Skaginn 3X

2022

Skaginn 3X er leiðandi fyrirtæki í þróun, hönnun og framleiðslu á tækjabúnaði fyrir matvælaiðnað sem byggir fyrst og fremst á byltingakenndum tækninýjungum í sjávariðnaði. Lausnir Skagans 3X byggja á mikilli sjálfvirkni með áherslu á bætt gæði og nýtingu afurða auk þess sem hagkvæmar og umhverfisvænar kæli-, pökkunar- og flutningslausnir eru hafðar að leiðarljósi.
Fyrirtækið byggir á sterkum grunni þar sem kunnátta, reynsla og nálægð við iðnaðinn er höfð að leiðarljósi. Framtíð fyrirtækisins byggir á stöðugri þróun á nýjum aðferðum og vinnslulausnum sem mynda heildstæða ferla, stóra sem smáa, fyrir matvælaiðnað. Framleiðsluvörur Skagans 3X eru því hagkvæmar fyrir viðskiptavini sem og umhverfið. Þessi hagkvæmni felst m.a. í að nýta sameiginlegar auðlindir betur með því að lágmarka rýrnun og viðhalda gæðum frá veiðum til neyslu. Á sama tíma er lögð áhersla á úrvinnslu aukaafurða og að gera framleiðslu- og flutningsferli sem umhverfisvænst.

Stofnun fyrirtækisins og aðdragandi
Skaginn 3X er móðurfélag Skagans og Þorgeirs & Ellerts á Akranesi og 3X Technology á Ísafirði. Sögu félagsins má rekja aftur til ársins 1928 þegar bræðurnir Þorgeir og Ellert Jósefssynir stofnuðu Þorgeir & Ellert en félagið var einn af burðarásum atvinnulífs á Akranesi um áratuga skeið en þar var unnið að skipasmíði ásamt almennri málmsmíði. 3X Technology var stofnað á Ísafirði árið 1994 af Alberti Högnasyni, Jóhanni Jónassyni og Páli Harðarsyni og vann félagið fyrst um sinn að þróun og smíði vinnslubúnaðar fyrir rækjuiðnað bæði hér á landi sem og erlendis.
Núverandi eigendur Skagans 3X, Ingólfur Árnason og Guðrún Agnes Sveinsdóttir, festu kaup á 20% hlut í Þorgeir & Ellert árið 1995. Þremur árum síðar var Skaginn stofnaður við samruna fyrirtækisins IÁ-Smiðju, sem þá var í eigu Ingólfs og Guðrúnar Agnesar, og ryðfrírrar stáldeildar Þorgeirs & Ellerts. Það var svo árið 2014 sem samstæða Skagans 3X festi kaup á meirihluta hlutafjár í 3X Technology. Í gegnum árin hafa Ingólfur og Guðrún Agnes jafnt og þétt aukið hlut sinn í félögunum en á árinu 2020 voru þau eigendur 100% hlutafjár samstæðunnar.

Starfsemin
Skaginn 3X er með starfsstöðvar á Akranesi, Ísafirði, Akureyri og í Reykjavík. Auk starfstöðvanna á Íslandi er Skaginn 3X með söluskrifstofu í Noregi ásamt því að vera með umboðsmenn vísvegar um heiminn. Megin starfsemi fyrirtækisins er á Akranesi og Ísafirði en af um 200 starfsmönnum Skagans 3X starfa flestir á Akranesi eða um 140 manns.
Á undanförnum árum hefur Skaginn 3X vaxið hratt þó svo að starfsemin hafi dregist saman á árinu 2020 vegna hliðrunar á verkefnum sökum heimsfaraldurs. Samhliða hröðum vexti hefur á undanförnum árum verið ráðist í umtalsverðar endurbætur og stækkanir á skrifstofu- og framleiðslurýmum, bæði á Akranesi og Ísafirði. Framleiðsluaðstaðan á Akranesi er nú um 12.500 fm að stærð en sé aðstaða allra starfstöðva tekin saman er heildarfermetrafjöldi um 16.500 fm og telur það bæði skrifstofu- og framleiðslurými. Ásamt því að endurbæta og stækka húsakost hefur einnig verið ráðist í töluverðar fjárfestingar í endurnýjun á tækjabúnaði í framleiðslunni á Akranesi. Um er að ræða sjálfvirkar laser skurðarvélar fyrir plötustál og prófíla ásamt hálfsjálfvirkum beygjuvélum og öðrum búnaði. Mikil áskorun hefur verið fólgin í því að hanna vörur upp á nýtt svo þær passi hvað best fyrir þessa nýju framleiðslutækni sem er nú ein af undirstöðum frekari vaxtar.

Mannauðurinn og samstarf við iðnaðinn
Mannauður Skagans 3X býr yfir mikilli sérþekkingu og getu til þess að framkvæma stór sem smá verk þar sem margar tækni- og vinnslulausnir fyrirtækisins tengjast og mynda heildstæð kerfi. Þróunar- og hönnunarteymi Skagans 3X, sem telja um 60 manns, vinna frá Akranesi, Ísafirði og Reykjavík. Góður samgangur á milli annars vegar söluteymis og hins vegar þeirra sem starfa við þróun, hönnun og framleiðslu er fyrirtækinu mikilvægur þar sem það stuðlar að því að fólk skiptist á hugmyndum, sem leitt getur af sér nýjar vörur til framtíðar.
Árangri Skagans 3X ekki síst að þakka íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum sem hafa allt frá stofnun fyrirtækisins verið tilbúin að eiga samstarf um þróun nýrra lausna. Gæfuríkt samtarf við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hefur þannig opnað fyrir útflutning á íslensku hugviti sem annars hefði verið erfitt án nálægðar við útgerðir og fiskvinnslur hérlendis.

Spennandi tímar framundan
Skaginn 3X ásamt þýska stórfyrirtækinu BAADER sendu frá sér fréttatilkynningu á síðasta ársfjórðungi 2020 þess efnis að BAADER hygðist kaupa meirihluta í Skaganum 3X en viðskiptin væru háð venjubundnum fyrirvörum og ráðgert væri að þeim fyrirvörum yrði aflétt í ársbyrjun 2021. BAADER er alþjóðlegt fyrirtæki með um 100 ára sögu að baki og er í fremstu röð þegar kemur að hönnun tækja fyrir matvælaiðnað. Fyrirtækið er með starfsstöðvar í yfir 100 löndum og sex heimsálfum og munu um 1.500 starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum þegar kaupin hafa gengið í gegn.
Ljóst er að í samrekstri Skagans 3X og BAADER felast mikil tækifæri til vaxtar með aukinni framleiðslu afurða fyrirtækisins og sölu þeirra. Nýtt alþjóðlegt sölunet verður fyrsta skrefið í samstarfi fyrirtækjanna þar sem markaðs- og sölustarf Skagans 3X verður samþætt öflugu og víðfemu sölukerfi BAADER. Þá er ljóst að einnig felast í samrekstrinum mikil tækifæri til að stórefla rannsóknar- og þróunarstarf byggt á áframhaldandi samstarfi og nálægð við öflugan sjávarútveg á Íslandi.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd