Safnaflóran á Akureyri er afar fjölbreytt og tæki eflaust nokkra daga að skoða vel allt sem þar er til sýnis hverju sinni. Hvort sem þig langar að sökkva þér í klassísk listaverk, pæla í hönnun gamalla vöruumbúða, dást að gljáfægðum mótorfákum eða ferðast í huganum aftur til fortíðar og upplifa bæjarbraginn eins og hann var á öldum eða árum áður, þá eru söfnin á Akureyri rétti staðurinn fyrir þig.
Amtsbókasafnið
Amtsbókasafnið, Brekkugötu 17 er eitt stærsta almenningsbókasafn landsins. Hér má finna bækur, hljóðbækur, tímarit, dagblöð, skólablöð, margmiðlunarefni, tónlist á geisladiskum, kvikmyndir og fræðslumyndir á mynddiskum og myndböndum og margt fleira. Á safninu eru reglulega haldnar ýmiss konar sýningar, viðburðir og fyrirlestrar. Notalegt kaffihús er á safninu þar sem má fá rétt dagsins í hádeginu alla virka daga. Á safninu er þráðlaust netsamband og hægt er að fá aðgang að netinu í gegnum tölvur sem eru á safninu.
Davíðshús
Í grænum hlíðum Akureyrar rétt ofan við Amtsbókasafnið á Bjarkarstíg 6 er hús sem eitt ástsælasta skáld Íslendinga, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, lét reisa árið 1944. Þar bjó hann síðan til dánardags. Davíð var sannkallaður fagurkeri og safnari af guðs náð. Húsakynnin bera smekkvísi hans glöggt merki, full af bókum, listaverkum og persónulegum munum, eins og þegar hann skildi við árið 1964, næstum eins og hans sé að vænta innan skamms. Kynnstu skáldinu í fögru umhverfi sem gerir heimsóknina að einstakri upplifun.
Flugsafn Íslands
Á Flugsafni Íslands á Akureyrarflugvelli er yfir 100 ára sögu flugs á Íslandi miðlað til gesta á lifandi hátt. Sýningar safnsins leiða gesti í gegnum þróun íslensks flugs og flugfélaga frá árinu 1919 og til dagsins í dag með flugvélum af ýmsum stærðum og gerðum, björgunarþyrlu og flugmódelum auk fjölda annarra áhugaverðra muna og ljósmynda. Sumar flugvélanna eru enn í flughæfu ástandi og er m.a. flogið á Flugdegi safnsins sem haldinn er árlega í júní. Gestum er velkomið að ganga um vél Landhelgisgæslunnar, TF-SÝN.
Hérðasskjalasafnið
Hlutverk safnsins er söfnun og varðveisla skjala og annarra skráðra heimilda héraðssögunnar, til notkunar fyrir stjórnsýslu, stofnanir og einstaklinga. Þetta er gert til þess að tryggja hagsmuni og réttindi þeirra og til notkunar við vísindalegar rannsóknir og fræðimennsku. Safnið er í sömu húsakynnum og Amtsbókasafnið á Brekkugötu 17.
Hús Hákarla-Jörundar
Í elsta húsi Hríseyjar á Norðurvegi er búið að koma upp vísi að sýningu sem tengist hákarlaveiðum við strendur Íslands fyrr á öldum. Húsið var byggt á árunum 1885-86 af Jörundi Jónssyni, eða Hákarla-Jörundi úr timbri norskra skipa er fórust við Hrísey, þann 11. september 1884. Húsið hefur verið gert upp og fært í upprunalegt útlit.
Iðnaðarsafnið
Á Iðnaðarsafninu er arfleifð iðnaðar á Akureyri á síðustu öld miðlað; sögð saga verksmiðjanna og þeirra sem byggðu þær upp og unnu í þeim. Á safninu má finna vélar, tæki og verkfæri auk sýnishorna af þeim varningi sem framleiddur var í verksmiðjunum. Hér má sjá allt frá smjörlíkisgerðarvélum, prentvélum og rennibekkjum til saumavéla og áhalda til úrsmíða. Öll fjölskyldan nýtur þess að heimsækja Iðnaðarsafnið á Krókeyri við Drottningarbraut
Leikfangasafnið
Í Leikfangasafninu í Friðbjarnarhúsi, Aðalstræti 46 gefur að líta fjölda gamalla leikfanga. Elsta leikfangið er brúða með postulínshöfuð frá því um 1880 en þarna má einnig finna gamla og snjáða bangsa, tinlest, mekkanóskip, bíla, dúkkulísur, dúkkuhús, leggi, skeljar og allskyns leikföng úr bernskunni. Uppistaðan í safninu eru að mestu leyti gjafir frá einstaklingum. Leikherbergi fyrir börnin er á staðnum.
Listasafnið á Akureyri
Listasafnið er í hjarta bæjarins í Listagilinu svokallaða við Kaupvangsstræti 8-12. Safnið leggur áherslu á að virkja sem flesta til þátttöku, að fræða almenning um sjónlistir og efla umræðu um samfélagið, menningu og listir þar sem safnkennsla og fyrirlestrahald skipar stóran sess. Þá er einnig lögð áhersla á samstarf önnur listasöfn og við erlenda aðila. Safnið setur upp um 15 nýjar sýningar árlega og eru að meðaltali 5-7 sýningar í safninu hverju sinni. Listasafnið leitast þannig við að efla menningarlíf bæjarins, auka við þekkingu, áhuga og efla skilning á myndlist og hönnun.
Minjasafnið á Akureyri
Í elsta bæjarhluta Akureyrar í Aðalstræti 58 er Minjasafnið. Sögu kaupstaðarins Akureyri og íbúa bæjarins eru gerð skil í fjölbreyttum og fjölskylduvænum sýningum. Einnig eru settar upp sýningar í samstarfi við önnur söfn. Safnið varðveitir og safnar munum og ljósmyndum sem tengjast lífi og umhverfi bæjarins og íbúa fjarðarins. Safnið stendur fyrir fjölmörgum viðburðum og sögugöngum og heldur úti öflugri miðlun á heimasíðu og samfélagsmiðlum. Í safninu eru bæði grunnsýningar sem rekja sögu Akureyrar og skammtímasýningar um ýmis efni. Safnið varðveitir og sýnir eitt merkilegasta safn erlendra Íslandskorta, Schulte safnið, þar sem þau elstu eru frá 1547.
Mótorhjólasafn Íslands
Glæsilegt safn við Krókeyri 2, sem sýnir rúmlega 100 ára sögu mótorhjóla á Íslandi. Mótorhjól víðsvegar að og hlutir tengdir mótorhjólasögu Íslands í glæsilegu 800 fermetra húsnæði sem var byggt sérstaklega undir safnið. Safnið var stofnað í minningu Heiðars Þ. Jóhannssonar, vélhjólamanns sem lést í mótorhjólaslysi árið 2006. Heiðar átti 22 hjól þegar hann lést. Safnið var byggt og er rekið alfarið með styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum.
Nonnahús
Í elsta bæjarhluta Akureyrar í Aðalstræti 54, er bernskuheimili rithöfundarins og jesúíta-prestsins Jóns Sveinssonar, Nonna (1857-1944). Húsið er eitt af kennileitum Akureyrar en þrátt fyrir að byggingin sé einföld hefur hún að geyma mikla sögu lítils drengs sem hélt í ferðalag lífsins aðeins 12 ára gamall. Ferðalagið stendur í raun enn því sögurnar sem Nonni gaf út í Þýskalandi frá 1913 eru enn að koma út um allan heim.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd