Spöng ehf.

2022

Frá stofnun hefur Spöng ehf. verið öflugt og framsækið byggingafyrirtæki með öflugan kjarna góðra manna. Í gegnum tíðina þá hefur félagið unnið að vandasömum og fjölbreyttum verkefnum fyrir ríki, sveitarfélög og einkaaðila þar sem óþrjótandi þekking og reynsla mannaflans hefur komið sér vel. Hafa þeir ávalt verið vel í stakk búnir til þess að takast á við hin ýmsu stig verklegra framkvæmda, hvort sem það er að reisa nýbyggingar eða viðgerðir á eldra húsnæði.

Nafngiftin
Nafngift Spangar ehf. á sér merkilega sögu og er sótt alla leið til Þingvalla. Þar nefnist ein helsta gjáin Flosagjá, en á löngum kafla klofnar hún og kvíslast í austur yfir í Nikulásargjá. Yfir síðarnefndu gjána var lögð brú árið 1907. Skömmu eftir það tóku ferðamenn upp á þeim sið að kasta smápeningum, frá brúarbarminum, niður í vatnið og óska sér í leiðinni, en af þeim sökum varð Nikulásargjá, með tímanum, betur þekkt sem Peningagjá. Á Milli Nikulásargjáar og Flosagjáar liggur hraunrimi eða haft sem nefnist Spöngin. Fyrr á öldum töldu menn að þar hafi hið eiginlega Lögberg staðið til forna sem aðal fundarstaður Alþingis og því oft rætt um Heiðna-Lögberg eða Gamla-Lögberg í því samhengi, en fyrir kristnitöku munu goðin hafa hist á þessum stað og þingað með Óðni. Einnig eru uppi tilgátur að Spöng á Þingvöllum hafi þjónað hlutverki sem einskonar friðhelgur griðastaður Alþingis þar sem allir menn gátu átt frjálsa aðild og sett niður illdeilur sín í millum.

Upphafið
Stofnendur Spangar ehf. voru hjónin Sigurbjörn K. Haraldsson, húsasmíðameistari, og Ingibjörg Sigurbergsdóttir ásamt Elvari G. Kristinssyni, pípulagningarmeistara og Halldóri Ólafssyni, rafvirkjameistara. Í gegnum árin voru fleiri hluthafar í félaginu en í dag er félagið alfarið í eigu Sigurbjörns en Ingibjörg féll frá árið 2015.
Ákvörðun um stofnun félagsins var tekin í ferð hjónanna til Þingvalla. Bæði áhugafólk um íslenska menningu og sögu þá höfðu þau það fyrir sið að halda til Spangar á Þingvöllum og sofa þar undir berum himni aðfaranótt þjóðhátíðardags Íslendinga, líkt og þingmenn til forna, og vakna þar að morgni. Var það í ferð þeirra árið 1996 að ákvörðun um stofnun félagsins var tekin. Það var trú þeirra að nafnið Spöng myndi færa starfseminni mikla gæfu sem reyndist raunin, en rekstur félagsins hefur verið einkar farsæll og umsvifamikill.
Sigurbjörn hefur í gegnum tíðina ekki verið smeykur við að taka að sér hin ýmsu verkefni sem aðrir hafa ekki lagt í.

Helstu verkefni
Eitt af fyrstu verkefnunum sem Spöng tók að sér var viðbygging við leikskóla í Árbæ en þær framkvæmdir fóru fram veturinn 1996-1997. Frá þeim tíma hefur fyrirtækið tekist á við sífellt stærri útboðsverkefni og hafa þar á meðal stærstu verkkaupa verið ýmsar ríkisstofnanir, má þar nefna sem dæmi Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjun, Reykjavíkurborg og Ríkisspítalana ásamt Framkvæmdasýslu ríkisins sem sér um stjórn, á stórum hluta, verklegra framkvæmda fyrir hið opinbera. Nærtækustu dæmin um slík verkefni sem Spöng ehf. hefur haft yfirumsjón með eru Sjávarútvegshúsið að Skúlagötu 4 og endurbætur á St. Jósefsspítala.
Meðal helstu verkkaupa í einkageiranum hafa verið Actavis og Exista ásamt Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Eins hefur Spöng tekið að sér ýmis önnur athyglisverð verkefni og má þar nefna niðurrif og förgun húsa eftir Varnarliðið á Keflavíkuflugvelli, smíði sundlaugar fyrir Náttúrulækningafélag Íslands og endurbætur á Amtmannsstíg 2 sem hluta af mennta-skólaþorpi MR. Félagið hefur í gegnum tíðina sérhæft sig í verkefnum sem tengd eru sögu- og minjavernd. En unnið var til dæmis í nánu samstarfi við fornleifafræðinga, sem unnu að uppgreftri samhliða byggingaframkvæmdum, þegar húsnæðið yfir landnámsbænum að Aðalstræti 16 var reist. Annað dæmi er skáli víkingaskipsins Íslendings sem er staðsettur í Innri-Njarðvík. Í gegnum tíðina hefur Spöng átt í farsælu samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands og reist ófá sambýli fyrir fatlaða og öryrkja, til að mynda byggðu þeir sérálmu fyrir þroskaskerta og fatlaða í Fjölbrautaskólanum við Ármúla, þeirri vinnu lauk 2010 en þetta verkefni hélt í raun lífinu í fyrirtækinu á hrunárunum.
Spöng hefur komið að ýmsum framkvæmdum við grunnskólabyggingar en umsvifamesta verkefnið var án efa þegar Ingunnarskóli í Grafarholti var reistur. Spöng kom að öðrum og þriðja áfanga þess og var við hönnun hans gengið út frá stefnu skólans, hún byggir á því að einstaklingar úr ólíkum hópum koma með lýðræðislegar tillögur að því hvernig innviðirnir eru skipulagðir. Við hönnun skólans varð niðurstaðan sú að hægt er að stækka og minnka kennslustofur að vild og mynda þannig opnanleg rými þar sem kennarar leiðbeina árgangablönduðum hópum með áherslum á einstaklingsmiðað nám og þemavinnu. Spöng tók við byggingunni uppsteyptri og innréttaði bygginguna frá grunni ásamt frágangi utanhúss á árunum 2004-2005. Var þetta verkefni, þar sem framsetning þótti óvenjuleg og skapandi, einkar gefandi fyrir starfsmenn. En eins og stendur í stofnskrá félagsins þá er eitt helsta hlutverk þess „hönnun, þróun og markaðssetning hugmynda ásamt byggingastarfsemi“.
Frá árinu 2012 hefur Spöng tekið að sér fjöldamörg verkefni fyrir Veitur, má þar nefna Hellisheiðarvirkjun en þar var byggð loftskýlisstöð en þar er brennisteinsvetni hreinsað úr útblæstri virkjunarinnar og fargað með því að blanda við vinnsluvatn frá virkjuninni sem er svo veitt niður í berggrunninn. Árið 2015 voru lagnir lagðar og byggð niðurdælingarstöð í Kýrdal við Nesjavelli. Hafist var handa árið 2017 við að endurnýja bæði ofan- og neðanjarðar lagnir við Deildartunguhver fyrir Veitur. Spöng lauk við að reisa þrjú borholuhús fyrir kaldavatnsborholur í Vatnsendakrika fyrir Veitur árið 2018, hvert hús var um 30 fm.
Fyrsta skóflustungan var tekin að hofi Ásatrúarfélagsins í Öskjuhlíðinni árið 2015 og hófst bygging þess árið 2017 og stendur enn yfir en um einkar glæsilega byggingu er að ræða.
Þessa dagana er verið að vinna að nýrri skólpdælustöð í Flóahverfi á Akranesi ásamt því að leggja lokahönd á vatnsleikjagarð í Elliðaárdal í tilefni af 100 ára afmæli rafstöðvarinnar í Reykjavík.

Hugvit og nýsköpun
Sigurbjörn er mikill áhugamaður um hugvit og nýsköpun á sviði byggingaiðnaðar og fékk hann á sínum tíma styrk frá Íbúðalánasjóði til þróunar á einni af hugmyndum sínum. En hann vill meina að kreppa og samdráttur sé í raun tækifæri fyrir ferskar hugmyndir. Hefur félagið verið opið fyrir því ásamt því að tileinka sér nýja hugsun gagnvart hönnun híbýla með hollustu og vellíðan í fyrirrúmi.
Í framhaldi af þessu fékk hann stóran styrk frá Rannís í tengslum við lamineraðar vikureiningar. En markmiðið var að fullvinna byggingaeiningar úr vikri til að nota í almennar húsbyggingar. Tilgangurinn var að auka virði vikurs en þetta fjölhæfa byggingarefni hafði að mestu leyti verið flutt óunnið úr landi.

Aðsetur og starfsmenn
Spöng var fyrst til húsa að Laugarnesvegi 100 í Reykjavík þar til starfsemin var flutt í Furulund 9, Garðabæ. Félagið fékk, árið 1999, úthlutað lóð að Bæjarflöt 15, Garðabæ. Þar var fyrsta skóflustungan tekin 17. júní 1999 og byggt var 800 fm skrifstofu- og iðnaðarhúsnæði á tveimur hæðum. Unnið var að byggingunni meðfram öðrum verkefnum og fluttist öll starfsemin þangað inn árið 2006. Í dag er starfsemin komin aftur í Furulund.
Spöng hefur alla tíð verið aðili að samtökum iðnaðarins. Þegar mest var störfuðu um 70 manns hjá félaginu en eftir hrunið 2008 þá fækkaði fastráðnum starfsmönnum og í staðinn þá voru fengnir undirverktakar þegar á þurfti að halda. En eftir stendur öflugur kjarni sem hefur skilað frábæru verki fyrir félagið.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd