Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) er öflugt björgunarlið sem gegnir margþættu hlutverki gagnvart almenningi, fyrirtækjum og stofnunum á starfssvæðinu. Tilgangur liðsins er að vinna að forvörnum og veita fyrstu viðbrögð til að vernda líf, heilsu, umhverfi og eignir þeirra sem búa, starfa og dvelja á höfuðborgarsvæðinu.
Byggðasamlag
SHS var stofnað 1. júní árið 2000 með sameiningu slökkviliða Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Þannig varð til nýtt byggðasamlag sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Hið nýja slökkvilið gerði jafnframt þjónustusamning um rekstur slökkviliðs á Reykjavíkurflugvelli og sinnti þeirri þjónustu fyrsta áratuginn. Tilgangurinn með stofnun byggðasamlagsins var að ná fram jákvæðum samlegðaráhrifum í krafti stærðarinnar og efla með því þjónustustigið á öllu svæðinu. Menntun og þjálfun mannaflans yrði skilvirkari, auk þess sem fjármunir til rekstrarins nýttust betur. Aukinn slagkraftur næðist með stærri einingu og því meiri möguleikar á að kalla inn aukinn fjölda starfsmanna í neyðartilfellum. Jafnframt var mörkuð sú stefna að nýta liðsstyrkinn enn frekar til almennra björgunarstarfa, til hagsbóta fyrir íbúa svæðisins.
Hlutverk og skyldur stjórnar
Stofnendur og eigendur SHS eru sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu: Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnes. Stjórnin er skipuð framkvæmdastjórum aðildarsveitarfélaganna og situr slökkviliðsstjóri fundi hennar. Fulltrúi fjölmennasta sveitarfélagsins er formaður stjórnar. Helstu verkefni stjórnarinnar eru að móta stefnu liðsins, hafa eftirlit með rekstrinum og sjá um að lögum, reglugerðum, brunavarnaáætlun, samþykktum og markaðri stefnu sé fylgt.
Starfssvæði og starfsstöðvar
Á starfssvæði SHS búa 64% landsmanna. Það nær til sveitarfélaganna sex sem standa sameiginlega að rekstri liðsins, sem og Kjósarhrepps, en liðið veitir hreppnum þjónustu samkvæmt samningi. Starfssvæðið nær því frá Hvalfjarðarbotni í norðri, til Straumsvíkur í suðri og Bláfjallasvæðisins í austri. Slökkvi- og sjúkrabílar eru staðsettir á starfsstöðvum í Skógarhlíð og á Tunguhálsi í Reykjavík, á Skarhólabraut í Mosfellsbæ og í Skútahrauni í Hafnarfirði. Á hverri stöð eru fjórir til sex slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn allan sólarhringinn, auk innri stjórnanda í Skógarhlíð, sem sér um samskipti við Neyðarlínu og hefur yfirsýn með staðsetningu bifreiða og mannafla og umfangi aðgerða. Á daginn og fram á kvöld þegar mesta álagið er í sjúkraflutningum eru einn til fjórir sjúkrabílar mannaðir til viðbótar við sólarhringsvaktina. Í náinni framtíð verður stöðin á Tunguhálsi lögð niður og ný, betur staðsett stöð byggð í hennar stað. Á Kjalarnesi er útkallseining mönnuð hlutastarfandi fólki.
Mannaflinn
Hjá SHS starfa um 190 manns, þar af um 160 í varðliði og er hlutfall kvenna sífellt að aukast.
Margþætt hlutverk
Slökkvistörf
Helsta kjölfesta starfsemi SHS eru slökkvistörf. Verkefnin geta verið af ýmsum stærðargráðum og spannað allt frá litlum ruslatunnuíkveikjum yfir í stórbruna. Aðstoð við önnur slökkvilið er veitt sé þess óskað.
Sjúkraflutningar
SHS sinnir sjúkraflutningum á höfuðborgarsvæðinu í verktöku fyrir ríkið og skipa þeir veigamikinn sess í starfinu. Allt starfsfólk á vöktum er sérþjálfað sjúkraflutningafólk sem hlýtur reglulega endurmenntun og fræðslu um nýjungar í bráðaþjónustu.
Viðbrögð við mengunaróhöppum
Á hverjum degi er töluvert magn hættulegra efna notað eða flutt til á höfuðborgarsvæðinu. Þegar slys ber að höndum í meðhöndlun slíkra efna, bregðast starfsmenn SHS við með sérhæfðum búnaði til að koma í veg fyrir að fólki eða umhverfi stafi hætta af.
Björgun á fastklemmdu fólki
Stundum er þörf á því að bjarga fastklemmdu fólki úr mannvirkjum eða farartækjum, t.d. við umferðarslys. Slökkviliðsmenn nota til þess sérhæfðan búnað og eru þjálfaðir til þess.
Köfun
SHS sinnir tilfallandi björgunaraðgerðum úr sjó og vatni. Kafarar SHS eru slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn og standa vaktir sem slíkir en eru ávallt viðbúnir í köfun.
Fjallabjörgun
Hluti slökkviliðs- og sjúkraflutningafólks SHS er með menntun og reynslu í fjallamennsku og björgun fólks utan alfaraleiða. Fjallamennska og útivist á þjónustusvæðinu eykst stöðugt og því mikilvægt að vera með viðbúnað við slysum utan alfaraleiða. Mikil samvinna er við björgunarsveitir á svæðinu í slíkum verkefnum..
Verðmætabjörgun
Slökkviliðið sinnir verðmætabjörgun og verndun eigna ef svo ber undir. Það felst í því að koma í veg fyrir og/eða draga úr eignatjóni með viðeigandi ráðstöfunum, s.s. hreinsunarstarfi eftir vatnsleka.
Forvarnir og eldvarnaeftirlit
Forvarnasvið SHS veitir íbúum, fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu ráðgjöf um öryggi gegn eldsvoðum ásamt því að sinna lögbundinni eftirlitsskyldu. Forvarnasviðið sinnir fjölbreyttum forvarnaverkefnum á ýmsum sviðum samfélagsins.
Almannavarnir
Slökkviliðsstjóri SHS er einnig framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins. Nefndin mótar stefnu og skipuleggur starf að almannavörnum á svæðinu. Hún vinnur að gerð og endurskoðun áhættumats fyrir höfuðborgarsvæðið, gerir viðbragðsáætlanir og framkvæmir prófanir á þeim í samvinnu við ríkislögreglustjóra.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd