Skipalyftan ehf. Vestmannaeyjum var stofnuð 14. nóvember 1981 af vélsmiðjunum Magna og Völundi ásamt raftækjaverkstæðinu Geisla. Vélsmiðjurnar Magni og Völundur hættu rekstri og sameinuðust í hinu nýja félagi. Stofnendur Skipalyftunnar voru þeir Gunnlaugur Axelsson, Tryggvi Jónsson, Pétur Andersen, Kristján Ólafsson, Þórarinn Sigurðsson, Tryggvi Jónasson, Jón Yngvi Þorgilsson, Njáll Andersen, Erlendur Eyjólfsson og Friðþór Guðlaugsson. Árið 1982 flutti félagið alla sína starfsemi í nýtt húsnæði við hlið skipalyftu sem Vestmannaeyjabær var að ljúka við að byggja. Þann fyrsta júní 1982 tók hið nýja félag formlega við lyftunni og þeim mannvirkjum sem henni fylgja á leigu til 25 ára. Það hafði verið í undirbúningi lengi að byggja nýjan slipp í Vestmannaeyjum sem hefði það að markmiði að leysa gömlu dráttarbrautirnar á Skipasandi af hólmi enda var það rætt í hafnarstjórn Vestmannaeyja árið 1954 um möguleg kaup á nýrri skipalyftu. Það var svo árið 1968 sem ákveðið var að ganga inn í samning sem Hafnarðarbær hafði gert um kaup á skipalyftu frá Bandaríkjunum. Lyftubúnaðurinn var fluttur til Vestmannaeyja árið 1972. Þegar eldgosið á Heimaey hófst síðan þann 23. janúar 1973 tóku önnur og mikilvægari verkefni við enda óljóst á tímabili hvort fólk mynd hreinlega snúa aftur til Vestmannaeyja. Ákveðið var að flytja lyftubúnaðinn aftur upp á land til að forðast skemmdir. Framkvæmdir lágu niðri í nokkur ár en það var svo árið 1979 að hafist var handa af fullum krafti og lauk framkvæmdum við nýja skipalyftu í Vestmannaeyjum árið 1981.
Sagan
Það var í mörg horn að líta hjá eigendum Skipalyftunnar og þeim 80 starfsmönnum sem störfuðu hjá Skipalyftunni þegar starfsemin hófst. Þegar mest var voru starfsmenn Skipalyftunnar 104.
Flotinn í Vestmannaeyjum var stór og mikil búbót fyrir útgerðamenn að þurfa ekki að framkvæma nauðsynlegar breytingar, auk almenns viðhalds, á skipum sínum á fastalandinu, svo ekki sé talað um erlendis. Má þar m.a. nefna lengingar á skipum, yfirbyggingar og nýjar skipsbrýr en þessi verkefni höfðu áður verið öll unnin annarsstaðar en í Vestmannaeyjum.
Fyrirtækið óx og dafnaði vel fyrstu árin, enda líflegur sjávarútvegur í Vestmannaeyjum og skipafloti stór eins og áður segir. Árið 1998 markaði ákveðin tímamót í sögu Skipalyftunnar en þá kláraði Skipalyftan sína fyrstu, nýsmíði þegar dráttarbáturinn Lóðsinn var afhentur eigendum sínum, Vestmannaeyjabæ. Lóðsinn er 22,5 metrar á lengd og 7,33 metrar að breidd. Allt frá fyrsta degi hefur þessi frábæri Lóðsbátur þjónað hlutverki sínu vel og margsannað að um vandað skip er að ræða.
Starfsemin
Í dag starfar Skipalyftan fyrst og fremst sem plötusmiðja, véla- og renniverkstæði auk þess að þjónusta skip í upptökumannvirki Vestmannaeyjahafnar. Skipalyftan heldur einnig úti lager og verslun með mikið úrval af vörum tengdum málmiðnaði, sjósókn og veiðum. Rekstur Skipalyftunnar er nátengdur sjávarútvegi. Til að mynda hefur aflabrestur bein og hörð áhrif á þjónustufyrirtæki eins og Skipalyftuna. Nýlegt dæmi er loðnubrestur undanfarin 2 ár sem við, og önnur þjónustufyrirtæki í Vestmannaeyjum, finnum strax fyrir enda halda útgerðir í Vestmannaeyjum á um 32% af aflaheimildum í loðnu. Breytingar á flotanum hefur einnig breytt rekstri okkar en sú breyting hefur þó skapað okkur mikil tækifæri. Skipum fækkar, en þau stækka. Rekstur Skipalyftunnar hefur gengið í gegnum miklar sveiflur en alltaf hefur reksturinn staðið af sér ýmiskonar áföll. Undanfarin 10 ár hefur reksturinn þó haldist stöðugur og í dag er hann í góðu jafnvægi.
Verslun
Við rekum verzlun í Skipalyftunni sem er ætlað að þjóna iðnaðarmönnum í Vestmannaeyjum, sjávarútveginum og fólki í framkvæmdum. Við bjóðum upp á breitt vöruval og þekkt vörumerki.
Aðsetur
Í dag er rekstur Skipalyftunnar í u.þ.b. 1.600 fm húsi á hafnarsvæði Vestmannaeyjarbæjar. Við höfum fulla trú á þessum rekstri í framtíðinni og höfum því ráðist í miklar fjárfestingar í auknum húsakosti. Nýlega byggðum við 2 hús við hlið Skipalyftunnar, sem hvort um sig eru 700 fm að stærð. Annað þeirra er að mestu leyti í útlegu en í hitt húsið höfum við nú fært vélaverkstæðið okkar sem er komið með glæsilega aðstöðu fyrir okkar frábæru starfsmenn.
Mannauður
Í dag starfa um 40 manns hjá Skipalyftunni. Þar af eru 3 starfsmenn sem hafa starfað allt frá stofnun félagsins eða síðan 1981, þau Anna Sigrid Karlsdóttir, Hlynur Richardsson og Stefán Örn Jónsson sem er framkvæmdastjóri Skipalyftunnar. Í stjórn sitja þeir Þórarinn Sigurðsson, stjórnarformaður, Stefán Örn Jónsson, Ólafur Friðriksson og Jón Viðar Stefánsson.
Reksturinn
Nýlega lauk Skipalyftan við smíði, í samstarfi við Eyjablikk í Vestmannaeyjum og erlendan aðila, á 4 hráefnistönkum fyrir Ísfélagið en þeir eru staðsettir við Nausthamarsbryggju í Vestmannaeyjum. Hver og einn tankur ber 500 rúmmetra af loðnu og mun löndum í framhaldi ganga mun hraðar fyrir sig fyrir skip Ísfélagsins sem verður að teljast afar mikilvægt þar sem á hrognavertíðum þá skiptir tíminn öllu máli. Við hönnun og smíði á þessum tönkum var lögð mikil áhersla á að meðhöndlun hráefnisins sé fyrsta flokks þannig að ferskleikinn haldi sér í öllu vinnsluferlinu. Rekstur Skipalyftunnar hefur gengið vel og til marks um það hefur fyrirtækið hlotið viðurkenningu Credit Info, sem eitt af fyrirmyndafyrirtækjum Íslands árlega síðan 2014. Það er ekki sjálfgefið enda komast aðeins 2% allra íslenskra fyrirtækja inn á þann lista. Gerðar eru strangar kröfur til að komast í þennan úrvalsflokk íslenskra fyrirtækja.
Það sem skilað hefur góðum rekstri Skipalyftunnar er fyrst og síðast frábært starfsfólk sem hefur unnið hjá fyrirtækinu allt frá stofnun.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd