Sólrún ehf.

2022

Útgerðarfyrirtækið Sólrún ehf. hefur verið starfrækt innan sömu fjölskyldunnar í 60 ár og hafa á þeim tíma fimm ættliðir fjölskyldunnar starfað við útgerðina. Á þessum 60 árum hefur fyrirtækið gert út fjölda skipa og báta ásamt því að reka fiskverkun í 45 ár. Útgerðarsaga fjölskyldunnar á Árskógssandi er þó enn lengri og nær a.m.k. aftur til 1900 en þá stundaði Sigurður Flóvent Sigurðsson útgerð á Árskógssandi. Sólrún ehf. er með aðsetur á Sjávargötu 2-4 á Árskógssandi og starfa hjá fyrirtækinu 6 – 10 manns ýmist á sjó eða við móttöku og sölu afla, netavinnu o.fl. í landi.

Upphafið
Sameignafélagið Sólrún hóf starfsemi á Árskógssandi árið 1961. Stofnandi þess var Konráð Sigurðsson (1902 – 1994) ásamt sonum hans Sigurði og Alfreð. Fyrstu árin snerist reksturinn í kringum útgerð 12 tonna eikarbátsins Sólrúnar, sem smíðaður var á Akureyri. Hann var lengstum gerður út á línu, neta og dragnótaveiðar á þorski og ýsu, auk hrefnu á tímabili. Ráðstöfun afurða fór fram með þeim hætti að ýsan var seld til nálægra frystihúsa á meðan þorskurinn var flattur og saltaður í eigin fiskverkun á Árskógssandi. Þess ber að geta að sameiginleg nafngift fyrirtækis og báts kom upphaflega frá eiginkonu Konráðs, Soffíu Júníu Sigurðardóttur (1906-2000), sem fannst sem frá því stafaði friðsæl og falleg birta.

Hlutafélagið Sólrún
Árið 1971 var stofnað hlutfélag í kringum rekstur Sólrúnar. Fjórum árum síðar var gamli 12 tonna eikarbáturinn Sólrún seldur og í staðinn keyptur annar 27 tonna sem hlaut sama nafn. Mikil tímamót urðu síðan árið 1980 þegar 73 tonna stálbáturinn Særún bættist við útgerðina. Á þeim tímapunkti hafði Sólrún hf. stundað hrefnuveiðar í nokkur ár, í Eyjafirðinum og úti fyrir Norðurlandi, en þær voru mjög umfangsmiklar á tímabili og námu um helmingi heildarveltunnar þar til algert hvalveiðibann gekk í gildi árið 1986.
Árið 1987 áttu sér stað veigamiklar breytingar í 10 manna eigendahópi Sólrúnar. Hann samanstóð þá stofnandanum Konráði Sigurðssyni ásamt fjölskyldu hans og tengdafólki. Við uppskiptingu eignahlutar fór Gunnlaugur Konráðsson og fjölskylda hans út úr fyrirtækinu. Auk þess var báturinn Sólrún seldur og með því fór um helmingur veiðiheimilda eða um 200 tonn. Eftir stóð Særún ásamt nýjum 10 tonna aflamarksbáti, Þyti.
Árið 1990 var 73 tonna Særúnin seld. Í staðinn keypt 150 tonna skip frá Þorlákshöfn sem hlaut gamla nafnið Sólrún, en um svipað leyti bættist lítill bátur við sem fékk hinsvegar nafnið Særún. Árið 1999 var Sólrúnu skipt út fyrir enn stærra og samnefnt skip upp á 200 tonn en það var selt árið 2003 og minnkaði þá kvótinn að sama skapi. Um svipað leyti keypti fyrirtækið dagabát sem fékk nafnið Sólrún. Mikið skarð var síðan höggvið í reksturinn árið 2006 þegar Fiskverkun Sólrúnar hætti starfsemi, en við það misstu um 30 manns vinnuna. Þegar mest lét var unnið upp úr 2-3000 tonnum á ári hjá fyrirtækinu sem skilaði af sér framleiðsluverðmætum upp á 600-700 milljónir á ársgrundvelli. Samhliða því var reksturinn endurskipulagður, Þytur sem var gerður út í aflamarki var seldur ásamt öllum veiðiheimildum. Vorið 2007 var keyptur 12 tonna bátur með umtalsverðum veiðiheimildum í krókaaflamarki og fékk hann nafnið Sólrún.
Næstu árin gerði fyrirtækið út þrjá 8-12 tonna báta í krókaflamarki, Sólrún EA 151, Særún EA 251 og Rún EA 351 og er sameiginleg kvótastaða þeirra um 400 tonn. Þeir voru gerðir út á landbeitta línu og grásleppunet.

Síðustu árin
Nokkrar breytingar hafa orðið á rekstrinum á síðustu árum. Sigurður Tryggvi Konráðsson og Ingibjörg Þórlaug Þorsteinsdóttir seldu sinn hlut í fyrirtækinu í árslok 2014 en þau höfðu verið í eigendahópnum frá upphafi. Um svipað leyti var ákveðið að breyta um áherslu í útgerðinni ákveðið var að selja alla bátana sem fyrir voru og kaupa aðra í staðinn. Keyptur var 15 tonna beitningarvélabátur sem fékk nafnið Særún EA 251 og 25 tonna netabátur sem fékk nafnið Sólrún EA 151 og voru þessir bátar í útgerð hjá Sólrúnu næstu 3 árin, en í nóvember 2017 eyðilagðist Sólrún EA 151 í eldsvoða. Í stað hennar var keyptur 15 tonna línubeitningabátur, síðan hann var keyptur er búið að gera miklar endurbætur á honum og er hann í dag 25 tonn, þessi bátur fékk nafnið Sólrún EA 151 og er það áttundi bátur fyrirtækisins með sama nafni. Beitningavélabáturinn Særún var síðan seldur 2018 og 12 tonna netabátur keyptur í staðinn og fékk hann nafnið Særún EA 251 og er það fimmti bátur fyrirtækisins með sama nafni.
Síðustu ár hefur Sólrún ehf. starfrækt útgerð, löndunar og fiskmarkaðsþjónustu.
Í dag gerir fyrirtækið út tvo báta, 25 tonna línubeitningabát í krókaaflamarki Sólrúnu EA 151 og 12 tonna netabát í aflamarki Særúnu EA 251 og er sameiginleg kvótastaða þeirra um 550 tonn.

Eigendur
Eigendur fyrirtækisins í dag eru Ólafur Sigurðsson, Pétur Sigurðsson, Bára Höskuldsdóttir, Svavar Örn Sigurðsson, Haraldur Ólafsson og Kristján Freyr Pétursson. Þau er öll virkir þátttakendur í rekstrinum í dag.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd