Eins og mörg góð fyrirtæki stendur Skalli á gömlum grunni en þróast jafnframt í takt við tímann og er sívinsæll. Skalli er á tveimur stöðum, í Ögurhvarfi 2 í Kópavogi og á Austurvegi 6 á Selfossi. Á báðum stöðunum er ísinn aðalsmerkið, en fjölbreytt úrval góðra skyndibita nýtur einnig mikilla vinsælda.
Sagan
Ísinn hefur ávallt verið aðalsmerki Skalla og stendur alltaf fyrir sínu og nýtur alltaf jafnmikilla vinsælda. „Ef það bara rétt glittir í sólina, þá bókstaflega fyllist allt hérna, sólin fyllir alla lífsgleði og allir vilja fá sér ís,“ segir Atli Jónsson, sonur Jóns Magnússonar. Þeir feðgar reka Skalla í Ögurhvarfi. Skalli er líka á Selfossi, þar eru aðrir eigendur en náið samstarf er á milli staðanna og á Selfossi er sami góði Skallaísinn einnig búinn til frá grunni á staðnum.
Skalli er líka vinsæll vegna mikils úrvals góðra skyndirétta og er í senn veitingastaður og ísbúð. Íssalan tekur mikinn kipp á sumrin, ekki síst ef sést til sólar, eins og fyrr segir. Girnilegur, fjölbreyttur og ferskur nammibar spillir þar ekki fyrir.
Það eru margir, sem í gegnum árin, þekkja til veitingastaðarins eða „sjoppunnar“ Skalla.
Gaman er að rifja upp grein úr MBL frá 25. mars 2011. Þar var viðtal við Jón Magnússon, eiganda Skalla, í tilefni af því að hann þurfti að flytja staðinn um set og opna á nýjum stað.
Sjoppumenningin á Íslandi hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og hafa þessar breytingar ekki farið framhjá verslunarmanninum Jóni Magnússyni, sem margir þekkja sem Jón Skalla, en hann hefur rekið söluskálann Skalla ásamt fjölskyldu sinni í 40 ár. Nú er Skalli á tímamótum og stendur til að flytja söluskálann frá Grjóthálsinum við Vesturlandsveg í Ögurhvarf.
Jón opnaði fyrsta Skalla í Lækjargötu árið 1971, en nafnið má rekja til fyrri eiganda verslunarinnar. „Þetta er búið að vera mjög gaman í öll þessi ár, alltaf brjálað að gera og aldrei frí,“ segir Jón. Hann tók sér pásu frá Skalla í nokkur ár en var svo fenginn aftur inn í reksturinn.
„Ég ákvað að taka við rekstri Skalla á Selfossi gegn því að ég fengi búðina á Grjóthálsi. Það gekk nokkuð brösuglega fyrst um sinn og það tók tíma að koma rekstrinum í gang. En svo hætti ég á Selfossi og gat þá einbeitt mér að rekstrinum á Grjóthálsi.“ Þar hafa Jón og fjölskylda hans rekið Skalla frá árinu 1993. Jón segir árin í Grjóthálsinum hafa verið góð og þar hafi hann kynnst mörgum skemmtilegum viðskiptavinum í gegnum árin. Skeljungur vildi ekki endurnýja leigusamninginn við Skalla.
Framtíðarsýn
Jón segir það ekkert grín að byrja á nýjum stað, þó að Skalli sé merki sem flestir kannist við. Framboðið í dag sé einfaldlega orðið það mikið. En Skalli í Ögurhvarfi hefur tekið vel við sér eftir þungan byrjunarróður og reksturinn gengur vonum framar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd