Stálsmiðjan – Framtak ehf.

2022

Stálsmiðjan á sér langa og merkilega sögu
Í stofnsamningi frá 6. október 1933 segir í inngangi – fyrstu málsgrein:
„Undirrituð fjelög, hlutafélagið Hamar og sameignarfjelagið Vjelsmiðjan Héðinn, í samningi þessum nefnd fjelögin, gjöra hjermeð sofelldan samning: Fjelögin stofna hjermeð sameignarfjelag, í samningi þessum nefnt firmað, sem beri firmanafnið s/f Stálsmiðjan.“ Undir samninginn skrifa Markús Ívarsson og Bjarni Þorsteinsson stofnendur Héðins og fyrir Hamar h/f Hjalti Jónsson (Eldeyjar Hjalti) Th.Krabbe og Steindór Gunnarsson. 24. ágúst 1940 var Stálsmiðjunni sf. falinn rekstur Járnsteypunnar hf. og var hún rekin undir stjórn Stálsmiðjunnar allt til ársins 1985 þegar Héðinn hf. eignaðist hana að fullu við samruna Hamars hf. og Stálsmiðjunnar. Fyrstu tveir framkvæmdastjórar voru að öllum líkindun þeir Sveinn Guðmundsson í Héðni tengdasonur Markúsar Ívarssonar og Benedikt Gröndal frá Hamri. En líklega var þó Ástmundur Guðmundsson (bróðir Sveins) sem í byrjun var titlaður skrifstofustjóri, hinn raunverulegi framkvæmdastjóri allt til ársins 1973 en það ár veiktist hann og átti ekki afturkvæmt til vinnu. Eftir það störfuðu sem framkvæmdastjórar þeir Gunnar Bjarnason 1973-1985 og Skúli Jónsson 1985-1994 en í stjórnartíð Skúla voru rekstur og eignir Slippfélagsins í vesturhöfninni keyptar og þar með var lagður grunnur að rekstri dráttarbrauta á vegum Stálsmiðjunnar. Síðan komu þeir Ágúst Einarsson 1994-2000, Valgeir Hallvarðsson 2000-2001 og Ólafur Hilmar Sverrisson 2001, eða þar til núverandi eigendur tóku við það sama ár og Bjarni Thoroddsen tók við stöðu framkvæmdastjóra sem hann gegnir enn þann dag í dag.

Stefna fyrirtækisins
Stefna fyrirtækisins hefur verið sú að ekkert verkefni er of stórt eða of lítið. Það er alltaf metnaður og fagmennska lögð í verkið. Starfsemi fyrirtækisins miðaðist áður fyrr við fiskveiðar og útgerð en undanfarinn áratug hefur þjónsuta við stóriðju og orkuiðnað aukist til muna. Stálsmiðjan-Framtak ehf. hefur komið að uppbyggingu á flestöllum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum á Íslandi. Fyrirtækið hefur séð um uppsetningu margskonar vélbúnaðar ásamt annari stálsmíði.

Skipasmíðar
Helstu verkefni á sviði skipasmíða: Smíði fyrsta stálskips á Íslandi, dráttarbátsins Magna fyrir Reykjavíkurhöfn. Undirbúningur hófst árið 1950 þegar Hjálmari R. Bárðarsyni skipaverkfræðingi í Stálsmiðjunni var falið af Valgeiri Björnssyni hafnarstjóra Reykjavíkurhafnar að gera teikningar af nýjum dráttarbáti. Samningur um smíði var undirritaður 28. apríl 1953 og báturinn afhentur þann 25. júní 1955. Tekið skal fram að hf. Hamar tók virkan þátt í öllum skipasmíðum Stálsmiðjunnar. Annað skipið var varðskipið Albert afhent árið 1957, einnig teiknað af Hjálmari. Þriðja nýsmíði Stálsmiðjunnar og fyrsta stálfiskiskipið smíðað á Íslandi var Arnarnes GK-52. Hér hafði Hjálmar hætt störfum hjá Stálsmiðjunni og gerst siglingamálastjóri og við tók Agnar Norðland, sem teiknaði Arnarnesið og tvö næstu skip sem smíðuð voru, Jón Gunnlaugsson og Frey, bæði sjósett 1972. Næsta nýsmíði var sjósett árið 1976, Sandey II smíðuð fyrir Björgun hf. 671 tonns sanddæluskip, það eina sinnar gerðar sem smíðað hefur verið á Íslandi. Á árunum 1987-1990 voru smíðaðir þrír svokallaðir 10 tonna bátar, teiknaðir af Karli Lúðvíkssyni skipaverkfræðingi sem starfaði um árabil á tæknideild Stálsmiðjunnar. Fleiri hafa nýsmíðar ekki verið en ótal stærri endurnýjanir og breytingar á skipum hafa verið framkvæmdar sem of langt mál væri að telja upp hér.

Landverkefni
Af landverkefnum ber helst að nefna: Smíði og uppsetning á þrýstivatnspípum fyrir virkjanirnar í Sigöldu, Hrauneyjafossi og Sultartanga, samtals um 3.000 tonn af stáli. Uppsetning á túrbínum, rafölum og öðrum búnaði fyrir Kröfluvirkjun og Sultartanga. Smíði og uppsetning á stórum hluta búnaðar fyrir álverin ISAL og Norðurál, ásamt uppsetningu allra hreinsistöðva fyrir þessi álver, ca. 4-5.000 tonn af stáli. Smíði og uppsetning á kæli og hreinsibúnaði fyrir ofn nr. 3 hjá Íslenska járnblendifélaginu, smíði á gömlu hitaveitugeymunum á Öskjuhlíð, þremur risatönkum í Helguvík, tveim brúm yfir Tungná, þaki Háskólabíós, amoníakgeymi fyrir Áburðarverksmiðjuna, uppsetning á gámakrana Eimskips, smíði á göngubrú Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, smíði á tugum gufukatla og skrúfuhringja, uppsetning sorpstöðva og hreinsistöðvar fyrir Elkem í Noregi og svo mætti lengi telja.

Stálsmiðjan-Framtak ehf.
Framtak ehf. var stofnað árið 1988 og sérhæfði það sig í þjónustu við skipafélög og útgerðir. Framtak sá um margar stórar og flóknar viðgerðir skipa bæði fyrir íslensk og erlend fyrirtæki. Þjónusta við iðnað og orkufyrirtæki varð með árunum stærri hluti af verkefnum fyrirtækisins.
Árið 2000 keypti Framtak fyrirtækið Blossa ehf. og stofnaði dótturfélagið Framtak-Blossi ehf.Það fyrirtæki sérhæfði sig í díselstillingum og þjónustu við bílaiðnaðinn. Fyirtækið var auk þess stór aðili í innflutningi á vélum og varahlutum fyrir ýmsan vélbúnað.
Í desember 2006 keypti Stálsmiðjan allar deildir Framtaks og Framtaks-Blossa. Árið 2013 voru fyrirtækin sameinuð í eitt fyrirtæki undir nafninu Stálsmiðjan-Framtak ehf. Er fyrirtækið nú eitt af stærstu fyritækjum sinnar tegundar á Íslandi og býður upp á margs konar þjónustu og þjónustulausnir fyrir vélar, skip og orkuiðnað. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru að Vesturhrauni 1 í Garðabæ. Þar eru einnig rekin vélaverkstæði, renniverkstæði og plötusmiðja.
Í júní 2014 fékk Stálsmiðjan-Framtak skráða gæðavottun með tilvísun til ISO 9001:2008 og hefur fyrirtækið haldið þeirri vottun síðan undir leiðsögn og eftirliti BSI á Íslandi (British Standard Institution). Gæðavottunin var endurnýjuð árið 2020 og þá var miðað við ISO 9001:2015 gæðastaðal. Stálsmiðjan-Framtak er meðstofnandi Clara Artic Energy ehf. sem var stofnað til að þjónusta vetnisstöðvar fyrir fraktflutninga og sjávarútveg. Fyrirtækið var stofnað þann 29.október 2020. Fyrirtækið býður upp á víðtæka þjónustu fyrir viðskiptavini sem vilja draga úr notkun koltvísýrings í starfsemi sinni með áherslu á þungaflutninga með því að bjóða upp á umhverfisvænni lausnir. Clara Artic Energy stefnir að því að þróa lausnir fyrir sjávarútveginn og er langtímamarkmið fyrirtækisins samvinna og umhverfisvænni lausnir fyrir land- og sjávariðnað

Starfsfólk
Gífurlegur fjöldi starfsmanna hefur í gegnum árin unnið hjá Stálsmiðjan-Framtak ehf. og þeir eru ófáir ungu mennirnir sem lært hafa sitt fag hjá fyrirtækinu. Á tímabili má segja að Stálsmiðjan-Framtak ehf. hafi verið „útungunarvél“ fyrir vél- og stálsmiði – og er það vel.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd