Söfnin í Fjarðabyggð eru jafn ólík og þau eru mörg. Sjóminjasafn Austurlands á Eskifirði geymir gagnmerkar heimildir um atvinnusögu landsmanna, í útgerð, verslun, smáiðnaði og lækningum. Íslenska stríðsárasafnið á Reyðarfirði er merk heimild um hernám landsins og síðari heimsstyrjöldina, með hersetu Reyðarfjarðar í forgrunni. Safnið er það eina hér á landi sem gerir atburðum stríðsáranna skil, eins og þeir komu almenningi fyrir sjónir á þessum viðsjárverðu tímum. Safnið Fransmenn á Íslandi segir sögu franskra skútusjómanna á Fáskrúðsfirði. Raunsannri mynd er brugðið upp af lífi þeirra og kjörum ásamt merku framlagi Frakka hér á landi í m.a. þróun húsagerðar og heilbrigðisþjónustu. Í Safnahúsinu í Neskaupstað, eru þrjú og ekki síður áhugaverð söfn til húsa. Náttúrugripasafnið í Neskaupstað lýsir náttúru Austurlands með aðgengilegum og lifandi hætti. Sjóminja- og smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar snýr að hand- og iðnverki fyrri tíðar. Á jarðhæð Safnahússins er svo Myndlistarsafn Norðfirðingsins Tryggva Ólafssonar. Safnið er stærsti eigandi að verkum þessa óvenjulega listamanns og er ný sýning sett upp á verkum hans á hverju ári. Frakkar á Íslandsmiðum er ein af perlunum á safnastreng Fjarðabyggðar. Safnið er til húsa í tveimur reisulegum byggingum sem Frakkar reistu upp úr aldamótunum 1900 eða Læknishúsinu og Franska spítalanum á Fáskrúðsfirði. Meginsýning safnsins er þó í hvorugu húsanna, heldur í undirgöngum sem tengja þau saman.
Söfnin
Frakkar á Íslandsmiðum er án efa eitt athyglisverðasta safn landsins. Ekki aðeins fyrir hönnun þess og nálgun við viðfangsefnið, heldur einnig vegna andrúmsloftsins sem tekist hefur að skapa. Lifandi nærmynd er brugðið upp af lífi sjómanna um borð í frönsku skútunum sem sóttu Íslandsmið og skynjar áhorfandinn glöggt aðstæður þeirra og daglegt líf. Þá veitir safnið einnig glögga innsýn í starfsemi Franska spítalans og merka starfsemi hans upp úr aldamótunum 1900. Endurgerð Minjaverndar á Frönsku húsunum á Fáskrúðsfirði lauk sumarið 2014. Húsin eru alls fimm og eru auk Læknishússins og Franska spítalans, Sjúkraskýlið, Litla kapellan og Líkhúsið. Endurreisnarsaga húsanna er með merkari framkvæmdum Minjaverndar og sú viðamesta utan höfuðborgarsvæðisins. Frönsku húsin gegna á ný mikilvægu hlutverki fyrir bæjarlíf Fáskrúðsfjarðar, en nú sem Fosshótel Austfirðir, sælkerastaðurinn l’Abri og safnahús Fransmanna á Íslandi. Litla kapellan hlaut blessun 26. júlí 2014 og er eina byggingin sem heldur upprunalegu hlutverki sínu.
Íslenska Stríðsárasafnið – Andi stríðsáranna endurvakinn. Gestir Íslenska stríðsárasafnsins hverfa rúm 70 ár aftur í tímann, allt aftur til 5. áratugarins þegar heimsstyrjöldin síðari geisaði. Sýningar safnsins gera þessu tímabili vönduð skil, bæði út frá sjónarhóli hins almenna hermanns í setuliði bandamanna og íbúa Reyðarfjarðar. Safnið er staðsett við bragga sem voru hluti af stórum spítalakampi. Sjá má líkan af kampnum ásamt aðstöðu óbreyttra hermanna og yfirmanna. Fjöldi upprunalegra muna glæða safnið lífi og veita óvenjulega innsýn í þessa löngu liðnu tíma, þá ógn sem stöðugt vofði yfir en einnig hversdagslegar aðstæður og tískustrauma. Íslenska stríðsárasafnið geymir óvenjulega tíma í lífi íslensku þjóðarinnar og skapar ógleymanlegar stundir þeim sem það heimsækja.
Sjóminjasafn Austurlands á Eskfirði – Í safninu eru munir sem tilheyra sjósókn og vinnslu sjávarafla. Einnig eru þar verslunarminjar og hlutir sem tilheyra ýmsum greinum iðnaðar og lækninga frá fyrri tíð. Sjóminjasafnið er staðsett í gömlu verslunarhúsi, Gömlu búð, sem byggt var 1816. Safnið þykir einstaklega skemmtilega framsett, fjölbreytt og fróðlegt heim að sækja. Það er á tveimur hæðum.
Safnahúsið í Neskaupstað – einstakt hús þrigga safna – Húsið, sem á sér merka sögu, hefur að geyma þrjú glæsileg og afar ólík söfn undir sama þaki; Náttúrugripasafnið, Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar og Sjóminja- og smiðjusafn Jósafats Hinrikssonar. Safnahúsið er fallega staðsett við sjávarsíðuna og þykir endurgerð hússins hafa tekist vel í hvívetna.
Málverkasafn Tryggvar Ólafssonar – „Liggur alltaf eitthvað á hjarta“ – Málverkasafn Tryggva Ólafssonar (1940 – 2019), Tryggvasafn, er eitt af þremur söfnum Safnahússins í Neskaupstað og er staðsett á jarðhæð hússins. Tryggvi Ólafsson er í hópi þekktustu núlifandi myndlistarmanna þjóðarinnar en hann skipaði sér snemma á ferlinum í framvarðarsveit íslenskra myndlistarmanna með sérstæðum og auðþekkjanlegum stíl. Tryggvi var fæddur árið 1940 í Neskaupstað. Hann hóf ungur að mála og nam myndlist bæði hér á landi og í Kaupmannahöfn, við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands 1960-61 og Konunglegu listakademíuna í Kaupmannahöfn 1961-66. Lengst af starfsævinnar var Tryggvi búsettur í Kaupmannahöfn. Málverkasafn Tryggva Ólafssonar opnaði formlega í september 2001 og færði Björn Bjarnason, þáverandi menntamálaráðherra, þá safninu að gjöf verkið Kronos fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Veg og vanda af stofnun safnsins átti Magni Kristjánsson, skipstjóri og æskuvinur Tryggva og var safnið fyrst til húsa í gamla Kaupfélagshúsi bæjarins, þar sem nú er Hótel Hildibrand, en flutti árið 2007 í núverandi húsnæði í Safnahúsinu.
Sjóminja- og smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar – er staðsett á annarri hæð Safnahússins. Safnið var stofnað af vélstjóranum og athafnamanninum Jósafat Hinrikssyni sem ættaður var frá Neskaupstað. Safnið byggir á munum sem tilheyra sjávarútvegi, járn- og eldsmíði, bátasmíði og gömlum atvinnuháttum. Einnig geymir safnið eftirlíkingu af eldsmiðju Hinriks Hjaltasonar, föður Jósafats, þar sem Jósafat lærði og hóf starfsferil sinn. Safnið er áhugaverð heimild um framkvæmdir og smíðatækni fyrri ára. Það var áður til húsa í Súðavogi 4 í Reykjavík, þar sem Vélaverkstæði J. Hinrikssonar var til húsa. Árið 2000 afhentu erfingjar Jósafats Fjarðabyggð safnið til varðveislu í Neskaupstað.
Náttúrugripasafnið í Neskaupstað – Íslensk náttúra í nærmynd í Safnahúsinu – er staðsett á þriðju hæð safnahússins. Safnið hefur að geyma flesta íslenska fugla auk fjölda flækinga og ágætt fiskasafn með ýmsum sjaldséðum fiskum. Einnig eru í safninu ýmsir gripir af sjávarbotni, þar á meðal mjög gott safn skeldýra. Villtu íslensku spendýrin eiga sína fulltrúa á safninu og þar er einnig mjög gott steinasafn. Þá varðveitir safnið austfirskt plöntuvísindasafn og skordýrasafn. Náttúrugripasafnið í Neskaupstað var stofnað 1965. Upphafsmaður að stofnun safnsins var Bjarni Þórðarson þáverandi bæjarstjóri. Hjörleifur Guttormsson líffræðingur var fyrsti forstöðumaður safnsins og vann að uppsetningu þess. Fyrsta sýningin var opnuð í Gagnfræðaskólanum í Neskaupstað sumarið 1970. Unnið hefur verið að umhverfisrannsóknum á vegum Náttúrustofu Austurlands, m.a. á hálendinu Norðaustan Vatnajökuls vegna virkjanaframkvæmda og annast stofan eftirlit og ráðgjöf vegna mannvirkjagerðar fyrir Náttúruvernd ríkisins. Á árinu 2002 tók Náttúrustofa Austurlands við rekstri safnsins af Fjarðabyggð.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd