Skútustaðahreppur

2022

Í Skútustaðahreppi voru skráðir íbúar 476 þann 1. desember 2020. Þar af búa um 200 í þéttbýlinu í Reykjahlíð. Landslagið er hálent og víðlent og nær upp á miðjan Vatnajökul, en byggð er nánast öll við Mývatn. Sveitarfélagið leggur áherslu á að vera í fararbroddi í nýsköpun og umhverfisvernd.

Einstakt umhverfi
Mývatn er fjórða stærsta vatn landsins, 36,5 km2. Það er í 277 m.y.s., vogskorið, með mörgum hólmum og eyjum, yfir 40 talsins. Náttúrufegurð og fuglalíf er einstakt og dregur að fjölda ferðamanna í hefðbundnu árferði. Mývatn og Laxá voru friðlýst með lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu árið 1974, í kjölfar deilna um Gljúfurversáætlun. Mývatn og Laxá eru nú vernduð samkvæmt sérstökum lögum nr. 97 frá 09.06.2004.

Atvinnumál
Áður fyrr var meginatvinna Mývetninga bundin landbúnaði og silungsveiði úr Mývatni.
Á síðari árum hafa orðið verulegar breytingar þar á. Kísiliðjan tók til starfa 1966 og var stærsti vinnuveitandinn í Mývatnssveit, en henni var lokað 2004. Mörg störf eru við raforkuframleiðslu en í Bjarnarflagi og við Kröflu eru orkumannvirki. Ferðaþjónusta hefur lengi verið stunduð í  Mývatnssveit og hefur síðustu ár verið stærsta atvinnugreinin á svæðinu.

Skólastarf í heilsueflandi samfélagi
Í Skútustaðahreppi eru starfandi leikskólinn Ylur og grunnskólinn Reykjahlíðarskóli auk tónlistarskóla. Skólastarf byggir á gömlum og traustum grunni og er lögð áhersla á lýðheilsu, jafnrétti, fjölmenningu, lýðræði, sjálfbærni og öflug tengsl við umhverfi og samfélag þar sem sérstaða nánasta umhverfis er nýtt til kennslu.

Vetrartöfrar
Vetrarhátíð í Mývatnssveit er einstakur viðburður á landsvísu þar sem fjölbreyttar og óhefðbundnar vetraríþróttir eru stundaðar á ísilögðu Mývatni. Þ.á.m. eru hestamótið Mývatn Open, Íslandsmeistaramót sleðahundaklúbbs Íslands, Mývatnssleðinn og Íslandsmeistaramót í Snocrossi. Einnig hefur Veiðifélag Mývatns boðið upp á dorgveiði og ungmennafélagið Mývetningur haldið opnu gönguskíðaspori.

Sveitarfélag á krossgötum
Á síðustu árum hefur orðið talsverður viðsnúningur í rekstri sveitarfélagsins til hins betra, sem hefur verið grunnur að uppbyggingu, viðhaldi eigna sveitarfélagsins og bættri þjónustu við íbúa. Þessi þróun hefur að miklu leyti tengst vexti sterkrar ferðaþjónustu.
Heimsfaraldur COVID-19 hefur þó tímabundið kippt fótunum undan ferðaþjónustu, með tilheyrandi áhrifum á rekstur sveitafélagsins og samfélagið allt. Sterkur fjárhagur sveitarfélagsins hefur verið nýttur til viðspyrnu, m.a. með fjárfestingu í göngu- og hjólreiðastíg kringum Mývatn og uppbyggingu þekkingarseturs. Sveitarstjórn er skipuð oddvitanum Helga Héðinssyni, Sigurði Böðvarssyni, Elísabetu Sigurðardóttur, Dagbjörtu Bjarnadóttur og Halldóri Sigurðssyni. Sveitarstjóri er Sveinn Margeirsson.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd