Miklar og róttækar breytingar hafa orðið úrgangsmálum síðast liðin ár. Það er svar við kalli tímans um breyttar áherslur í umhverfismálum, þegar loftlagsbreytingar eru orðnar okkar mesta ógn. Innleiðing hringrásarhagkerfis er ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr mengun og loftlagsbreytingum en hringrásarhagkerfið er kerfi þar sem leitast er við að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi með áherslum sem tryggja að hægt sé að viðhalda verðmætum auðlinda eins lengi og mögulegt er. Markmiðið er að lágmarka auðlindanotkun og þar með úrgangsmyndun. Byggðarsamlagið SORPA leikur lykilhlutverk í því mikilvæga verkefni að innleiða hringrásarhagkerfi á Íslandi.
Stofnun Sorpu
Í lok níunda áratugar síðustu aldar var úrgangur höfuðborgarsvæðisins enn urðaður í opnum ruslahaug, lítið sem ekkert var endurnýtt og spilliefni fóru sömu leið og annar úrgangur. Til að leysa þessi mál og finna hagkvæmari og umhverfisvænni leiðir, tóku sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins sig saman og stofnuðu byggðarsamlagið SORPU, árið 1988 af sveitafélögum á höfuðborgarsvæðinu. Helsta markmið byggðarsamlagsins var að leita framtíðarlausna í úrgangsmálum og í móttöku spilliefna. Formleg starfsemi SORPU bs. hófst síðan þann 26. apríl 1991 þegar móttöku- og flokkunarstöðin í Gufunesi var tekin í notkun.
Hlutverk Sorpu
Byggðasamlagið SORPA er í dag í eigu sex sveitarfélaga: Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness. Hlutverk SORPU er að annast meðhöndlun úrgangs og sinna þannig lögbundinni skyldu sveitarfélaganna. Það felur í sér rekstur á móttöku- og flokkunarstöð, urðunarstað og sex endurvinnslustöðvum, sem reknar eru samkvæmt þjónustusamningi við sveitarfélögin. SORPA hefur einnig umsjón með grenndargámum fyrir hönd sveitarfélaganna og rekur nytjamarkaðinn Góða hirðinn, en markmið hans er að stuðla að endurnotkun nytjahluta. Starfsstöðvar fyrirtækisins eru tíu talsins og eru höfuðstöðvar SORPU að Gylfaflöt 5 í Reykjavík. Dótturfyrirtæki SORPU er Metan ehf. Stjórn byggðasamlagsins er skipuð einum fulltrúa og einum til vara frá hverju aðildarsveitarfélagi og skal hver stjórnarmaður vera aðalmaður í sveitarstjórn eða framkvæmdastjóri sveitarfélags. Stjórnarmenn fara með hlutfallslegt atkvæðavægi í samræmi við íbúafjölda sveitarfélagsins sem þeir eru fulltrúar fyrir. Jón Viggó Gunnarsson var ráðinn framkvæmdarstjóri SORPU í desember 2020.
Í starfsemi SORPU er lögð áhersla á stöðugar umbætur og lágmörkun umhverfisáhrifa frá fyrirtækinu og hefur SORPA hlotið vottanir á stjórnunarkerfi sitt samkvæmt gæða- og umhverfisstöðlunum ISO 9001 og ISO 14001, enn fremur ISO 45001 um heilbrigði og öryggi starfsfólks, auk jafnlaunavottunar samkvæmt kröfum ÍST 85. Metan er vottað samkvæmt kröfum Svansins, norræna umhverfismerkisins, og er eina íslenska eldsneytið sem uppfyllir þær kröfur.
Móttaka og meðhöndlun úrgangs
Þróun í úrgangsmálum byggir á rannsóknum og stöðugum umbótum. SORPA hefur í gegnum tíðina tekið þátt í fjölmörgum samstarfsverkefnum sem snerta magn, samsetningu og úrvinnslu úrgangs. Leiðarljós SORPU hefur frá upphafi verið að nýtingarlausnir taki mið af íslenskum aðstæðum og hámarksárangri sé náð í umhverfismálum um leið og hagkvæmustu leiða er leitað til að lágmarka kostnað samfélagsins. Gott dæmi um slík verkefni er nýting timburs sem kolefnisgjafa í framleiðslu járnblendis og nýting metans frá urðunarstaðnum sem ökutækjaeldsneytis. Á sínum tíma var hvort tveggja nýbreytni í nýtingu þessara efna á heimsvísu. Efnahagur landsmanna endurspeglast að vissu leyti í úrgangsmagninu eins og sjá má á meðfylgjandi línuriti yfir þróun í magni úrgangs frá 2001-2020. Heildarmagn úrgangs sem barst til SORPU árið 2020 var 212.060 tonn og var það 5,6% samdráttur frá fyrra ári. Endurnýtingarhlutfall SORPU fer vaxandi ár frá ári og var 58% árið 2020 en 49,6% árið 2019. Samdráttur í úrgangsmagni birtist fyrst og fremst í blönduðum úrgangi til urðunnar, en hann dróst saman um tæplega 20% milli ára eða um 25.000 tonn. Á næstu árum mun áfram þurfa að draga verulega úr urðun en markmið SORPU er að eigi síðar en í árslok 2023 verði urðun hætt í Álfsnesi. Verkefnið kallar á umbreytingu á úrgangsmeðhöndlun hjá SORPU og í samfélaginu öllu. Styðja þarf betur við hringrásarhagkerfið með aukinni endurnotkun og endurvinnslu og stuðla að vitundarvakningu um bætta flokkun endurvinnsluefna á upprunastað.
Árið 2020 markaði tímamót í meðhöndlun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu þegar gas- og jarðgerðarstöðin GAJA hóf starfsemi sína. Með vinnslunni í GAJA verða bæði orkan og næringarefnin sem felast í lífrænum heimilisúrgangi endurheimt og næringarefnunum skilað aftur inn í hringrásarhagkerfið. Að hætta að urða lífrænan úrgang frá höfuðborgarsvæðinu er stærsta loftslagsaðgerð á höfuðborgarsvæðinu síðan heitt vatn var lagt í hús og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda um tugi þúsunda tonna af koltvísýringi á ári.
GAJA var gangsett til prófana 6. ágúst 2020 og öll meðhöndlun GAJU á úrgangi er innandyra. Það er gert til að lágmarka lyktarmengun frá starfseminni. Fullvinnsla moltu innanhúss eins og gert er í GAJU er einsdæmi á Íslandi. Rúmlega 2.000 tonn af lífrænum heimilisúrgangi voru meðhöndluð í stöðinni seinni hluta ársins 2020.
Endurnýting hráefna
Tilkoma byggðasamlagsins SORPU markaði í raun þáttaskil í íslensku samfélagi og í kjölfarið fylgdi jákvæð hugarfarsbreyting gagnvart nýtingu úrgangs og aukin vitund um neikvæð umhverfisáhrif sem fylgja rangri meðferð úrgangs. Aukin þjónusta í flokkun úrgangs, fræðsla og móttökugjöld áttu sinn þátt í að vekja almenning til vitundar um forsendur endurvinnslu og endurnýtingar. Þessi þróun hófst strax í upphafi tíunda áratugarins með tilkomu endurvinnslustöðva víðsvegar um höfuðborgarsvæðið, en notkun þeirra hefur aukist jafnt og þétt hjá almenningi í gegnum árin. Nú er svo komið að endurvinnslustöðvarnar taka við mun meira magni á ári hverju en berst í gegnum sorphirðu sveitarfélaganna og 80% íbúa segjast flokka sinn úrgang að flestu eða öllu leyti.
Meginhlutverk endurvinnslustöðva er að taka á móti úrgangi til endurvinnslu eða endurnýtingar og er tekið á móti yfir þrjátíu úrgangsflokkum á stöðvunum. Sumir þeirra, t.d. timbur, pappírsefni og plast eru flutt í móttökustöðina í Gufunesi til frekari meðhöndlunar, en önnur, s.s. málmar, föt og klæði, spilliefni, raftæki, flöskur og dósir eru flutt til samstarfsaðila til meðhöndlunar og endurvinnslu. Tilkoma byggðasamlagsins SORPU markaði í raun þáttaskil í íslensku samfélagi og í kjölfarið fylgdi jákvæð hugarfarsbreyting gagnvart nýtingu úrgangs og aukin vitund um neikvæð umhverfisáhrif sem fylgja rangri meðferð úrgangs. Aukin þjónusta í flokkun úrgangs, fræðsla og móttökugjöld áttu sinn þátt í að vekja almenning til vitundar um forsendur endurvinnslu og endurnýtingar. Þessi þróun hófst strax í upphafi tíunda áratugarins með tilkomu endurvinnslustöðva víðsvegar um höfuðborgarsvæðið, en notkun þeirra hefur aukist jafnt og þétt hjá almenningi í gegnum árin. Nú er svo komið að endurvinnslustöðvarnar taka við mun meira magni á ári hverju en berst í gegnum sorphirðu sveitarfélaganna og 80% íbúa segjast flokka sinn úrgang að flestu eða öllu leyti.
Meginhlutverk endurvinnslustöðva er að taka á móti úrgangi til endurvinnslu eða endurnýtingar og er tekið á móti yfir þrjátíu úrgangsflokkum á stöðvunum. Sumir þeirra, t.d. timbur, pappírsefni og plast eru flutt í móttökustöðina í Gufunesi til frekari meðhöndlunar, en önnur, s.s. málmar, föt og klæði, spilliefni, raftæki, flöskur og dósir eru flutt til samstarfsaðila til meðhöndlunar og endurvinnslu.
Aukin endurnotkun
Árið 1993 hóf SORPA farsælt samstarf við fjögur líknarfélög; Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Hjálpræðisherinn og Rauða kross Íslands, um endurnýtingu nytjamuna sem annars færu í urðun. Upphaflega var fyrirkomulagið með þeim hætti að SORPA safnaði munum sem bárust á stöðvarnar og Rauði kross Íslands sá um dreifingu til þeirra sem á þurftu að halda. Með tímanum breyttist rekstrarformið yfir í nytjamarkaðinn Góða hirðinn, en núverandi aðsetur hans er að Fellsmúla 28. Árið 2018 opnaði svo Efnismiðlun Góða hirðisins á endurvinnslustöðinni á Sævarhöfða en það er markaður með notuð byggingaefni og ýmsar vörur sem geta nýst til framkvæmda og listsköpunar. Svo bættist við netverslun og útibú Góða hirðisins var síðan opnað á árinu 2020. Tilgangur markaðarins er að koma efni í endurnotkun áður en það fer til endurvinnslu. Endurnotkun efnis er mikilvæg aðgerð til að nýta auðlindir okkar sem best á hverjum tíma. Allur ágóði af starfsemi Góða hirðisins og Efnismiðlunarinnar rennur til góðgerðamála og er styrkjum úthlutað á hverju ári. Árið 2020 úthlutaði Góði hirðirinn rúmlega 11 milljónum til góðgerðarfélaga og félaga sem starfa í þágu samfélagsins.
Metan nýtt sem eldsneyti frá árinu 2000
Hver íbúi á höfuðborgarsvæðinu hendir um 142 kg af úrgangi í sorptunnuna á ári. Þar af eru um 70% lífræn niðurbrjótanleg efni. Úrgangurinn er urðaður í Álfsnesi þar sem lífræn efni fara fljótlega að brotna niður. Á seinni stigum í niðurbrotsferlinu mynda örverur hauggas. Hauggasið er að stórum hluta metan sem er mjög orkuríkt, en einnig áhrifarík gróðurhúsalofttegund. Með því að hreinsa hauggasið og aðskilja metan frá koltvíoxíði má nýta það sem eldsneyti á ökutæki í venjulegum bensínvélum. Þannig er dregið úr notkun á jarðefnaeldsneyti, s.s. bensíni og dísil, og umhverfisáhrifum frá urðunarstaðnum. Árleg metanframleiðsla í Álfsnesi samsvarar um 2 milljónum bensínlítra og notkun þess í stað jarðefnaeldsneytis sparar útblástur um sem nemur 33.000 tonnum af CO2 á ári.
Fyrirtækið Metan ehf. var stofnað árið 1999 og er dótturfyrirtæki SORPU. Helsta markmið þess er að nýta orkuna sem eldsneyti á bifreiðar, ásamt því að annast markaðssetningu og vöruþróun á metani. Í samstarfi við Essó (nú N1) opnaði fyrsta afgreiðslustöðin fyrir metan við Bíldshöfða árið 2000, en árið 2008 var gasleiðsla milli Álfsness og Bíldshöfða tekin í notkun. Í dag eru afgreiðslustöðvar fyrir metan á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, hjá N1, Olís og Orkunni. Bílar á vegum SORPU eru í dag að stærstum hluta knúnir metani og er einnig unnið að því að auka hlutfall vistvænna orkugjafa, s.s. metans, í flutningum verktaka á vegum SORPU.
SORPA hefur sett sér metnaðarfull markmið tengd loftslagsmálum sem m.a. snúa að orkuskiptum. Seinni hluta ársins 2018 tók SORPA nýja langarma hjólavél í notkun í móttöku- og flokkunarstöðinni í Gufunesi og var vélin sú fyrsta af þessu tagi á Íslandi sem gengur fyrir rafmagni. Markmiðið er m.a. að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi SORPU. Þá er metan einnig nýtt sem orkugjafi við upphitun í húsum í Álfsnesi.
Árið 2020 undirrituðu Malbikstöðin & Fagverk og SORPA sameiginlega viljayfirlýsingu um kaup og sölu á allt að milljón rúmmetrum (Nm3) af hreinsuðu metangasi á ári. Það samsvarar tæplega helmingi af afkastagetu GAJU, gas- og jarðgerðarstöðvar SORPU. SORPA og Te & kaffi gerðu sömuleiðis þróunarsamning um kaup á allt að 40.000 normalrúmmetrum af metani á ári.
Miðlun upplýsinga og samstarf við háskóla
Eitt af hlutverkum SORPU samkvæmt stofnsamningi eigenda er að sinna fræðslustarfi og er tekið á móti um 2500 manns í fræðslu á ári hverju. Fræðslustarfsemi SORPU er margþætt og er algengt að umhverfishópar fyrirtækja og sveitastjórna, ásamt nemendum af öllum skólastigum, komi í heimsókn til að kynnast starfsemi fyrirtækisins og rekstri þess. Rík áhersla er lögð á samvinnu við vísindasamfélagið með gagnkvæmum heimsóknum og þátttöku í málstofum, ráðstefnum og ýmsum tilraunaverkefnum. Undanfarin ár hafa meistaranemar að staðaldri unnið að verkefnum tengdum starfsemi SORPU, m.a. gas- og jarðgerðarstöð.
SORPA leggur áherslu á gott aðgengi almennings og fyrirtækja að upplýsingum um flokkun úrgangs, endurvinnslu og endurnýtingu. Á undanförnum árum hefur áherslan í útgáfu fræðsluefnis færst yfir í rafræna miðlun upplýsinga í samræmi við þarfir nútímans, m.a. með þróun á „mínum síðum viðskiptavina“, flokkunarvef og fræðsluefni á samfélagsmiðlum. Var flokkunarvefur SORPU m.a. valinn samfélagsvefur ársins 2017 á Íslensku vefverðlaununum og leikurinn Lygamælirinn, sem ætlað er að fræða og skemmta almenningi og börnum, var valinn markaðsvefur ársins.
Mannauður
Mannauðurinn er mikilvægasta auðlind hvers fyrirtækis og því leggur SORPA áherslu á að efla starfsfólk í starfi og hlúa að vellíðan þess. Boðið er upp á fjölskylduvænt starfsumhverfi og lögð er áhersla á jafnvægi milli starfs og einkalífs. Fyrirtækið tryggir jafnan rétt fólks til starfa óháð kyni og er vottað samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Hjá SORPU starfa um 128 manns og meðalstarfsaldur er nokkuð hár eða um 7,1 ár. Umtalsvert fleiri karlmenn vinna hjá fyrirtækinu en konur og eru karlar um 70% allra starfsmanna SORPU.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd