Nánari upplýsingar um fleiri gönguleiðir má finna í göngu- og útivistarkortum sem nú eru fyrirliggjandi í upplýsingamiðstöðvunum í Varmahlíð og á Sauðárkróki.
Nánari og ítarlegri upplýsingar um allt það sem Skagafjörður hefur upp á að bjóða má nálgast inn á heimasíðunum: www.skagafjordur.is og www.visitskagafjordur.is.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd