Staðsetning
Í Kjarnaskógi á Akureyri stendur Gróðrarstöðin Sólskógar í fallegu og vel grónu umhverfi. Þar fer fram ræktun og sala á trjám, runnum, blómum (bæði sumarblómum og fjölærum) og kryddjurtum. Einnig fer þar fram ræktun og afhending skógarplantna sem sendar eru og gróðursettar um allt land.
Sagan
Árið 1989 stofnuðu hjónin Gísli Guðmundsson og Katrín Ásgrímsdóttir Gróðrarstöðina Sólskóga í Lönguhlíð á Fljótsdalshéraði. Árið 1993 var stofnað nýbýlið Kaldá og var gróðrarstöðin þá flutt og byggð upp á ný þar. Í byrjun sérhæfðu þau sig í ræktun trjáplantna í garða, síðar bættust við sumarblóm og síðast aðstaða fyrir skógarplöntuframleiðslu. Einnig sinnti fyrirtækið garðaþjónustu og slætti víðsvegar um Austurland og má víða finna garða og opinber svæði sem Gísli kom að uppbyggingu á og plöntur frá þeim hjónum prýða. Upphafið má þó rekja til starfa Gísla og Katrínar á Seyðisfirði sumarið 1988. Þá var mikið unnið í fegrun bæjarins og hafa verið sterk tengsl við Seyðisfjörð.
Mikil breyting varð í rekstrinum árið 2007 er þau Gísli og Katrín festu kaup á Gróðrarstöðinni Kjarna á Akureyri. Um tíma ráku þau gróðrarstöðvar í tveimur landshlutum, en 2015 var lokað fyrir austan og í dag er ræktunin alfarið á Akureyri.
Starfsemin
Starfsemin er blómleg og í sífelldum vexti. Með stækkun stöðvarinnar og umfangi starfseminnar hefur tækjakostur aukist, enda hagræðing mikilvæg í rekstrinum. Þó er margt sem ekki er hægt að vélvæða og gott starfsfólk því nauðsynlegt. Starfsmenn eru nú 10 fastráðnir, auk eigendanna og á sumrin starfa um 20 manns í Sólskógum. Starfsemin er í dag á tveimur sviðum. Annars vegar heildsala með skógarplöntur og hins vegar garðplöntusala. Gróðurhúsin eru 7.000 m2 og um 80% þeirra hýsa uppeldi á skógarplöntum. Einnig eru svæði til útiræktunar sífellt að stækka, ekki síst vegna aukins umfangs ræktunar skógarplantna. Mikil uppsveifla hefur verið í skógrækt á Íslandi undanfarin ár m.a. vegna aukins áhuga á og meðvitundar um mikilvægi kolefnisjöfnunar til verndunar loftslags jarðar. Árið 2018 var afhent 1 milljón skógarplantna og ef allt gengur upp ætti framleiðslan 2021 að verða um 5 milljónir skógarplantna. Stærsti hluti þessara plantna fer í Þjóðskóga og til nytjaskógræktarverkefna Skógræktarinnar.
Sala á garðplöntum hefur einnig aukist á undanförnum árum, viðskiptavinir eru bæði heimamenn og fyrirtæki á Akureyri, sem og annars staðar að af landinu. Fólk vill fegra umhverfi sitt, bæði heim við hús sem og í sumarbústöðum, þá er tilvalið að leita til Sólskóga og fá blóm, tré eða runna í slík verkefni. Svo eru alltaf einhverjir sem líta við í gróðrarstöðinni bara til að njóta þess sem þar er að sjá og er síbreytilegt eftir því sem á sumarið líður.
Framtíðarsýn
Ekki er annað að sjá en að skógræktaráhugi ríkisvaldsins, fyrirtækja og einstaklinga á Íslandi eigi eftir að aukast á næstu árum. Sólskógar stefna að því að vera áfram leiðandi fyrirtæki í ræktun skógarplantna fyrir landið allt. Með aukinni vélvæðingu er stefnt að því að bæta nýtingu gróðurhúsanna þannig að fyrirtækið geti mætt auknum áhuga á að klæða landið skógi. Einnig hyggst fyrirtækið byggja áfram á þeirri miklu viðskiptavild sem tengist Kjarnaskógi og garðplöntusölunni þar. Við viljum gera okkar til þess að fólk geti áfram notið þess að koma í gróðrarstöðina í skóginum til að upplifa litadýrðina og blómailminn. www.solskogar.is
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd