Starfsgreinasamband Íslands (SGS) er fjölmennasta landssamband launafólks á Íslandi og stærsta landssambandið innan ASÍ, með samtals um 72.000 félagsmenn. Meginhlutverk SGS er að sameina verkalýðsfélög í baráttunni fyrir bættum kjörum, standa vörð um áunnin réttindi, vera leiðandi afl innan verkalýðshreyfingarinnar og vettvangur umræðu um þróun samfélagsins í þágu launafólks. Starfsgreinasambandið var stofnað 13. október árið 2000 við samruna Verkamannasambands Íslands, sem stofnað var árið 1964, Þjónustusambands Íslands, vegna starfsfólks í veitinga- og gistihúsum, sem stofnað var árið 1972 og Landssambands iðnverkafólks frá 1973. Stofnfélög Starfsgreinasambandsins voru 50 að tölu en í dag eru aðildarfélögin 19 talsins.
Mannauður
Formaður Starfsgreinasambandsins frá því í maí 2012 er Björn Snæbjörnsson. Björn hefur verið formaður Einingar-Iðju í um 25 ár og hefur gegnt fjölmörgum félags- og trúnaðarstörfum fyrir félagið, sem og fyrir SGS og ASÍ. Hann hefur t.a.m. setið í miðstjórn ASÍ síðan 1992, átt sæti í stjórnum tveggja lífeyrissjóða auk þess að eiga sæti í fjölda annarra nefnda og ráða.
Starfsmenn sambandsins eru tveir og svo hefur verið lengst af. Flosi Eiríksson er framkvæmda-stjóri, stýrir skrifstofu SGS og ber ábyrgð á daglegum rekstri sambandsins. Hann framkvæmir ákvarðanir þinga, formannafunda og framkvæmdastjórnar, fer með almenna prókúru og annast fjármál í samráði við formann og framkvæmdastjórn. Hann annast samskipti við fjölmiðla, erlend systursamtök og aðildarfélög sambandsins og ber jafnframt ábyrgð á undirbúningi kjaraviðræðna og útgáfu kjarasamninga og kauptaxta. Árni Steinar Stefánsson hefur starfað hjá SGS frá árinu 2012 og sinnir meðal annars ráðgjöf og þjónustu við aðildarfélög SGS á sviði kjara-, vinnumarkaðs-, og starfsmenntamála.
SGS hefur auk þess aðgang að lögfræðingum, hagdeild og ýmissi annari þjónustu samkvæmt samstarfssamningi við ASÍ.
Traustur grunnur og framtíðarsýn
Starfsgreinasambandið stendur á traustum grunni. Félagsmönnum hefur fjölgað undanfarin ár og mikilvægi starfseminnar sjaldan verið meira. SGS á aðild að fjölmörgum samtökum og samböndum starfsfólks í hinum ýmsu greinum jafnt innan lands sem utan.
Verkalýðshreyfingin stendur ávallt frammi fyrir áskorunum um að fylgja straumi tímans og tryggja að hún sé öflugt baráttutæki launafólks.
Á tímum heimsfaraldursins voru svo til allir fundir sambandsins færðir yfir í fjarfundi. Fresta þurfti þingi SGS um eitt ár. Heimsóknir á skrifstofu voru takmarkaðar og starfsmenn voru í tímbundinni heimavinnu.
Aðsetur SGS er í Guðrúnartúni 1 í Reykjavík.
Innra skipulag SGS tekur til þess:
– Að vinna að því að allt almennt verkafólk sé skipulagt og félagsbundið í virkum verkalýðsfélögum og að sameina öll verkalýðsfélög innan sinna vébanda til sóknar og varnar fyrir sameiginlegum málefnum þeirra.
– Að styðja, styrkja og þjónusta sambandsfélögin í starfi þeirra að hagsmunum verkafólks, svo sem í vinnudeilum og í samningum við atvinnurekendur, svo og að beita sér fyrir samræmingu í starfi og samræmdum reglum og gagnkvæmum stuðningi þeirra á milli.
– Að beita sér fyrir því, að sambandsfélög séu sem öflugastar félagsheildir og að félög séu ekki smærri en svo, að þau geti veitt félögum sínum alla nauðsynlega þjónustu.
– Að samræma grundvallarstefnu aðildarfélaga sinna í kjarasamningum og standa að gerð kjarasamninga um þau sameiginlegu mál sem aðildarfélögin fela því hverju sinni.
– Að veita sambandsfélögum og trúnaðarmönnum þeirra hverskonar upplýsingar, sem þeim megi verða til gagns eða leiðbeiningar í starfi.
– Að beita sér fyrir aukinni starfsmenntun, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun, almennri upplýsinga- og menningarstarfsemi, m.a. með virku samstarfi við önnur stéttarfélög og sambönd þeirra.
– Að koma fram fyrir hönd aðildarfélaga sinna í málum sem þau verða ásátt um að fela því.
© 2025 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd