Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) eru samstarfs- og þjónustuvettvangur
sveitarfélaganna í landshlutanum. SSNV starfar í samvinnu við önnur landshlutasamtök
sveitarfélaga, Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra aðila eftir því sem hagsmunir
bjóða hverju sinni og við verður komið. Samtökin voru stofnuð árið 1992 þegar
Fjórðungssambandi Norðlendinga var skipt í tvennt. Hlutverk samtakanna er að vinna
að verkefnum sem sveitarfélögin eða löggjafinn fela þeim og hafa samvinnu um tiltekna
málaflokka á grundvelli samninga við ríkið. Megináhersla er lögð á eftirfarandi verkefni:
Greiningu varðandi sameiginleg hagsmunamál aðildarsveitarfélaganna, þingmál og
aðrar stefnumarkandi áætlanir ríkisins og stefnumótun um sóknaráætlun og önnur
verkefni sem stjórnvöld fela samtökunum, sbr. gildandi lög og reglugerðir hverju sinni.
Hagsmunagæslu um sameiginleg hagsmunamál aðildarsveitarfélaganna, um mál samkvæmt ákvörðunum þinga og mál sem falla að samþykktum SSNV.
Þjónustuhlutverk varðandi sameiginleg verkefni aðildarsveitarfélaganna.
Stuðla að samvinnu og auka þekkingu sveitarstjórnarmanna á starfssvæðinu.
Markmið samtakanna eru: Að efla samvinnu sveitarfélaga og auka þekkingu sveitar-stjórnarmanna á verkefnum sveitarstjórna. Að vinna að hverjum þeim verkefnum sem aðildarsveitarfélög eða löggjafinn kunna að fela þeim. Að styrkja stöðu aðildarsveitarfélaganna á landsvísu. Að stuðla að eflingu atvinnulífs á
Norðurlandi vestra.
Sóknaráætlun Norðurlands vestra
Árið 2015 gerðu SSNV og stjórnvöld með sér fimm ára samning um sóknaráætlun
landshlutans. Sá samningur hefur síðan verið endurnýjaður fyrir árin 2020-2024. Markmið samningsins er að stuðla að jákvæðri samfélags- og byggðaþróun í takt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landshlutans og landsins alls. Markmiðið er jafnframt að einfalda samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja gegnsæi við úthlutun og um-
sýslu opinberra fjármuna.
Samningurinn skiptist í þrjá þætti:
Móta sóknaráætlun Norðurlands vestra sem nær yfir árin 2020-2024. Annast umsýslu uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra sem styður við markmið sóknaráætlunarinnar. Skilgreina áhersluverkefni sem endurspegla markmið sóknaráætlunar og styðja við fram-gang hennar.
Norðurland vestra
Norðurland vestra nær frá Stikuhálsi á Ströndum að Almenningum vestan Siglufjarðar og upp á Öxnadalsheiði, frá Skagatá og upp á miðhálendið. Landshlutinn er 13.091 km2 og íbúar 1. janúar 2021voru alls 7.398. Aðalatvinnugreinar eru landbúnaður, sjávarútvegur og iðnaður en einnig er almenn þjónustustarfsemi veigamikill þáttur. Þá er ferðaþjónusta vaxandi atvinnuvegur. Svæðið er fjölbreytt að náttúrufari og landslagi, gróið land er um 2/3 af heildarflatarmáli og þar eru margar gjöfular laxveiðiár. Ræktun íslenska hestsins á sér einnig ríka hefð. Landshlutinn er ríkur af sögu og var t.d. vettvangur margra stórviðburða á Sturlungaöld, auk Grettissögu og Vatnsdælu. Þá voru Hólar í Hjaltadal annar af tveimur biskupsstólum landsins um aldir.
Þjóðvegur 1 liggur í gegnum starfssvæðið og almennt eru samgöngur góðar á landi.
Hafnir eru á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd, Sauðárkróki og Hofsósi. Flugvellir
eru á Sauðárkróki og Blönduósi. Hitaveita er í öllum þéttbýlisstöðunum og fer vaxandi í
dreifbýli. Stærsta virkjunin er Blönduvirkjun sem framleiðir 150 MW. Einn framhaldsskóli er í landshlutanum, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra og þá er háskóli á Hólum í Hjaltadal með ferðamála-, fiskeldis- og hestafræðibrautum.
Menningarlíf
Menningarlíf er í töluverðum blóma á Norðurlandi vestra. Fjölmörg söfn, setur og sýningar bjóða upp á margvíslega afþreyingu, allt frá hefðbundnum byggðasöfnum til sýninga með sýndarveruleika. Tónlistarlíf er fjölþætt, m.a. eru karla-, kvenna- og blandaðir kórar á hverju strái. Einnig stendur leiklist föstum fótum. Bæjar- og héraðshátíðir eru á sumrin og þá er Sæluvika Skagfirðinga um mánaðamótin apríl/maí ár hvert.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd