Skógræktin er þekkingar-, þróunar- og þjónustustofnun sem vinnur með og fyrir stjórnvöld, almenning og aðra að rannsóknum, ráðgjöf og þekkingarmiðlun á sviði skógræktar. Stofnunin er í forsvari fyrir Íslands hönd í erlendu samstarfi á sviði skógræktar. Skógræktin nýtur mikils velvilja og stuðnings meðal þjóðarinnar samkvæmt könnunum og stuðningur við aukna skógrækt í landinu hefur mælst yfir 90%.
Sagan
Sögu Skógræktarinnar má rekja til ársins 1907 þegar fyrstu lög um skógrækt og varnir gegn uppblæstri voru samþykkt á Alþingi. Lögin kváðu á um að stofnað skyldi til embættis skógræktarstjóra og hófst starfsemin í ársbyrjun 1908. Meginmarkmiðin voru tvö, verndun birkiskóga og kjarrs sem enn tórði á innan við hálfu prósenti landsins og ræktun nýrra skóga. Frá upphafi var talað um „Skógræktina” manna á meðal en nokkru fyrir miðja 20. öld fékk stofnunin hið formlega heiti Skógrækt ríkisins. Árið 2016 sameinuðust Skógrækt ríkisins og fimm stofnanir sem þjónuðu skógarbændum, hver í sínum landshluta. Þá var tekið upp hið fyrra heiti, Skógræktin.
Skipurit
Á vorjafndægri 2020 tók gildi nýtt og endurskoðað skipurit Skógræktarinnar. Þar var m.a. tekið mið af nýjum lögum um skóga og skógrækt og auknum hlut loftslagsverkefna í starfseminni. Skógræktin skiptist í fjögur svið. Annars vegar eru þrjú fagsvið sem nefnast þjóðskógar, skógarþjónusta og rannsóknir. Hins vegar er miðlægt rekstrarsvið.
Skógar í opinberri eigu kallast nú þjóðskógar samkvæmt skógræktarlögum og hefur Skógræktin umsjón með þeim á samnefndu sviði. Því tilheyra fjögur skógarvarðarumdæmi sem rækja bæði verndar- og ræktunarhlutverkið, sinna nýskógrækt, umhirðu, afurðamálum, útivistarmálum o.fl. Sviðstjóri þjóðskóga er Hreinn Óskarsson skógfræðingur. Skógarþjónusta hefur með höndum þjónustu við bændur og veitir styrki og ráðgjöf vegna skógræktar á lögbýlum. Fræðsla til skógarbænda og samskipti við samtök þeirra eru mikilvægur þáttur í starfi sviðsins. Skógræktarráðgjafar starfa á starfstöðvum Skógræktarinnar í öllum landshlutum. Sviðstjóri skógarþjónustu er Sigríður Júlía Brynleifsdóttir skógfræðingur. Á rannsóknasviði eru stundaðar rannsóknir á sviði skógvísinda og kynbætur á helstu trjátegundum sem notaðar eru í skógrækt hérlendis. Rannsóknasvið aflar gagna um kolefnisbindingu í skógum landsins og hefur viðamikið samstarf innan lands og utan. Sviðstjóri rannsóknasviðs er Edda Sigurdís Oddsdóttir vistfræðingur. Þvert á þessi þrjú meginsvið Skógræktarinnar starfar rekstrarsvið. Það sér um öll þau verkefni sem snerta fjármál og uppgjör, reikningshald, gerð rekstraráætlana og samskipti við fjárveitingarvaldið. Þar er unnið að lands- og landshlutaáætlunum í skógrækt, umsögnum um framkvæmdir í skóglendi, lagafrumvörpum og fleiru en einnig sér sviðið um fræðslu- og kynningarmál, útgáfu og ýmis verkefni sem þjóna skógrækt almennt, þróun afurðamála og fleira. Sviðstjóri rekstrarsviðs er Gunnlaugur Guðjónsson alþjóðaskógfræðingur. Skógræktarstjóri er Þröstur Eysteinsson skógerfðafræðingur en fagmálastjóri Aðalsteinn Sigurgeirsson skógerfðafræðingur. Fagmálastjóri er staðgengill skógræktarstjóra og fer með ýmis fagleg verkefni, meðal annars alþjóðleg samskipti.
Þjónusta við skógrækt á lögbýlum hefur verið langstærsti þátturinn í starfsemi Skógræktarinnar undanfarin ár og mun vaxa og dafna áfram. Í aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum frá 2018 felst mikil aukning á framlögum til skógræktar, svo mikil að innan nokkurra ára verður skógrækt til kolefnisbindingar aðalverkefni Skógræktarinnar. Unnið hefur verið að því að laga stofnunina að þessum nýju áherslum svo binda megi sem mestan koltvísýring úr andrúmsloftinu með nýskógrækt. Þessi þróun breytir ekki eðli skógarins en til að sem mestur loftslagsárangur náist er ástæða til að endurskoða aðferðir og viðmiðanir, tegundaval miðað við landgerðir, notkun á kynbættum efnivið og fleira. Vel getur farið saman að rækta skóg sem bindur mikið kolefni og gefur á endanum verðmætt timbur en aðstæður geta verið ólíkar og markmiðin sömuleiðis eftir því hvar borið er niður á landinu.
Skógræktin er forystustofnun sem ryður brautina í skógrækt á Íslandi, kemur skógrækt af stað, þróar aðferðir og efnivið og hefur frumkvæði að nýtingu skóga og skógarafurða. En hún þarf líka að vera tilbúin til að víkja með tímanum fyrir einstaklingum og fyrirtækjum sem vilja hefja starfsemi á þeim sviðum sem stofnunin starfar á og geta talist samkeppnisrekstur. Gott dæmi um þetta eru gróðrarstöðvar sem Skógræktin rak í áratugi og framleiddu skógarplöntur. Nú fer sú starfsemi fram hjá einkafyrirtækjum. Í fyllingu tímans er líklegt að einkafyrirtæki taki líka að mestu við viðarvinnslu og sölu á timbri. Þangað til heldur Skógræktin áfram að afla reynslu og þekkingar á því sviði og búa til markað fyrir íslenskt timbur. Liður í því er að ýta undir menntun í viðarfræðum og nytjum og koma upp þeim starfstéttum sem vinna verkin, allt frá því að planta er ræktuð, sett í jörð, skógur hirtur, viður uppskorinn og afurðir gerðar að verðmætri söluvöru. Með nýjum áherslum í kolefnisskógrækt bætist enn við forystuhlutverk Skógræktarinnar en kolefnisskógrækt kann einnig að verða með tímanum sjálfbær atvinnugrein á frjálsum markaði.
Aðsetur og mannauður
Höfuðstöðvar Skógræktarinnar eru á Egilsstöðum. Í eðli stofnunarinnar felst að starfsemin fari fram um allt land og því eru starfstöðvar Skógræktarinnar í öllum landshlutum. Rannsóknasvið er á Mógilsá við Kollafjörð, skógaverðir hafa bækistöðvar í Hvammi Skorradal, að Vöglum Fnjóskadal, Hallormsstað og á Selfossi en að auki eru skrifstofur á Hvanneyri, Ísafirði og Akureyri og starfstöðvar í Haukadal, á Tumastöðum í Fljótshlíð og að Skriðufelli í Þjórsárdal. Nokkrir starfsmenn búa jafnframt og starfa utan þessara starfstöðva.
Starfsfólk Skógræktarinnar er um 70 talsins. Rúmur helmingur hefur lokið háskólanámi í skógfræði og þar af nokkrir doktorsprófi. Skógræktin hvetur starfsfólk sitt til að afla sér aukinnar menntunar og reynslu, sækja námskeið og ráðstefnur. Haldnir eru fræðslufundir reglulega í fjarfundakerfi stofnunarinnar. Skógfræðinám er í boði við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) en einnig er algengt að fólk fari utan til náms í skógfræði, einkum til framhaldsnáms, gjarnan til Noregs og Svíþjóðar en einnig til Danmerkur, Þýskalands, Kanada og víðar. Á framhaldsskólastigi er líka kennd skógtækni við LbhÍ, hagnýtt nám sem vaxandi þörf verður fyrir eftir því sem skógarnir vaxa.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd