Skútaberg ehf. er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað í janúar árið 2008 utan um jörðina Skúta í Hörgársveit, þar sem skipulögð var efnistaka og efnisvinnsla úr grjótnámu allt að 10 milljónir rúmmetra. Eigendur eru systkinin Björn, Margrét, Þór, Sigurbergur og Þorvaldur Konráðsbörn. Foreldrar þeirra eru Konráð Vilhjálmsson frá Ytri-Brekkum II Skagafirði og Valgerður Sigurbergsdóttir frá Svínafelli Nesjum Hornafirði. Ólust þau upp á Ytri-Brekkum II í Skagafirði og byrjuðu systkinin snemma í verktakabransanum með föður sínum sem átti jarðýtu og vann við ýmis verkefni fyrir bændur í vegagerð og brúarsmíði um land allt.
Eigendur eru allir búsettir á Eyjafjarðarsvæðinu fyrir utan Þorvald sem býr í Seattle í Bandaríkjunum og vinnur þar hjá Skanska USA Civil sem er stórt verktakafyrirtæki eftir að hann lauk námi í byggingaverkfræði frá háskólanum í Seattle. Bræðurnir eru með yfir 35 ára reynslu á vinnuvélum, vörubílum, borvinnu og sprengingum. Margrét hefur unnið í bókhaldi í yfir 20 ár. Valgerður móðir þeirra hefur staðið vaktina í eldhúsinu og eldað ofan í mannskapinn frá upphafi. Konráð faðir þeirra vann fram til síðasta dags en hann lést árið 2011.
Vinnulag og framleiðsluferli
Verkefni Skútabergs eru mjög fjölbreytt en helstu verkefni fyrirtækisins eru efnisvinnsla og margskonar verkefni í jarðvinnu og borunum. Eitt af fyrstu verkefnum fyrirtækisins var að gera sjósíu, grjótgarð og frárennsli frá aflþynnuverksmiðjunni Becromal/TDK ehf. á Krossanesi á Akureyri. Ótal önnur verkefni hafa verið unnin í gegnum árin og ber þar helst að nefna eftirfarandi: Djúpadalsvirkjun jarðvinna, efnisvinnsla Héðinsfjarðargöng, Hraunaveita frágangur, Hofsbót á Akureyri dýpkun og breyting á varnargarði og landfylling, Glerárvirkjun II jarðvinna, Vaðlaheiðargöng efnisvinnsla, jarðvinna, leiga tækja og frágangur, Hlíðarfjall jarðvinna vegna nýju stólalyftunnar, Kröflulína borun og grautun við undirstöður staura. Eitt af aðal verkefnum fyrirtækisins er líkt og áður segir efnisvinnsla. Unnið hefur verið við efnisvinnslu fyrir mörg verkefni, þ.á.m. Héðinsfjarðargöng, Dettifossveg, Þeistareykjaveg, Vaðlaheiðargöng sem og ýmis efnisvinnsla fyrir Vegagerðina á Norðurlandi-eystra.
Skipulag og sérstaða
Skútaberg starfrækir efnisnámu að Skútum í Hörgársveit. Í efnisnámunni á Skútum er steinefni unnið úr klöpp í margskonar verkefni eins og steinefni í malbik og klæðningar og svo fyllingar- og burðarlags efni í ýmiskonar verkefni. Sprengt grjót er einnig notað mikið t.d. í varnargarða og hafnarverkefni. Skútaberg er steinefnaframleiðandi á Norðurlandi og leggur mikinn metnað í steinefnaframleiðslu sína. Unnið hefur verið að CE vottun steinefna vegna framleiðslu á steinefni í steypu og klæðingar og tók sú vottun gildi árið 2018. CE-vottunin fer fram með þeim hætti að BSI á Íslandi sendir sérfræðing frá Bretlandi til að taka út steinefnaframleiðsluna og gæðavottunina á hverju ári eftir þar til gerðum stöðlum.
Öflug rannsóknarstofa er til húsa í Sjafnarnesi 2, þar sem framkvæmdar eru flestar nauðsynlegar rannsóknir á steinefni og steypu. Árið 2019 voru fest kaup á Combo X400 þvottastöð fyrir steinefni, sem afkastar 250 tonn pr.klst. og flokkar efni í 5 flokka. Er þetta mikil framför í að þvo steinefni fyrir klæðingar og fleiri verkefni þar sem að þvottastöðin endurnýtir vatnið 90% og sparast þar með mikið vatn og er vistvænna að endurnýta vatnið og auk þess minnkar mengun. Mun þvottastöðin því auka enn frekar gæði þess efnis sem fyrirtækið framleiðir og selur. Skútaberg er með 4600 tonna birgðastöð fyrir sement á Akureyri og 2800 tonna birgðastöð á Reyðarfirði og hefur verið í samstarfi við Aalborg Portland Íslandi með dreifingu á sementi.
Framtíðarsýn
Fyrirtækið leggur líkt og áður segir mikinn metnað í steinefnaframleiðslu sína og stefnir því á að vera áfram leiðandi á því sviði. Eigendur horfa til þess að selja efni bæði til malbiks- og steypuframleiðslu til Reykjavíkur og út fyrir landsteinana sem er þá mokað um borð í skip og siglt með það á áfangastað.
Aðsetur
Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru að Sjafnarnesi 2, 603 Akureyri. Þar er skrifstofu-, starfsmanna- og verkstæðisaðstaða. Efnisvinnsla og efnisnáma fyrirtækisins er líkt og áður segir á Skútum í Hörgársveit.
Mannauður og starfsmannafjöldi
Starfsmenn fyrirtækisins eru um 20 talsins. Vinnuvéla- og meiraprófs starfsmenn eru um 16, skrifstofustarfsmenn eru þrír, á rannsóknarstofu eru tveir og í mötuneyti er einn. Fyrirtækið hefur verið lánsamt með starfsmenn sína en margir þeirra hafa fylgt fyrirtækinu frá upphafi.
Velta og hagnaður
Skútabergi hefur gengið vel síðan það var stofnað og fyrirtækið stækkað jafnt og þétt í gegnum árin.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd