Skrifstofuvörur ehf

2022

Skrifstofuvörur ehf. var stofnað undir nafninu Gallerí.is ehf. þann 3. ágúst 2005 af hjónunum Jóni Sigurðssyni og Sigríði Jónsdóttur. Félagið hóf starfsemi sína með rekstri listmunaverslunar undir nafninu Gallerí Lind og var verslunin til húsa í Bæjarlind í Kópavogi en henni var lokað á haustdögum 2008. Þann 9. ágúst 2009 kl. 23:20 var vefverslunin www.prentvorur.is opnuð. Félagið starfaði þá frá heimili eigenda og engar vörur voru til á lager. Viðskiptavinum var lofuð afhending á prenthylkjum á innan við viku frá pöntun. Fyrsta pöntunin barst kl. 00:34 þann 10. ágúst 2009, eigendum til mikillar ánægju.
Vefverslunin gekk mjög vel og í mars 2010 voru eigendur farnir að skoða möguleika á að opna hefðbundna verslun. Í byrjun apríl 2010 var verslun opnuð að Skútuvogi 1 í Reykjavík. Verslunin starfaði að Skútuvogi 1 þar til í maí 2015 en þá flutti verslunin í núverandi húsnæði að Skútuvogi 11.
Vöruúrval félagsins breikkaði með árunum. Ritföng, pappírstætarar, innbindivélar o.fl. bættust í vöruframboðið. Prentvörur voru því ekki mjög lýsandi nafn á vöruframboði félagins. Um áramótin 2017 og 2018 var nafni félagsins breytt í Skrifstofuvörur ehf. og þar með tekin stefna til framtíðar.

Skipulag og sérstaða
Árið 2018 fór í að þróa ýmsa rafræna viðskiptaferla til að lágmarka fjárfestingu í lager um leið og vöruframboð er hámarkað. Aðaláhersla er lögð á vöruúrval í vefverslun félagsins
www.skrifstofuvorur.is. Vefverslunin er beintengd birgjum bæði hérlendis og erlendis.
Viðskiptavinir geta séð áætlaða vöruafhendingu við pöntun miðað við stöðu lagers í verslun félagsins, hjá innlendum birgja eða erlendum. Með tilkomu vefverslanna þá hafa söluaðilar rýmri tíma til að afhenda vörur, Skrifstofuvörur ehf. nýta sér þetta og bjóða viðskiptavinum sínum betra vöruverð þar sem lítil fjárfesting er í lager og einnig er rýrnun í lágmarki.

Mannauður og starfsmannafjöldi
Skrifstofuvörur ehf. er fjölskyldufyrirtæki og starfa að jafnaði 3-5 starfsmenn hjá félaginu.

Framtíðarsýn
Framtíðarsýn eigenda Skrifstofuvara ehf. er áframhaldandi nýting á rafrænum ferlum og að félagið verði leiðandi hér á landi í sölu á búnaði til reksturs fyrirtækja, allt frá blýanti til flókinna hug- og vélbúnaðarlausna.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd