Skeljungur er fjölorkufélag sem starfar á þremur landfræðilegum mörkuðum, á Íslandi, í Færeyjum og á N-Atlantshafinu. Dótturfélög Skeljungs eru sjö. Basko, Tollvörugeymsla Skeljungs ehf., Barkur ehf., Íslenska Vetnisfélagið ehf. og Bensínorkan ehf. ásamt P/F Magn og P/F Demich með starfsemi í Færeyjum. Starfseminni má skipta í fimm megin flokka:
Orkugjafar; jarðefnaeldsneyti, vetni, metan, olíur og tengdar vörur – Rekstur fasteigna, birgðastöðva og dreifingar – Smásala – Útleiga fasteigna – Aðrar vörur.
Skeljungur er framsækið og sveigjanlegt þjónustu- og verslunarfyrirtæki með starfsemi á yfir 100 stöðum á landinu. Hlutverk Skeljungs er að þjóna orkuþörf einstaklinga og fyrirtækja á hagkvæman og öruggan máta í sátt við samfélagið og umhverfi sitt.
Höfuðstöðvar Skeljungs eru staðsettar að Borgartúni 26 í Reykjavík en hjá fyrirtækinu
starfa um 89 manns.
Aðdragandi og upphaf
Hlutfélagið Skeljungur hefur verið starfrækt, í núverandi mynd, síðan 9. desember 1955.
Aðdragandinn að stofnuninni hófst um þremur áratugum fyrr eða árið 1925 þegar einkaleyfi
Landverslunar með olívörur var afnumið. Þremur árum síðar, nákvæmlega þann 14. janúar 1928 komu fimm íslenskir athafnamenn saman og stofnuðu nýtt fyrirtæki, HF Shell á Íslandi, en undanfari þess, Olíufélagið, hafði þá verið starfrækt um hálfs árs skeið. Þessir stofnendur voru læknirinn Björgúlfur A. Ólafsson, konsúllinn Gísli J. Johnsen, hæstaréttarlögmaðurinn Magnús Guðmundsson ásamt stórkaupmönnunum Hallgrími Benediktssyni og Hallgrími A. Tuliníus. Samanlagt fóru þeir með 51% hlutafjár í hinu nýja fyrirtæki á 49% eign Shell samsteypunnar.
Skeljungur var í Kauphöll Íslands frá árinu 1994 til 2003 og snéri aftur á skráðan hlutabréfamarkað þann 9. desember árið 2016. Meðal stærstu hluthafa félagsins eru lífeyrissjóðir, bankar og fjárfestingafélög. Forstjóri Skeljungs er Árni Pétur Jónsson. Aðstoðarforstjóri er Már Erlingsson.
Framkvæmdarstjórn félagsins skipa þau: Gróa Björg Baldvinsdóttir, Karen Rúnarsdóttir, Ólafur Þór Jóhannesson og Þórður Guðjónsson.
Fyrstu árin
Á stofnárinu 1928 lauk framkvæmdum við fyrstu olíustöðina í Skerjafirði en þaðan hófust
líka siglingar á 223 tonna tankskipi, Skeljungi I, sem félagið lét sérsmíða fyrir sig. Í beinu framhaldi var hafist handa við að byggja olíugeyma víðsvegar utan Reykjavíkur. Allar þessar nýjungar áttu eftir að valda byltingu í dreifingu eldsneytis á Íslandi sem fram að þessu hafði farið fram, með mikilli fyrirhöfn, í handkeyrðum tunnum og fötum. Á árunum um og eftir seinna stríð átti vöxtur og viðgangur HF Shell eftir að verða samofin því mikla framfaraskeiði og uppbyggingu sem þá ríkti í íslensku atvinnulífi. Fyrsta aðsetur fyrirtækisins var í húsi við Thorvaldssensstræti en árið 1943 fluttu aðalskrifstofunnar inn í hið nýbyggða Hamarshús við Tryggvagötu 4-6. Þegar líða fór að miðbiki aldarinnar jókst bifreiðafjöldinn á þjóðvegunum og í réttu hlutfalli tóku bensíndælur, á vegum félagsins, að spretta upp víðsvegar um landið. Árið 1948 opnaði í Lækjarhvammi fyrsta nútíma bensínstöð HF Shell á höfuðborgarsvæðinu en þar var jafnframt í fyrsta skipti afgreidd dieselolía á farartæki hér á landi. Þess ber að geta að á sama stað er í dag Laugavegur 180 og þar er enn rekin bensínstöð á vegum Skeljungs undir nafni Orkunnar en fyrir nokkrum árum þjónaði hún sem sögusvið hinna vinsælu sjónvarpsþátta um Næturvaktina.
Nýtt og öflugt íslenskt fyrirtæki
Eins og fyrr er frá greint hóf hið alíslenska fyrirtæki, Skeljungur, starfsemi í desember árið 1955. Í sama mund keypti nýstofnað félagið upp alla lausafjármuni HF Shell hér á landi og tók jafnframt við allri sölustarfsemi þess. Um þetta leyti hafði fyrirtækið gengið frá mjög hagstæðum viðskiptasamningi um innkaup á olíuvörum frá Sovétríkjunum. Þau viðskipti áttu eftir að skjóta enn styrkari stoðum undir reksturinn og standa óslitið fram yfir 1990. Núverandi eldsneytisbirgjar Skeljungs eru Equinor í Noregi og BP. Árið 1961 flutti Skeljungur úr Hamarshúsinu yfir í nýtt átta hæða háhýsi að Suðurlandsbraut 4. Þar fór starfsemin fram til margra ára enda byggingin miklu betur þekkt sem sjálft „Skeljungshúsið“. Tilkoma þess var í raun órætt tákn um hraða uppbyggingu fyrirtækis sem treysti undirstöður samfélagsins með öruggri og úthugsaðri miðlun eldsneytis þvert um landið og miðin. Undir lok sjöunda áratugarins hafði birgðastöð Skeljungs í Skerjafirði sinnt dyggilega hlutverki sínu um 40 ára skeið. Á þeim tímapunkti hafði byggðaþróunin á svæðinu orðið með þeim hætti að ekki þótti öruggt, í ljósi almannahagsmuna, að starfsemi olíufélags færi fram í næsta nágrenni við íbúðahverfi. Árið 1970 var Skeljungi úthlutað lóð undir nýja olíustöð út í Örfirisey. Í dag hefur sama svæði tekið miklum stakkaskiptum og þjónar í raun sem sameiginleg birgðastöð allra olíufélaganna á Íslandi. Út frá því liggur einhver stærsta olíuhöfn landsins en hún var tekin í notkun árið 2000. Árið 2004 fluttu höfuðstöðvar Skeljungs út í Örfirisey þar sem félagið var til loka árs 2011 þegar starfssemin fluttist að Borgartúni 26.
Eldsneytið og umhverfið
Á langri vegferð hefur Skeljungur unnið mikið uppbyggingarstarf á ýmsum sviðum, til góða fyrir íslenskt samfélag. Fyrirtækið hefur lagt ríka áherslu á að ganga vera ávallt í fararbroddi
hvað varðar þjónustu við viðskiptavini. Leitast er við að bjóða upp á eldsneyti sem í senn nýtir orkuna og sparar hana í leiðinni. Sala á 98 oktana bensíni hófst árið 1986 og með því í fyrsta skipti boðið upp tvær tegundir á stöðvum félagsins. Árið 1991 kom á markaðinn 95 oktana blýlaust bensín sem þá þótti mikil nýlunda. Með þessu var slegin ferskur tónn í umhverfisstefnu Skeljungs þar sem kynnt var til sögunnar ný breidd eldsneytis með fjölvirkum bætiefnum sem stuðluðu að hreinni bruna, betri nýtingu og minni mengun umhverfisins.
Í kjölfarið áttu síðan eftir að fylgja sífellt þróaðri og fullkomnari bensíntegundir en þar munaði þó mestu um Shell V-Power sem kom á markaðinn árið 2001 og aftur í endurbættri samsetningu árið 2007. Árið 2010 kynnti Skeljungur Shell V-Power 95 oktana bensín og hætti jafnframt að bjóða upp á hefðbundið bensín á Shellstöðvum.
Fjölorka og kolefnisjöfnun
Árið 1999 gerðist móðurfyrirtækið Shell International, fyrir milligöngu Skeljungs, stofnaðili að nýju félagi sem hafði að markmiði að auka notkun vetnis sem eldsneytis á Íslandi. Þessi samvinna leiddi til þess að árið 2003 var gangsett fyrsta vetnisstöðin í heiminum sem starfrækt er á almennri bensínstöð en henni var valinn staður á Shellstöðinni við Vesturlandsveg. Stöðin var í sameiginlegri eigu Íslenskrar Nýorku og Skeljungs en reksturinn var hluti af Ectos strætisvagnaverkefninu sem styrkt var af Evrópusambandinu til að rannsaka kosti vetnis sem vistvæns orkugjafa á Íslandi. Miklum áfanga var náð síðar á árinu þegar þrír vetnisvagnar hófu akstur á vegum Strætó bs. á höfuðborgarsvæðinu. Á meðal þekktra alþjóðlegra fyrirtækja sem komu að verkefninu eru Shell Hydrogen, Daimler Chrysler, Norsk Hydro auk Vistorku sem
er samstarfsvettvangur íslenskra fyrirtækja og stofnana um hagnýtingu vetnis sem orkugjafa. Árið 2004 hlaut Skeljungur umhverfisviðurkenningu Reykjavíkurborgar. Fram kom í rökstuðningi úthlutunarnefndar að Skeljungur hafi unnið lofsvert starf í umhverfis- og öryggismálum, m.a. með þátttöku í vetnisverkefninu og samfélagsverkefnum ásamt því að hafa í gangi öflugt starf í öryggismálum. Skeljungur eignaðist vetnisstöðina að fullu árið 2010 en stöðinni var síðan lokað árið 2011. Þróunarverkefnið hélt þó áfram og þann 14. júní árið 2018 var vetnisstöðin við Vesturlandsveg opnuð á ný. Enduropnunin var unnin í samstarfi við Nýorku og þáttur í verkefni á vegum Evrópusambandsins er nefnist H2ME-2. Verkefnið var styrkt af Fuel Cells and Hydrogen Joint Undertaking og uppbyggingin unnin í samstarfi við norska fyrirtækið Nel ASA sem sá um framleiðslu stöðvanna. Ári síðar, þann 15. maí árið 2019, opnaði Skeljungur undir nafni Orkunnar, fyrstu fjölorkustöð landsins. Stöðin er staðsett við Miklubraut, en þar geta viðskipavinir, auk hefðbundins jarðefnaeldsneytis, keypt metangas frá urðunarstað Sorpu í Álfsnesi, vetni frá Orku náttúrunnar sem framleitt er með rafgreiningu í Hellisheiðarvirkjun og notast við hraðhleðslur fyrir rafmagns- og tengitvinnbíla. Fjölorkustöðvar sem þessi eru vandfundnar á heimsvísu. Hálfum mánuði síðar, þann 30. maí, 2019, hrinti Skeljungur af stað einu stærsta átaki sem ráðist hefur verið í á Íslandi til að draga úr losun gróðurhúsalofttegundum hér á landi, þegar félagið bauð viðskiptavinum sínum upp á þann valkost að kolefnisjafna eldnseytiskaup sín í gegnum Votlendissjóðinn. Verkefnið fékk gríðarlega góðar móttökur en á fyrsta ári verkefnisins höfðu u.þ.b 6.500 viðskiptavinir Orkunnar skráð sig í kolefnisjöfnuð viðskipti hjá félaginu.
Sjálfsafgreiðslustöðvar
Skeljungur hefur ávallt aðlagað sína starfsemi að breyttu neytendamynstri hverju sinni. Í dag gera viðskiptavinir meiri kröfur um hraða, lágt verð, gott aðgengi og snyrtilegt umhverfi ásamt því vilja neytendur að fyrirtæki sýni af sér samfélagslega ábyrgð. Árið 2017 voru allar bensínstöðvar í eigu Skeljungs færðar undir nafn Orkunnar og þjónusta útistarfsmanna við áfyllingu eldsneytis, rúðuvökva, frostlög, smurolíu ásamt þurrkublaðaskiptingum lögð niður. Flestum stöðvum Orkunnar fylgja þvottaplön þar sem ökumenn geta þrifið bifreiðar sínar. Á bensínstöðvum Orkunnar grundavallast vöruval bæði í bílavöru og almennri neytendavöru en megináherslan er þó á eldsneytisölu, í sjálfsafgreiðslu á lægra verði. Árið 1997 fór Skeljungur af stað með nýja tegund af þjónustustöðvum undir nafninu Select. Þar var opnunartíminn töluvert lengri en á öðrum Shellstöðvum og byggði fyrirkomulagið á einskonar snyrtilegum samruna bensínstöðvar, kjörbúðar og skyndibitastaðar þar sem þjónustan er alltaf snögg og alúðleg. Vöruvalið byggði á ferskri fjölbreytni þar sem boðið var upp á nýbakað brauðmeti og pylsugrill ásamt kaffi- og hollustuhorni. Árið 2011 kynnti Skeljungur svo til sögunnar nýja veitingasölu undir nafninu Stöðin þar sem lögð var áhersla á gæðakaffi og skyndibita. Skeljungur og Basko gengu til samstarfs um verslanarekstur við stöðvar Skeljungs á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og í Keflavík árið 2014. Verslanirnar voru til ársins 2018 reknar undir vörumerki 10-11 en frá árinu 2018 undir vörumerki Kvikk on the go, þar sem áhersla er lögð á sveigjanlegri opnunartíma, ferskt og fjölbreytt vöruúrval fyrir alla, ásamt þægindum og skjótri þjónustu. Skeljungur festi á árinu 2019 kaup á öllu hlutafé Basko og horft er til frekari uppbyggingar í verslanarekstri félagsins. Árið 1992 var hrint af stað einstakri nýjung í sögu fyrirtækisins en þá hófst útgáfa sérstakra krítarkorta Skeljungs, ásamt uppsetningu á fyrstu kortasjálfsölunum á bensínstöðvum þess. Á þeim tímapunkti var lagður grunnurinn að fyrstu sjálfsafgreiðslustöðvum Orkunnar ehf. en sá rekstur hófst árið 1995 á vegum Skeljungs, í samstarfi við eignarhaldsfélög Hagkaups og Bónus. Í dag er þetta vörumerki alfarið í eigu Skeljungs og eru í þess nafni reknar 64 stöðvar sem allar hafa að markmiði að bjóða upp ódýrt eldsneyti á landinu. Samfara þessu hefur kortaþjónusta Skeljungs eflst og dafnað. Viðskiptavinir gátu þar með safnað sér alls kyns vildarpunktum og afsláttarkjörum sem hægt er að afla sér upplýsinga um inn á sérstökum þjónustuvef á heimasíðunni: www.skeljungur.is og www.orkan.is
Fyrirtækjaþjónusta
Þungamiðjan í starfsemi Skeljungs frá upphafi er öflug þjónusta við athafnalíf þjóðarinnar.
Þar gildir einu hvort um að ræða útgerðir, flugrekstur, verkatakastarfsemi, landbúnað eða iðnað. Hjá fyrirtækjaþjónustu Skeljungs er kappkostað við að stuðla að hagkvæmum lausnum til handa íslensku atvinnulífi og er þar byggt á traustum tengslum, sérhæfðri þekkingu og áratuga reynslu. Umsjónarmenn olíudreifingar Skeljungs eru staðsettir víðsvegar um landið og má nálgast nánari upplýsingar um þá inn á heimasíðu eða í gegnum þjónustuver fyrirtækisins í síma 444 3100. Sjávarútvegsþjónusta: Íslenskur sjávarútvegur hefur ávallt verið stórnotandi eldsneytis og því hefur þjónusta honum tengd skipað mikilvægan sess hjá félaginu. Mikil áhersla hefur verið lögð á að byggja upp virkt þjónustunet til útgerðafyrirtækja og vinnlustöðva og einnig til fiskiskipa á miðunum umhverfis landið. Skeljungur ásamt Skipaþjónustu Íslands festu kaup á fyrsta olíupramma íslendinga og nefnist pramminn Barkur. Olíupramminn tekur um 1000 rúmmetra af eldsneyti í fargeyma sína sem samsvarar farmi 30 olíubíla. Með prammanum hefur Skeljungur náð að draga úr sem samsvarar u.þ.b. 1.100 ferðum olíubifreiða um vesturbæ Reykjavíkur og miðborgina árlega. Flugþjónusta: Flugvélar eru eldsneytisfrekustu samgöngutækin og því skal engan furða að flugfélög séu meðal stærstu viðskiptavina Skeljungs í dag. Samhliða opnun Leifsstöðvar árið 1987 hófst starfsemi afar fullkominnar afgreiðslustöðvar fyrir flugvélaeldsneyti í Keflavík. Þar býður Skeljungur bæði upp á þotueldsneyti (Jet A-1) og flugbensín (Avgas 100LL) á flestum stærri flugvöllum landsins en framboð þessara vara er einfaldlega háð eðli og stærð þeirra véla sem fara um hvern völl fyrir sig. Verktaka- og flutningaþjónusta: Þetta svið er ætlað öllum þeim sem ráða yfir vinnutækjum og iðnvélum. Þjónustan felst í alhliða ráðgjöf um rétta notkun eldsneytis og smurefna ásamt gerð smurkorta. Fyrirtækjasvið Skeljungs útvegar sérhæfð tæki og búnað sem nauðsynleg eru við afgreiðslu og notkun eldsneytis, auk þess að bjóða upp á ýmsar rekstrarvörur. Efnavara: Skeljungur býður fjölbreytt úrval efnavara til iðnaðar og matvælaframleiðslu. Starfsmenn miðla af uppsafnaðri þekkingu sinni á sviði framleiðslu og vöruþróunar. Ráðgjöfin fer fram í nánu samstarfi við erlenda birgja. Boðið er upp á skjóta og örugga afhendingu hvar sem er á landinu.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd