Hvalfjarðargöng voru einkafyrirtæki frá því göngin voru opnuð til umferðar 11. júlí 1998 og þar til Vegagerðin tók við þeim fyrir hönd ríkisins í lok september 2018. Tímasetning afhendingar var nákvæmlega í samræmi við upphaflega áætlun og ákvæði samninga þar að lútandi. Í lögum var kveðið á um að ríkið fengi göngin afhent skuldlaus þegar Spölur hefði greitt upp öll lán og staðið við aðrar skuldbindingar sínar. Áætlanir stóðust um framkvæmdakostnað og rekstur ganganna frá upphafi til enda, að undanskildu því að umferðin var miklu meiri frá upphafi en áætlað var! Hlutafélagið Spölur var stofnað á Akranesi 25. janúar 1991 og á stofnfundi undirrituðu nýkjörnir stjórnarmenn samning við Ólaf Ragnar Grímsson fjármálaráðherra og Steingrím J. Sigfússon samgönguráðherra um leyfi Spalar til að annast undirbúning, fjármögnun og framkvæmdir um „vegtengingu við utanverðan Hvalfjörð“ og rekstur um tiltekinn tíma.
Göngin styttu leiðina milli höfuðborgarsvæðisins og Akraness um 60 km og um 42 km milli höfuðborgarsvæðisins og áfangastaða á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi. Vegið meðaltal styttingar var 48 km, miðað við að 35% umferðar um göngin væru milli Akraness og höfuðborgarsvæðisins en 65% milli höfuðborgarsvæðisins og annarra áfangastaða til vesturs og norðurs úr Hvalfirði. Aksturssparnaður á rekstrartíma Spalar nam um 1.700 milljónum km eða sem svarar til 722 milljóna króna á verðlagi 2018. Kolefnisjöfnun þessa aksturs myndi kalla á að plantað sé 3,4 milljónum trjáa á 13,5 ferkílómetrum lands eða sem svarar til sjöfalds flatarmáls Seltjarnarness.
Stofnendur og eigendur
Stofnendur Spalar voru tíu talsins, þeirra stærstir Sementsverksmiðja ríkisins, Grundartangahöfn, Íslenska járnblendifélagið, Vegagerð ríkisins, Akraneskaupstaður og Skilmannahreppur. Eftir stofnfund skráðu fleiri sig sem hluthafa, þar á meðal Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Fjölnismenn hf. á Akureyri, Vírnet hf. í Borgarnesi og Loftorka hf. í Borgarnesi. Þó nokkrir einstaklingar skráðu sig líka fyrir hlutum. Hlutafé var ákveðið
70 milljónir króna.
Við lok rekstrartíma ganganna voru hluthafar 45 talsins, hlutafé 86 milljónir króna og sex stærstu hluthafar voru (eigendur samtals 87,7% hlutafjár):
– Faxaflóahafnir
– Ríkissjóður Íslands
– Elkem Ísland
– Hvalfjarðarsveit
– Vegagerðin
– Akraneskaupstaður.
Framkvæmdakostnaður og veggjald
Hvalfjarðargöng kostuðu 5.482 milljónir króna á verðlagi í september 1998. Stofnkostnaðurinn var 4-5% umfram áætlun sem átti aðallega rætur að rekja til þess að dýpra var á klöpp við suðurmunna ganganna en gert var ráð fyrir. Vegfarendur greiddu stofn- og rekstrarkostnað með veggjaldi sem aldrei fylgdi vísitölu framfærslukostnaðar, líkt og ráð var fyrir gert í samningum um verkefnið. Stakt veggjald var til dæmis 1.000 krónur þegar reksturinn hófst í júlí 1998 og var enn 1.000 krónur þegar gjaldheimta var lögð af í september 2018. Staka gjaldið hefði verið um 2.500 krónur 2018 ef það hefði fylgt vísitölu.
Lokagjaldskrá Spalar tók gildi 1. júlí 2011. Lægsta veggjald var þá 283 krónur fyrir áskrifanda sem keypti 100 ferðir í einu og greiddi allar fyrir fram. Gjaldskránni var breytt átta sinnum á 20 ára rekstrartíma, veggjald áskrifenda var hækkað þrisvar en lækkað fimm sinnum. Þannig nutu viðskiptavinir þess í reynd að tekjur Spalar af veggjaldi voru mun meiri en áætlað var í forsendum rekstrar ganganna. Umferð í göngunum var samanlagt tæplega 36 milljónir ökutækja á rekstrartímanum. Mesta umferð á einu ári var 2017, alls liðlega 2,5 milljónir ökutækja eða um um 7.000 á sólarhring að meðaltali. Mesta umferð í einum mánuði var í júlí 2017, liðlega 300.000 ökutæki eða tæplega 10.000 á sólarhring.
Tekjur af veggjöldum námu 1,5 milljörðum króna þegar mest var, árið 2017.
Áskriftarsamningar voru um 20.000 í lokin og um 52.000 veglyklar þá skráðir í umferð. Eftir að Vegagerðin tók við göngunum innkallaði Spölur veglykla og 111.000 ónotaða afsláttarmiða. Félagið greiddi viðskiptavinum sínum inneignir á viðskiptareikningum, skilagjöld veglykla og andvirði afsláttarmiða sem skilað var.
Hverjir borguðu göngin?
Vegfarendur með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu greiddu 23% af áskriftartekjum Spalar árið 2013. Hlutur Vesturlands var 19,5%, þar af Skagamanna 12,6%. Árið 2017 skiptust tekjur Spalar þannig að áskrifendur/veglyklar skiluðu 46%, afsláttarkort 13% og staðgreiðsla í gjaldskýli 41%. Fjölgun erlendra ferðamanna hafði þau áhrif að hlutur staðgreiðslu fyrir stakar ferðir stækkaði verulega í heildarmynd tekna á seinni hluta rekstrartímans. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra var síðasti vegfarandinn til að greiða veggjald í göngunum í rekstrartíð Spalar laust eftir hádegi föstudaginn 28. september 2018.
Undir kelduna
Svarfdælasýsl forlag sf. gaf út í ágúst 2019 bókina Undir kelduna, sagan um Hvalfjarðargöng 1987-2019 eftir Atla Rúnar Halldórsson. Þar er fjallað ítarlega um aðdraganda ganganna, framkvæmdir við þau og síðan reksturinn frá upphafi til enda gjaldheimtu. Upphaf sögunnar miðast við viðauka Hreins Haraldssonar, jarðfræðings og fyrrverandi vegamálastjóra, í skýrslu Jarðganganefndar vorið 1987. Þar birti Hreinn það álit sitt að gerð jarðganga undir Hvalfjörð væri tæknilega og fjárhagslega fýsilegur kostur.
Fyrsta stjórn Spalar, frá janúar 1991 til desember 1994
- Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Sementsverksmiðju ríkisins, formaður.
- Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akranesi.
- Jón Hálfdanarson, bæjarfulltrúi á Akranesi og formaður Grundartangahafnar.
- Óli Jón Gunnarsson, bæjarstjóri í Borgarnesi.
- Stefán Reynir Kristinsson, fjármálastjóri Íslenska járnblendifélagsins.
Vegagerðin eignaðist Spöl á aðalfundi félagsins 29. maí 2019 og þá var kjörin ný stjórn, eingöngu skipuð fulltrúum hennar.
Síðasta stjórn Spalar (áður en Vegagerðin eignaðist félagið), frá janúar 2018 til maí 2019
- Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, formaður.
- Gestur Pétursson, forstjóri Elkem Ísland.
- Gunnar Gunnarsson, fyrrverandi aðstoðarvegamálastjóri.
- Hafsteinn S. Hafsteinsson, lögfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
- Stefán Ármannsson, sveitarstjórnarmaður í Hvalfjarðarsveit.
Framkvæmdastjórar og starfsmenn Spalar
- Stefán Reynir Kristinsson, frá mars 1998 til desember 2005.
- Gylfi Þórðarson, frá janúar 2006 til október 2018.
- Anna Kristjánsdóttir, nóvember 2018 til nóvember 2019 (hún starfaði fyrir Spöl um skeið eftir að Vegagerðin eignaðist félagið).
Starfsmenn Spalar voru 17 í 15 stöðugildum á skrifstofunni á Akranesi og í gjaldskýlinu við norðanverðan Hvalfjörð í lok árs 2017. Starfsmannafjöldinn var svipaður allan rekstrartímann og starfsmannaveltan lítil. Spölur þótti góður vinnustaður. Spölur var útnefndur „fyrirmyndarfyrirtæki VR“ sjö sinnum á árunum 2009-2015 og „fyrirtæki ársins 2010“ í flokki fyrirtækja með 49 starfsmenn eða færri.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd