Starfsendurhæfing Norðurlands (SN) var stofnuð 9. febrúar 2006. Áður hafði Starfs-endurhæfingin verið starfrækt undir merkjum Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, Félags- og skólaþjónustu Þingeyinga og Framhaldsskólans á Húsavík í fjögur ár. Starfsendurhæfing Norðurlands er sjálfseignarstofnun með sérstaka stjórn. Stjórn SN, Soffía Gísladóttir, formaður stjórnar, fulltrúi Vinnumálastofnunar, Bernard Hendrik Gerritsma, fulltrúi SAK, Inga Berglind Birgisdóttir, fulltrúi HSN, Guðrún Sigurðardóttir, ritari, fulltrúi Akureyrarbæjar, Valgeir Magnússon, fulltrúi SÍMEY og Þórarinn Sverrisson, fulltrúi Starfsendurhæfingar Norðurlands vestra, áheyrnarfulltrúi.
Starfsemin
Hlutverk Starfsendurhæfingar Norðurlands er að veita einstaklingum starfsendurhæfingu sem hafa verið utan atvinnuþátttöku í einhvern tíma. Til að mynda vegna veikinda, slysa eða félagslegra aðstæðna og eru að vinna að endurkomu út á vinnumarkaðinn. Þátttakendum er veitt ráðgjöf og stuðningur á heildrænan og markvissan hátt, með það að markmiði að endurhæfingin verði sem árangursríkust. Áhersla er lögð á þá þætti sem hver þátttakandi metur í samráði við ráðgjafa SN. Hugmyndin er sú að þátttakandinn komi með virkum hætti að sinni endurhæfingu strax í byrjun og beri þar með frá upphafi ábyrgð á sinni endurhæfingu. SN leiðbeinir og útvegar þá þjónustu sem til þarf.
Starfsendurhæfing Norðurlands býður upp á mismunandi endurhæfingarleiðir, ýmist langtíma endurhæfingu eða styttri leiðir. Meðal annars er boðið upp á fjármálaráðgjöf, fjölskylduráðgjöf, fjölskyldumeðferð, félagsráðgjöf, sálfræðimeðferð, hópefli/sjálfsstyrkingu, líkamsþjálfun, iðjuþjálfun, heilsuráðgjöf, markþjálfun, fræðslu, fyrirlestra og einstaklingsráðgjöf og list- og handverksnámskeið.
Endurhæfingin miðar að því að einstaklingurinn fari í vinnu eða nám að lokinni þátttöku.
Hugmyndafræði Starfsendurhæfingar Norðurlands gengur út frá því að hver þátttakandi komi með virkum hætti að eigin endurhæfingu strax í upphafi. Unnið er með valdeflingu og lausnamiðaða nálgun. Aðferðir valdeflingar snúast um að efla vald fólks yfir aðstæðum sínum og lífi, öllu því sem eflir sjálfsmynd, sjálfstraust, félagslega stöðu, sjálfsvirðingu og lífsgæði. Lausnamiðuð nálgun miðar út frá því að hjálpa fólki að koma auga á lausnir sem virka fyrir hvern og einn.
Að jafnaði taka um 150 manns þátt í endurhæfingardagskrá SN á hverju ári. Meðallengd endurhæfingartímans hjá SN er u.þ.b níu mánuðir. Langflestum þátttakendum er vísað til SN frá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði. SN býður einnig upp á styttri námskeið, einkum í samvinnu við Vinnumálastofnun sem býður upp á fjölmörg námskeið fyrir atvinnuleitendur. Starfsemi SN fer fram að mestu leyti í Glerárgötu 36 á Akureyri. SN leggur áherslu á að endurhæfingin fari fram í heimabyggð. SN hefur einnig veitt þjónustu víðar um Norðurland, s.s. á Húsavík, á Blönduósi og í Fjallabyggð.
Um 75% þátttakenda í starfsendurhæfingardagskrá SN snúa aftur á vinnumarkað eða í nám að lokinni endurhæfingu. Það er með því besta sem gerist í starfsendurhæfingu á Íslandi.
Starfsmenn:
Jakobína Elva Káradóttir, félagsráðgjafi og framkvæmdastjóri
Elín Hrönn Einarsdóttir, iðjuþjálfi
Anna Kristín Arnarsdóttir, kennari
Katla Hildardóttir, hjúkrunarfræðingur
Héðinn Svarfdal Björnsson, félagssálfræðingur
Ragnheiður Sveinsdóttir, sjúkraþjálfari
Ranveig Susan Tausen, sálfræðingur
Sæunn Jóhannsdóttir, ritari
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd