Snaps ehf.

2022

Snaps er bistro-veitingastaður undir dansk/frönskum áhrifum staðsettur á horni Þórsgötu og Óðinsgötu.  Þar hafa ýmsir aðrir veitingastaðir verið til húsa. Sá sem þar ræður húsum í dag heitir Þórir Bergsson matreiðslumaður af mörgum kunnugur sem hefur starfað ötullega í veitingageiranum í rúmlega tuttugu ár.

Sagan
Fyrsti veitingastaðurinn sem Þórir opnaði var Laundromat café í Kaupmannahöfn árið 2004 ásamt Friðriki Weisappel en upp úr 2006 fór hann út úr því og hóf störf sem matreiðslumaður heima á Íslandi allt þar til hann ákvað að  fara út í eigin rekstur og opnaði Bergsson Mathús í Templarasundi í Reykjavík árið 2012. Staðurinn fór af stað með hvelli og náði fljótt miklum vinsældum. Hann var með þeim fyrstu sem bauð upp á Biblíubrauð eða súrdeigsbrauð eins og við þekkjum orðið svo vel í dag. Þórir kom með ýmsar nýjungar inn í matargerðarflóruna sem féllu í kramið og ýmsir aðrir fóru að tileinka sér síðar.
Þórir tók sömuleiðis yfir rekstur Iðnós um þriggja ára skeið þar til COVID-19 skall á og þá var bara skellt í lás vegna samkomutakmarkana. Bergsson Mathús fór ekki síður illa út úr faraldrinum og á endanum lokaði sá staður 2020. Þegar hér var komið sögu opnaði Þórir Sælkerabúð Bergsson á horni Óðinsgötu og Spítalastígs. Sælkerabúð Bergsson var opin í gegnum COVID tímann en 2021 fór Þórir inn í rekstur Snaps fáeinum metrum ofar í brekkunni sem endaði með því að hann festi kaup á staðnum. Hann tók strax ákvörðun um að breyta ekki neinu í andblæ og áferð staðarins. Snaps hafði skapað sér gott nafn og ákveðna sérstöðu meðal annarra veitingastaða í Reykjavík að því leyti að þangað sóttu að mestu íbúar í nánd við  Þingholtin og miðbæ Reykjavíkur og þeim skilaboðum komið til erlendra ferðamanna að þeir hefðu ekki kynnst Reykjavík nema prófa Snaps.

Staðurinn
Snaps var upphaflega opnaður árið 2012 og eigendur þá voru Sigurgísli Bjarnason og Stefán Melsted. Þeir ráku staðinn til að byrja með en fljótlega kom Birgir Bieltvedt inn sem meðeigandi og stóð uppi árið 2019 sem eini eigandi Snaps skömmu áður áður en Þórir kom inn í reksturinn sem keypti staðinn að lokum af honum árið 2021.
Upphaflega var lagt upp með Bistro hugmyndina og að þarna væri bæði hægt að setjast inn á bar og njóta drykkja til jafns við að borða á veitingastað þar sem boðið er upp á afslappaða þjónustu og fjölbreyttan matseðil.
Þórir kom inn með sína matreiðsluþekkingu og reynslu þegar hann tók við staðnum og leggur áherslu á að taka vel á móti gestum. Hann er mikið á staðnum og kann best við sig á gólfinu á meðal gestanna og starfsfólksins og hefur afar gaman af því að vera gestgjafi. Gestirnir eru farnir að þekkja hann með nafni og hann gestina sömuleiðis svo það myndast vinalegt og afslappað andrúmsloft á Snaps, en það er jafnframt mikill metnaður í allri matargerð og þjónustu.
Sérstaða
Sérstaða Snaps er sú að það er langur opnunartími eða frá 11.30 til miðnættis á virkum dögum en til 01.00 um helgar. Eldhúsið er opið til 22.30 á virkum dögum en til 23.00 um helgar.

Starfsfólk
Snaps hefur á að skipa öndvegis starfsfólki sem jafnan finnst gaman að vinna á Snaps og þar er mikill erill eins og gengur í veitingarekstri og allir þurfa að vera á tánum, leggja sig fram og gera sitt besta. Þórir segir ekkert skorta á í þeim efnum. Hann er með góða kokka í vinnu hjá sér sem eiga það sameiginlegt að hafa verið víða að stunda sína matargerðarlist. Hann kallar þá í gamni farandkokka og er býsna ánægður með þá.
Í kringum 40 manns eru á launaskrá hjá Snaps. Það er fólk á öllum aldri þótt kjarninn sé á bilinu 25 – 30 ára. Nýverið hefur Þórir tekið inn tvo meðeigendur sem báðir eru af erlendu bergi brotnir. Það skapar annan andblæ í daglegum rekstri og samskiptum.

Framtíðarsýn
Þórir á Snaps horfir björtum augum til framtíðar og vonar af fremsta megni að staðurinn verði áfram sóttur af íbúum í grenndinni svona eins og tíðkast í stærri borgum erlendis, en að sjálfsögðu eru ávallt allir velkomnir á Snaps.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd