Slippfélagið ehf. var stofnað í marsmánuði 1902 og er næst elsta starfandi hlutafélag landsins. Í upphafi einskorðaðist starfsemin við skipaviðgerðir og tengd verkefni en árið 1951 hóf félagið framleiðslu á málningu. Félagið selur flestar gerðir málningar, s.s. húsamálningu og viðarvörn. Í umhverfismálum er stefna félagsins að sem flestar vörur þess séu umhverfisvænar og því eykst sífellt framboð þess á slíkum vörum Fyrirtækið var eitt fyrst íslenskra fyrirtækja til að setja sér sérstaka stefnu í umhverfismálum. Dæmi um það sem hefur áunnist á undanförnum árum er stóraukin notkun umhverfisvænna vatnsþynnanlegra málningarefna. Saga Slippfélagsins spannar hartnær 120 ár og er um margt merkileg í atvinnusögu Reykjavíkurborgar. Einsog nafnið ber með sér tengist upphaf fyrirtækisins sjávarútvegi. Aðstaða til viðgerðar og viðhalds á skipaflotanum var bágborin. Með uppsetningu fyrstu dráttrbrautar á landinu var brotið blað hvað þjónustu við útgerðina varðar. Fyrirtækið óx og dafnaði, lenti í öldudal og kreppum, samkeppni og áföllum. Það hafði fljótlega orðið ljóst að framtíð málningarverksmiðjunnar gæti aldrei verið við Mýrargötuna í miðbæ Reykjavíkur. Hugað var að nýju svæði og lóð við Dugguvog varð fyrir valinu. Bygging málningarverksmiðjunnar hófst 1968. Framleiðsla hófst í Dugguvoginum 1970 og jókst hröðum skrefum. Á síðasta áratug tuttugustu og fyrstu aldarinnar komst framleiðslan í eina milljón lítra. Með auknum innflutningi, til viðbótar við þá framleiðslu sem er í landinu, hefur samkeppnin harðnað og krafan um hagkvæmni aukist. Upphaflega var eingöngu framleidd botnmálning, en fljótlega bættist skipalakk og þakmálning við. Með tímanum þróaðist þessi þáttur í alhliða málningarframleiðslu. Árið 1986 var tekin upp samvinna við málningarframleiðandann Alcro (síðar Alcro-Beckers) í Svíþjóð til þróunar á vatnsþynnanlegri akrýlmálningu. Slippfélagið í Reykjavík varð fyrst á Íslandi til að framleiða t.d. tinlausa botnmálningu fyrir skip og vatnsþynnanlega þakmálningu og mætti nefna margt fleira á þessu sviði. Slippfélagið hefur ætíð gætt þess að bjóða góða vöru, auk þess sem fagþekking í notkun efnanna hefur verið lykilinn að velgengni málningarvara Slippfélagsins í Reykjavík.
Reksturinn
Þann 1. janúar 1989 urðu grundvallarbreytingar á rekstri félagsins, þegar það seldi Stáls-miðjunni hf. í Reykjavík eignir sínar við vesturhöfnina. Þar á meðal allt sem til varð í upphafi, brautir og byggingar. Eftir þessar breytingar snerist starfsemi Slippfélagsins í Reykjavík nær eingöngu um verslunarrekstur, innflutning og framleiðslu á málningu og ýmsu því tengdu. Frá upphafi tengdist málningarframleiðslan fyrst og fremst útgerðarfyrirtækjum en með breyttum tímum voru tengslin ekki síður við málara og almenna neytendur, þótt útgerðin hafi ennþá skipað stóran sess meðal viðskiptavina. Í árslok 2009 lauk svo nær sextíu ára samstarfi Slippfélagsins og Hempels í Danmörku. Í framhaldinu, þ.e. í janúar 2010 varð svo önnur breyting á eignarhaldinu, þegar Málning hf. keypti reksturinn. Í dag fer öll framleiðsla fyrirtækisins fram í málningarverksmiðju Málningar í Kópavogi. Slippfélagið rekur í dag fimm verslanir, auk þess að vera með með endursöluaðila um allt land. Það má því með sanni segja að Slippfélagið sé nýtt fyrirtæki á gömlum merg. Það sem gerir sögu þessa 120 ára fyritækis svo merkilega, er hlutur þess í atvinnusögu borgarinnar. Það varð til úr blöndu af brýnni þörf, bjartsýni og stórhug, rúmum tíu árum áður en Reykvíkingar hófu hafnargerð, eftir áratuga vangaveltur.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd