Árið 2020 voru liðin 100 ár (já, segjum og skrifum: heil öld! ) frá því að símaverkfræðingurinn Paul Smith stofnaði innflutningsfyrirtæki undir eigin nafni og hóf að flytja inn rafmagnsvörur. Þetta var brautryðjandastarf enda fyrirtækið hið fyrsta á landinu sem einbeitti sér að innflutningi og sölu rafbúnaðar. Paul Smith starfaði óslitið til ársins 1956 þegar því var breytt í hlutafélagið Smith & Norland. Þá var Sverrir Norland
rafmagnsverkfræðingur genginn til liðs við Paul Smith og starfaði hann sem forstjóri Smith & Norland frá upphafi til dánardags árið 2007 eða í 51 ár. Undir forystu hans stækkaði fyrirtækið svo að um munaði.
Paul Smith hóf starfsemi sína í Eimskipafélagshúsinu, flutti hana svo í Hafnarhúsið við Geirsgötu. Þar breyttist fyrirtækið í Smith & Norland. Starfsemin fluttist árið 1962 í
H. Ben.-húsið við Suðurlandsbraut 4 og loks þjóðhátíðarárið 1974 í eigið húsnæði að Nóatúni 4 sem stækkað hefur jafnt og þétt í áranna rás. Hagnýting raforku myndar starfsgrundvöll Smith & Norland hf. því að fyrirtækið flytur inn og selur rafbúnað af margvíslegum toga, allt frá vöfflujárni til virkjunar eins og stundum hefur verið haft á orði. Flestir þekkja Smith & Norland sem Siemens-umboðið á Íslandi en auk þess á það í viðskiptum við mörg önnur fyrirtæki í ýmsum Evrópulöndum og Bandaríkjunum.
Vöruval
Vöruval Smith & Norland er margbreytilegt. Rekin er sérhæfð söludeild með vörur fyrir rafiðnaðarmenn, s.s. rafstrengi, lagnarennur, almennt raflagnaefni, töflu-, lýsingar- og lág-spennurofabúnað. Heimilistækjaverslun fyrirtækisins er glæsileg og er þar lögð áhersla á Siemens, Bosch og Gaggenau heimilistæki. Tæknideildin starfar í náinni samvinnu við erlenda birgja og veitir viðskiptavinum fyrirtækisins ráðgjöf um þær vörur sem í boði eru. Má hér til að mynda nefna röntgen-, sneiðmynda- og segulómtæki fyrir heilbrigðisstofnanir, umferðarstjórnbúnað, vopnaleitartæki fyrir flugvelli, búnað fyrir veitu- og orkufyrirtæki, iðntölvur og lýsingarbúnað af ýmsu tagi. Smith & Norland rekur þjónustuverkstæði í
Borgartúni 22 þar sem heimilistækjaviðgerðir eru í brennidepli. Aðrar deildir eru vöruafgreiðsla og skrifstofa, en á henni er sinnt innflutningi, bókhalds- og gjaldkerastörfum, fjármálastjórn, markaðs- og upplýsingamálum, starfsmannahaldi og almennri stjórn fyrirtækisins.
Nýjungar
Hjá tæknifyrirtæki á borð við Smith & Norland verða menn óhjákvæmilega að fylgjast mjög vel með öllum breytingum og nýjungum á þeim sviðum sem starfað er á. Í því skyni er farið í heimsóknir til erlendra samstarfsfyrirtækja og vörusýningar sóttar. Sömuleiðis koma fulltrúar þessara sömu fyrirtækja reglulega til Íslands og kynna búnað sinn fyrir starfsmönnum Smith & Norland og viðskiptavinum. Meðal kunnra samstarfsfyrirtækja Smith & Norland má, auk Siemens, nefna BSH (Siemens, Bosch og Gaggenau heimilistæki), Voith Hydro, Smiths Heimann, Rittal, OBO Bettermann, Hensel og SSS Siedle í Þýskalandi, Nexans í Noregi og Fagerhult í Svíþjóð.
Frá rafljósum til fjórðu iðnbyltingar
Langt er liðið frá því að kveikt var á fyrstu rafljósunum á Íslandi í húsi Ísafoldarprentsmiðju
í Austurstræti 8 rétt fyrir aldamótin 1900. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og hluti þess snúið hverflum í sífellt öflugri vatnsaflsvirkjunum Íslendinga og stuðlað þannig að bættum lífskjörum hér á landi. Smith & Norland (áður Paul Smith) hefur verið hluti þessarar sögu í
100 ár og lætur ekki nú frekar en endranær nokkurn bilbug á sér finna á tímum gervigreindar og fjórðu iðnbyltingar.
Stjórnendur
Stjórn Smith & Norland skipa Jón Norland, Halla Norland, stjórnarformaður og Kristín Norland. Framkvæmdastjóri er Halldór Þ. Haraldsson og forstjóri fyrirtækisins er Jón Norland.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd