Fjármála- og efnahagsráðuneytið starfar samkvæmt lögum nr. 115 frá 2011, um Stjórnarráð Íslands, forsetaúrskurði um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti nr. 14 frá 7. apríl 2017 og forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands nr. 84 frá 30. nóvember, 2017. Skipulag Stjórnarráðs er í meginatriðum þannig að ráðuneytisstjóri stýrir ráðuneytinu undir yfirstjórn ráðherra sem setur honum erindisbréf. Með ráðherra starfa einn til tveir aðstoðarmenn. Skrifstofu stýrir skrifstofustjóri sem skipaður er af ráðherra. Sérstakri starfseiningu eða ráðuneytisstofnun stýrir embættismaður en að auki geta verið starfræktir til lengri og skemmri tíma sérstakir verkefnahópar eða -teymi til að vinna að málefnum og verkefnum sem varða verksvið fleiri en einnar skipulagseiningar ráðuneytisins.
Fjármála- og efnahagsráðherra er Bjarni Benediktsson. Starfsfólk ráðuneytisins er um 100 talsins og sinnir fjölbreyttum verkefnum í takti við meginhlutverk ráðuneytisins. Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með yfirstjórn opinberra fjármála og efnahagsmála, málefni fjármálamarkaðarins, ber ábyrgð á bættum stjórnunarháttum og áætlanagerð, hefur með höndum virka stjórn mannauðsmála ríkisins og er leiðandi í umbótum og nýsköpun í rekstri ríkisins.
Innan vébanda ráðuneytisins eru sjö skrifstofur, ein ráðuneytisstofnun og sérstök eining sem vinnur að stafrænum umbótum. Skrifstofur ráðuneytisins eru eftirtaldar; skrifstofa efnahagsmála, skrifstofa fjármálamarkaðar, skrifstofa opinberra fjármála, skrifstofa skattamála, skrifstofa stjórnunar og umbóta, skrifstofa yfirstjórnar og skrifstofa rekstrar og innri þjónustu. Að auki starfar Kjara- og mannauðssýsla ríkisins sem skrifstofa í ráðuneytinu og telst hún vera ráðuneytisstofnun í skilningi 17. gr. laga um Stjórnarráð Íslands.
Umbra, þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins, er ráðuneytisstofnun sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Umbra sinnir upplýsingatæknimálum og ýmsum sameiginlegum rekstrarþáttum ráðuneytanna, að hluta eða í heild, með það að markmiði að stuðla að hagkvæmni í rekstri.
Þá starfar í ráðuneytinu sérstök eining, Stafrænt Ísland, sem vinnur að því að aðstoða opinberar stofnanir við að bæta stafræna þjónustu við almenning með því að gera þjónustuna skýrari, einfaldari og hraðvirkari.
Helstu verkefni fagskrifstofa
Skrifstofa rekstrar og innri þjónustu styður við innra starf ráðuneytisins og þróun þess, í nánu samstarfi við yfirstjórn. Hún annast rekstur og fjármál ráðuneytisins, mannauðsmál, innra eftirlit, stoðþjónustu og áætlanagerð og fer með rekstrarlegt eftirlit með stofnunum ráðuneytisins. Skrifstofan hefur umsjón með upplýsingamiðlun, fjölmiðlasamskiptum og útgáfumálum.
Skrifstofa efnahagsmála hefur umsjón með undirbúningi og eftirfylgni með efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, samhæfingu opinberrar hagstjórnar og kynningu á efnahags- og hagstjórnarmálum. Í því skyni annast skrifstofan mat á þróun og horfum í efnahagsmálum og samskipti við Hagstofu Íslands um gerð þjóðhagsspár. Skrifstofan annast gerð hagfræðilegra athugana, sviðsmynda- og frávikagreiningar, vöktun hagstærða og samskipti við erlend matsfyrirtæki og ýmsar alþjóðlegar stofnanir á sviði efnahagsmála. Að auki fer skrifstofan með málefni Seðlabanka Íslands að því marki sem þau heyra undir ráðuneytið.
Skrifstofa opinberra fjármála undirbýr stefnumörkun í opinberum fjármálum og leiðir gerð fjármálastefnu, fjármálaáætlunar, fjárlaga og fjáraukalaga. Einnig undirbýr skrifstofan ráðstafanir í ríkisfjármálum og fylgir eftir áherslum ráðherra og ríkisstjórnar varðandi fjármál ríkissjóðs og yfirfer mat ráðuneyta á fjárhagsáhrifum stjórnarfrumvarpa, reglugerða, samkomulaga og annarra stjórnvaldsráðstafana og leggur mat á samninga og aðrar skuldbindingar sem ná yfir lengri tíma en fjárlagaárið. Skrifstofan hefur forystu um gerð útgjaldagreininga (e. spending reviews) til að meta skilvirkni og árangur og skýra forgangsröðun varðandi ráðstöfun opinberra fjármuna. Skrifstofan greinir horfur og þróun í fjármálum hins opinbera til lengri tíma í samræmi við ákvæði laga.
Skrifstofa skattamála mótar stefnu í skattamálum og eftir atvikum fyrir aðra tekjuöflun ríkisins. Skrifstofan annast mótun og undirbúning skattalöggjafar og gerð lagafrumvarpa og reglugerða á sviði skattamála með hliðsjón af stefnumótun ríkisfjármála og efnahagsmálum almennt. Þar með talin er löggjöf um tolla og vörugjöld. Skrifstofan annast mat á forsendum og áhrifum skattabreytinga sem telst vera hluti af gerð lagafrumvarpa og tekjuáætlunar ríkissjóðs. Skrifstofan undirbýr setningu heildarmarkmiða fyrir tekjuöflun ríkissjóðs og setur fram langtímaáætlanir um þróun tekna. Þá hefur skrifstofan umsjón með gerð tekjuáætlunar fjárlaga ár hvert og sinnir samtímaeftirliti með innheimtu og þróun einstakra skatt- og tekjustofna. Einnig annast skrifstofan undirbúning tvísköttunar- og upplýsingaskiptasamninga við önnur ríki.
Skrifstofa stjórnunar og umbóta sinnir fjárstýringu og rekstrarmálefnum ríkisins, lánamálum, umbótastarfi, eigna- og framkvæmdamálum og stefnumörkun í mannauðs- og kjaramálum. Það felur í sér fjármálastjórnun og fjárstýringu, lánsfjáröflun og skuldastýringu ríkissjóðs, eftirlit með framkvæmd fjárlaga, mat á afkomu ríkissjóðs og einstakra ríkisaðila, ásamt þróun rekstraráætlana og reikningsskila. Skrifstofan vinnur að umbótum og nýsköpun í rekstri og stofnanakerfi ríkisins, stefnumótun og árangursstjórnun, þróun stafrænna innviða, notkun upplýsingatækni í opinberri þjónustu og stjórnsýslu, innkaupamál, ríkisaðstoðarmál og samskipti við einkamarkaðinn. Skrifstofan fer með eigna- og framkvæmdamál ríkisins, þ.m.t. eignarhald félaga, og undirbúning og framkvæmd eigendastefnu hluta- og sameignarfélaga í ríkiseigu. Skrifstofan fer með eignarráð ríkisins í fast- og jarðeignum og samninga vegna nýtingar auðlinda þeirra. Undir skrifstofuna fellur stefnumörkun varðandi mannauðsmál ríkisins og málefni er varða réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, kjarasamninga, launa- og lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna, og greiningar á mannaflaþörf og launum.
Kjara- og mannauðssýsla ríkisins (KMR) er sérstök ráðuneytisstofnun, sbr. 17. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Hún er hluti af fjármála- og efnahagsráðuneytinu og sinnir verkefnum á sviði mannauðsmála ríkisins, þ. á m. ráðgjöf og stuðningi við ráðuneyti og aðrar ríkisstofnanir varðandi mannauðsstjórnun, ákvæði starfsmannalaga og framkvæmd kjarasamninga. Kjara- og mannauðssýsla ríkisins sinnir einnig starfsþróun og fræðslumálum ríkisstarfsmanna og málefnum forstöðumanna og stjórnenda. Hún er í samstarfi við samtök launafólks og samtök sveitarfélaga um launa- og kjaramál sem og umbætur á vinnumarkaði.
Kjara- og mannauðssýsla hefur leitt samninganefnd ríkisins við gerð kjarasamninga. Ráðuneytisstofnuninni stýrir skrifstofustjóri, sem er embættismaður í skilningi laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Skrifstofa yfirstjórnar fer með samhæfingu í starfsemi ráðuneytisins, undirbýr og fylgir eftir settum áherslum í starfsemi þess. Skrifstofan fer með mál er varða dagskrá ráðherra, undirbúning funda og mál sem varða þingstörf ráðherra. Hún ber meginábyrgð á samskiptum við Alþingi og stofnanir þess og þróun stjórnsýsluhátta innan ráðuneytisins almennt. Skrifstofan sinnir sérstökum og tímabundnum úrlausnarefnum og áherslumálum sem ráðuneytið fæst við í samstarfi við aðrar skrifstofur ráðuneytisins og önnur ráðuneyti eftir atvikum.
Helstu verkefni ársins 2020
Árið 2020 mörkuðust verkefni ráðuneytisins mjög af heimsfaraldri kórónuveiru en það gegndi leiðandi hlutverki við mótun aðgerða til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum faraldursins fyrir einstaklinga og rekstraraðila og undirbúning viðspyrnu í kjölfar hans.
Í því sambandi má nefna að unnin voru fimm frumvörp til fjáraukalaga á árinu 2020 sem voru lögð fram á Alþingi og höfðu að meginmarkmiði að bregðast við afleiðingum faraldursins, í stað eins í venjulegu árferði. Einnig átti ráðuneytið ríkan þátt í að undirbúa mál sem Alþingi afgreiddi um ýmsar ráðstafanir til að létta undir með fólki og fyrirtækjum vegna faraldursins.
Unnið að ýmsum áherslumálum
Utan þess sem sneri að heimsfaraldrinum var unnið að reglubundnum verkefnum og ýmsum áherslumálum. Má þar nefna eflingu stafrænna innviða, en Stafrænt Ísland fer fyrir því verkefni, aukna áherslu á opinbera nýsköpun og stóraukið viðhald og endurbætur á opinberum fasteignum í samræmi við fjárfestingarátak stjórnvalda. Þá leiddi Kjara- og mannauðssýsla, í samstarfi við aðra, vinnu við verkefnið Betri vinnutími, sem miðar að breyttri tilhögun á vinnutíma sem samið var um í kjarasamningum 2020.
Í Arnarhvoli frá 1939
Árið 2020 var starfsemi fjármála- og efnahagsráðuneytisins í Arnarhvoli, sem þjónað hefur ýmissi starfsemi á vegum ríkisins allt frá árinu 1930, þegar starfsemi hófst í húsinu. Er fjármálaráðuneytið það ráðuneyti sem lengst hefur haft aðsetur í Arnarhvoli en þar hefur það verið til húsa óslitið frá 1939. Arnarhvoll er í húsverndarflokki 20. aldar bygginga með byggingarsögulegt, menningarlegt eða listrænt gildi, en húsið var teiknað af húsameistara ríkisins, Guðjóni Samúelssyni. Það prýðir einnig vegleg útidyrahurð listamannsins Ríkarðs Jónssonar. Í hurðina eru skornar tvær myndir og sýnir önnur Ingólf Arnarson varpa öndvegissúlum sínum fyrir borð. Á hinni má sjá þræla Ingólfs þegar þeir fundu öndvegissúlurnar og er Esjan í baksýn.Haustið 2013 hófst vinna að gagngerum endurbótum utanhúss á Arnarhvoli í kjölfar ítarlegrar ástandsskoðunar húsanna sem leiddi í ljós ríka þörf á lagfæringum. Með endurbótunum var aukin verðskulduð virðing hússins, sem og gamla Hæstaréttarhússins, sem einnig var lagfært. Í kjölfarið var hafist handa við heildstæðar endurbætur innanhúss í Arnarhvoli. Unnið var að endurbótunum í áföngum og var full starfsemi í húsinu á meðan. Þeim lauk að fullu árið 2019 og var árið 2020 var því fyrsta starfsár ráðuneytisins í endurnýjuðu húsnæði sem lagað hafði verið að nútímalegu vinnuumhverfi með áherslu á opin vinnurými.
Árið 2010 starfaði fjármálaráðuneytið skv. lögum nr. 73 frá 28. maí 1969, um Stjórnarráð Íslands, með síðari breytingum, og reglugerð þar um. Það skipulag sem var í gildi árið 2010, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 811/2009 var í meginatriðum þannig að ráðuneytisstjóri stýrði ráðuneytinu undir stjórn ráðherra sem hafði aðstoðarmann. Sviðum og skrifstofum stýrðu skrifstofustjórar. Annað starfsfólk starfaði innan hverrar skrifstofu eða sviðs.
Í ráðuneytinu störfuðu um 70 manns árið 2010 sem er svipaður fjöldi og starfað hafði í ráðuneytinu á árunum á undan. Ráðuneytið starfaði sem ein heild og skiptist í fjórar skrifstofur og tvö svið. Skrifstofurnar voru: fjárlagaskrifstofa, fjárreiðu- og eignaskrifstofa, starfsmannaskrifstofa og tekju- og skattaskrifstofa. Sviðin voru lögfræðisvið og rekstrar- og upplýsingasvið, og sinntu þau stoðþjónustu fyrir ráðuneytið. Ráðuneytisstjóri, Guðmundur Árnason, annaðist samræmingu á starfsemi skrifstofa og sviða en verkefnin skiptust í grófum dráttum á eftirfarandi hátt:
Lögfræðisvið
annaðist almenn stjórnsýslumálefni fyrir ráðuneytið. Það var skrifstofum ráðuneytisins til aðstoðar og ráðgjafar um málefni á ábyrgðarsviði þeirra og hafði yfirumsjón með þingmálum, samskiptum við skrifstofu Alþingis og stofnanir þess og embætti ríkislögmanns. Auk þess hafði sviðið yfirumsjón með málefnum varðandi ríkisstyrki, þjóðlendur, lífeyrismál, opinbera gjaldtöku, framkvæmd EES-samningsins eins og hún snéri að ráðuneytinu sem og annarra alþjóðlegra samninga er heyrðu undir ráðuneytið.
Rekstrar- og upplýsingasvið
annaðist rekstur ráðuneytisins, fjárlagagerð og rekstrarlegt eftirlit með stofnunum þess. Sviðið sá um sameiginlega þjónustu ráðuneytisins, s.s. afgreiðslu, símsvörun, póst- og sendlaþjónustu, bókhald og umsjón með tækjakosti. Þá hafði skrifstofan umsjón með skjala- og upplýsingamálum, upplýsingamiðlun, útgáfu, mótaði stefnu og markmið um rafræna stjórnsýslu í samráði við önnur ráðuneyti og vann ásamt öðrum skrifstofum að undirbúningi og framkvæmd einstakra verkefna ráðuneytisins á sviðið umbóta- og fræðslumála.
Fjárlagaskrifstofa
hafði umsjón með meginverkefnum fjárlagagerðar og undirbjó stefnumörkun í ríkisfjármálum í samráði við áherslur stjórnvalda. Meginverkefni fjárlagagerðar voru að styrkja stöðu ríkisfjármála til framtíðar, skipta ríkisfjármálum í samræmi við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og treysta fjárlagaferlið. Skrifstofan hafði jafnframt það hlutverk að undirbúa setningu heildarmarkmiða í ríkisfjármálum, fjárlagaramma fyrir ríkið í heild og gera tillögur sem stuðla að aðhaldi og samdrætti í ríkisútgjöldum. Þá annaðist skrifstofan langtímastefnumörkun í ríkisfjármálum og gerði spár um þróun útgjalda og afkomu, þróun lánsfjárjafnaðar og skuldastöðu.
Fjárreiðu- og eignaskrifstofa
hafði umsjón með framkvæmd fjárlaga, starfsháttum í ríkisrekstri og ýmsum þáttum í fjármálastjórn ríkisins. Í því fólst að hafa eftirlit með því að fjárreiður ráðuneyta og stofnana væru lagaðar að forsendum fjárlaga, bæta stjórnunarhætti og áætlanagerð, þróa uppgjörsaðferðir ríkisaðila, móta samskipti ríkis og einkamarkaðar auk stefnumótunar og framkvæmdar í fjárstýringu, lánamálum, opinberum framkvæmdum, fasteignamálum ríkisins og meðferð eignarhluta ríkisins í félögum og fyrirtækjum. Undir verksvið skrifstofunnar féllu verkefni samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir, ríkisreikningsnefndar og framkvæmdanefndar um árangursstjórnun.
Starfsmannaskrifstofa
var málsvari ríkisins í málefnum vinnumarkaðarins og kom sjónarmiðum þess á framfæri á þeim vettvangi. Skrifstofan mótaði stefnu ríkisins í starfsmanna- og mannauðsmálum í samræmi við stefnu stjórnvalda og bar ábyrgð á því laga- og regluverki sem varðar launa,- kjara- og lífeyrismál starfsmanna ríkisins, réttindi þeirra og skyldur. Einnig veitti skrifstofan stjórnvöldum og einstökum stofnunum ráðgjöf við framkvæmd og túlkun laga, reglna og samninga um vinnumarkaðs- og starfsmannamál. Almennar og sértækar úttektir og athuganir á sviði kjara- og stefnumarkandi mála voru í umsjón skrifstofunnar og verkefni samninganefndar ríkisins féllu undir verksvið þess.
Tekju- og skattaskrifstofa
hafði yfirsýn yfir tekjuöflun ríkisins og mótaði stefnu í þeim efnum í samráði við yfirstjórn og aðrar skrifstofur ráðuneytisins eftir atvikum. Skrifstofan hafði það hlutverk að undirbúa setningu heildarmarkmiða um tekjuöflun og setja fram langtímaáætlanir um þróun tekna. Að auki hafði skrifstofan umsjón með gerð tekjuáætlunar fjárlaga og eftirfylgni með innheimtu og greiðsluflæði einstakra tekjustofna. Skrifstofan annaðist skattathuganir, skattalöggjöf, rannsóknir og mat á skattbreytingum með hliðsjón af stefnumótun ríkisfjármála, og efnahagsmálum almennt. Þá sá skrifstofan um samræmingu varðandi þátttöku í alþjóðlegu samstarfi um ríkisfjármál og skattamál og ennfremur gerð tvísköttunar- og upplýsingaskiptasamninga.
Að frumkvæði fjármálaráðuneytis voru níu sjálfstæð embætti skattstofa sameinuð undir yfirstjórn ríkisskattstjóra 1. janúar 2010 og tók ráðuneytið virkan þátt í sameiningarferlinu. Markmiðið með þessum breytingum var einkum tvíþætt, annars vegar að ná fram fjárhagslegu aðhaldi í rekstri stofnana skattkerfisins og hins vegar að efla faglega starfsemi skattkerfisins. Við þessar breytingar fækkaði stofnunum ráðuneytisins um níu. Bankasýsla ríkisins tók til starfa í ársbyrjun 2010, en hún heyrði undir fjármálaráðuneytið og var ætlað að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Auk þessara tveggja stofnana heyrðu eftirtaldar stofnanir undir ráðuneytið árið 2010: Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Fasteignir ríkissjóðs, Fjársýsla ríkisins, Framkvæmdasýsla ríkisins, Ríkiskaup, Skattrannsóknarstjóri ríkisins, Tollstjóri og yfirskattanefnd.
Árið 2010 var meginverkefni fjármálaráðuneytisins að framfylgja áætlun ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum. Áætlunin var sett árið 2009 í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og miðaði, í stuttu máli, að því að stöðva hallarekstur og skuldasöfnun ríkisins í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008, svo ríkisstarfsemin yrði aftur sjálfbær. Markmið hennar var að verja rekstrarafgangi til að grynnka jafnt og þétt á skuldum sem ríkissjóður þurfti að taka á sig í kjölfar hrunsins. Þannig öðlast ríkið fjárhagslegt bolmagn til að byggja upp þjónustu og efla velferðarkerfið og bæta þar með skilyrði samfélagsins og atvinnulífsins til lífskjarasóknar.
Eitt brýnasta verkefnið sem stjórnvöld stóðu frammi fyrir var endurfjármögnun bankakerfisins, en henni var að mestu lokið árið 2010. Þá hafði verið gengið frá samningum milli íslenskra stjórnvalda og nýju bankanna annars vegar og hins vegar skilanefnda stóru viðskiptabankanna þriggja um uppgjör vegna eigna sem færðar voru úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Árið 2010 voru bankarnir þrír fullfjármagnaðir og unnið var að fjármögnun og endurskipulagningu sparisjóðakerfisins.
Af öðrum stórum verkefnum sem ráðuneytið stóð í var úrlausn Icesave-málsins og samskipti við ESA (Eftirlitsstofnun EFTA).
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd