Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu

2022

Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu varð til 26. janúar 2019 við sameiningu tveggja stéttarfélaga, þ.e. SFR stéttarfélags, þar sem stærstur hluti félagsmanna starfaði hjá ríkisstofnunum og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, þar sem stærsti hluti félagsmanna voru borgarstarfsmenn. Auk þess starfa félagsmenn hjá sveitarfélögum, stofnunum í eigu opinberra aðila og sjálfseignarstofnunum. Félagið þjónar rúmlega
12 þúsund félagsmönnum um land allt og er stærsta aðildarfélag BSRB.

Í orðsendingu frá nýstofnuðu félagi sem send var öllum félagsmönnum sagði m.a.; „Við lítum björtum augum til framtíðar og þeirra tækifæra sem stærra og sterkara stéttarfélag mun gefa okkur. Sameinað félag mun vera betur í stakk búið til þess að mæta verkefnum framtíðarvinnumarkaðarins. Við munum í nýju félagi standa vörð um réttindi og kjör félagsmanna og leitast við að auka þjónustuna. Þetta verða sameiginleg verkefni okkar næstu misserin og munu trúnaðarmenn sem og félagsmenn allir verða virkir í því starfi.“
Stærsti hluti félagsmanna Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu starfar á opinberum vettvangi við almannaþjónustu. Megináhersla og krafa Sameykis er að vinnandi fólk geti lifað mannsæmandi lífi af launum sínum sem jafnframt er grundvallar mannréttindakrafa. Þá er jöfnun launa á milli vinnumarkaða eitt af mikilvægustu málum félagsins sem og að tryggja að launaþróunartryggingin haldi sér. Þeir félagsmenn Sameykis sem starfa í almannaþjónustu þekkja best hversu mikilvægt það er að hlúa að innviðum velferðarkerfisins og búa þannig um hnútana að það sé tryggt og öllum opið.

Starfsmenn í almannaþjónustu búa jafnan við mikið álag og eitt af þeim verkefnum sem Sameyki hefur barist fyrir er stytting vinnuvikunnar í 36 klukkustundir. Til allra heilla er sá draumur nú að raungerast þegar þetta er ritað. Stytting vinnuvikunnar er ekki síst mikilvæg vegna vaxandi vinnuálags og streitutengdra sjúkdóma í íslensku samfélagi. Húsnæðismál hafa einnig lengi verið baráttumál hjá stéttarfélaginu og er þeim fylgt rækilega eftir.

Skrifstofa Sameykis
Á skrifstofu Sameykis starfa 16 starfsmenn með formanni og varaformanni. Sameyki er með góðan hóp fólks sem heldur utan um alla kjarasamninga félagsins; 18 viðsemjendur auk stofnanasamninga og starfsmats ásamt umsjón með réttindum félagsmanna, launamálum, kjarasamningsbrotum á vinnustöðum, samskiptavanda o.fl.
Góð þjónusta við félagsmenn er Sameyki mikilvæg og svara sérfræðingar stéttarfélagsins þeim fyrirspurnum sem berast. Afgreiðsla styrkja úr Styrktar- og sjúkrasjóði og Starfsmenntunar- og starfsþróunarsjóðum Sameykis er stór hluti þeirra verkefna sem félagið sinnir. Sameyki á samtals 70 orlofseignir, þar af þrjár á Spáni. Á sumrin leigir félagið einnig orlofshús til útleigu fyrir félagsmenn sína.

Félagsstarfið
Trúnaðarmenn Sameykis á vinnustöðum eru um 350 talsins og eru þeir afar mikilvægir, bæði félaginu og starfsmönnum á vinnustöðunum. Fundir trúnaðarmanna og fulltrúaráðs eru haldnir reglulega þar sem málin eru rædd og ákvarðanir teknar. Mikil vinna er lögð í lýðræðisleg vinnubrögð, þ.e. að virkir félagsmenn geti komið að ákvörðunum. Innan stéttarfélagsins er starfrækt háskóladeild sem heldur utan um hagsmuni háskólamenntaðra í félaginu sem fer ört fjölgandi en auk deildarinnar starfa sjö fagfélög innan stéttarfélagsins. Í Sameyki er einnig sérstök lífeyrisdeild fyrir þá sem eru hættir á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd