Smáralind

2022

Smáralind er stærsta verslunarmiðstöð á Íslandi og þar eru starfandi um 100 rekstraraðilar sem bjóða upp á margvíslega þjónustu. Í Smáralind er að finna stórmarkað, deildaskiptar verslanir, sérverslanir, kvikmyndahús, líkamsræktarstöð, apótek, vínbúð, fjölmarga veitingastaði og margt fleira. Hátt í fimm milljónir manna leggja leið sína í Smáralind árlega og útleiguhlutfall er hátt eða um 97%. Byggingin er í eigu Eignarhaldsfélagsins Smáralindar ehf. sem er dótturfélag fasteignafélagsins Regins.
Eignarhaldsfélagið Smáralind var stofnað árið 1996 í þeim tilgangi að fjármagna, byggja upp og reka verslunarmiðstöðina Smáralind. Dótturfélagið Smáralind ehf. hefur umsjón með sameign og markaðsmálum verslunarmiðstöðvarinnar. Í upphafi stóð til að reisa 2.500 fermetra byggingu sem átti að hýsa stóra matvöruverslun ásamt nokkrum smærri verslunum. Hugmyndin þróaðist og þegar Smáralind var opnuð 10. október 2001 var hún 61.500 fermetrar að stærð, á þeim tíma stærsta hús á Íslandi sem var opið almenningi.

Helstu stjórnendur
Helstu stjórnendur Smáralindar eru Baldur Már Helgason framkvæmdastjóri Verslunar og þjónustu hjá Reginn og Tinna Jóhannsdóttir, forstöðumaður markaðsmála. Þau stýra sérhæfðu sviði innan Regins sem sér um rekstur, útleigu og markaðsmál í Smáralind sem og öðrum verslunar- og þjónustueiningum í öllum kjarnasvæðum Regins. Starfsfólk sviðsins hefur yfir að skipa sérþekkingu á smásölu á Íslandi.

Smáralind 20 ára árið 2021
Smáralind var opnuð 2001 og er árið 2021 því 20 ára afmælisár hennar og má með sanni segja að hún sé á hátindi ferils síns. Íslendingar tóku frá upphafi vel á móti Smáralind og hefur hún alla tíð verið vinsæl meðal landsmanna, sem hafa heimsótt hana í milljónatali ár hvert. Á 20 árum hefur byggingin þróast og breyst í takt við tímann. Við opnun var stór Debenhams verslun á tveimur hæðum í vesturenda og Hagkaup sömuleiðis í austurenda. Árið 2017 opnaði H&M stóra verslun á tveimur hæðum í gjörbreyttu rými á sama stað og Debenhams var áður. Í Smáralind er að finna nokkrar vinsælar verslanir sem hvergi má finna annars staðar eins og Zöru, Monki, Weekday, Líf og list, Extraloppuna, Karakter og fleiri. Á tuttugasta afmælisárinu verður ýmislegt gert til að fagna tímamótunum með viðskiptavinum og rekstraraðilum. Nokkrir leigutakar vinna að stækkun sinna verslana auk þess sem nýjar verslanir munu opna í húsinu á árinu.

Fyrsta BREEAM vottaða byggingin
Smáralind hlaut BREEAM In-Use vottun í janúar 2020, fyrst bygginga á Íslandi. Þegar byggingar eru vottaðar er farið ítarlega yfir fjölda þátta varðandi starfsemina og þeim gefin einkunn. Við vottun fékk Smáralind einkunnina „Very good“.
BREEAM vistvottunarkerfið er alþjóðlegur staðall og vottunarkerfi fyrir byggingar á rekstrartíma þeirra. Vottunin, sem gefin er út af óháðum aðila, veitir yfirgripsmikla yfirsýn yfir frammistöðu Smáralindar í umhverfismálum og sjálfbærni.
Vottun á þessu stóra og flókna mannvirki er mikilvægt skref fram á við fyrir móðurfélagið, Reginn, og gefur félaginu svigrúm til útgáfu grænna skuldabréfa. Reginn hefur sett sér metnaðarfulla sjálfbærnistefnu sem felur meðal annars í sér að félagið ætlar að vera leiðandi í umhverfisvottun fasteigna, þar sem fylgt er alþjóðlegum kröfum um umhverfisþætti, áhættustýringu og rekstur. Þessi vottun er því í fullu samræmi við þá stefnu.

Krefjandi en gjöfult ár
Þrátt fyrir fordæmalaust og krefjandi ár í verslun og þjónustu er óhætt að segja að Smáralind hafi styrkt sig verulega í sessi árið 2020. Verslun í Smáralind jókst um 8,2% á árinu miðað við fyrra ár og var útleiguhlutfallið yfir 97%. Smáralind fékk tvenn ÍMARK verðlaun fyrir markaðsefni sitt auk þess að vera tilnefnd sem markaðsfyrirtæki ársins. Í janúar 2021 fékk Smáralind viðurkenningu frá Íslensku ánægjuvoginni fyrir að mælast efst í flokki verslunarmiðstöðva.
Í rekstri Smáralindar var brugðist hratt við kórónuveirufaraldrinum með auknum þrifum, sóttvörnum, merkingum og fræðslu til rekstraraðila. Opnunartími hússins hélst óbreyttur þrátt fyrir samkomutakmarkanir þó að einstaka rekstraraðilar hafi ákveðið að aðlaga opnunartíma að tímabundnum aðstæðum. Áfram var hugað að umhverfismálum í rekstri og í desember 2020 var opnuð í húsinu glæsileg hjólageymsla fyrir viðskiptavini og starfsfólk sem tekur yfir 100 reiðhjól auk þess sem þar er aðstaða til léttra viðgerða.
Undir lok árs opnuðu Sætar syndir og Maika‘i veitingastaði við hliðina á útibúi Íslandsbanka og yfir jólin var Bláa lónið með glæsilega pop-up verslun í húsinu. Auk þess var utan-kjörfundaratkvæðagreiðsla vegna forsetakosninganna í húsinu í júní 2020.

Áhersla á að hafa jákvæð áhrif á umhverfið
Starfsfólk Smáralindar hefur metnað til þess að reka framúrskarandi miðstöð verslunar og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu og einnig að hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt. Félagið hefur sett sér skýr markmið hvað varðar umhverfismál og sjálfbærni og hefur þegar tekið mikilvæg skref í þá átt. Smáralind dregur að sér fjölda fyrirtækja, ekki aðeins inn í bygginguna sjálfa heldur einnig að nálægum svæðum og á síðustu 20 árum hefur byggst upp á svæðinu eitt öflugasta verslunar- og þjónustusvæðið á höfuðborgarsvæðinu. Framtíðarmarkmið Smáralindar og móðurfélagsins Regins, eru að stefna að aukinni sjálfbærni og halda áfram að byggja upp svæði sem dregur að sér mannlíf og menningu og er Smáralindarsvæðið eitt af kjarnasvæðum félagsins sem mikill fókus verður settur á, á komandi árum.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd