Safnari og náttúrubarn eru orð sem tengjast Petru órofa böndum. Frá því hún opnaði augun í fyrsta skipti veitti hún umhverfi sínu meiri athygli en flest okkar.
Áhugi Petru á fallegum steinum fylgdi henni alla ævi og byrjaði Petra að safna steinum fyrir alvöru þegar þau Nenni fluttu inn í Sunnuhlíð árið 1946.
Fyrstu tuttugu árin af söfnunarstarfi sínu sótti Petra nær eingöngu steina í fjörurnar og fjallgarðinn norðan fjarðarins. Petra gekk einfaldlega út um aðaldyrnar á Sunnuhlíð og eins og leið lá upp brekkurnar og á fjöllin fyrir ofan. Steinarnir hennar eru því langflestir úr Stöðvarfirði og af Austurlandi því Petra leitaði sjaldan steina í öðrum landsfjórðungum.
Steinasafnið
Á undanförnum áratugum telja gestir Steinasafnsins hundruð þúsunda. Í safnið kemur fjöldi fólks sem annað hvort trúir á mátt steinanna eða kemur í fræðilegum tilgangi. Þó að þessir tveir hópar nálgist steinana á ólíkan hátt þá má fullyrða að upplifun fólks hér í safninu getur verið afar sterk. Þetta sést af því að margir koma hér ár eftir ár til að rifja upp kynni sín af safninu.
Hvort fallegur steinn býr yfir mætti til lækninga eða hvort hann inniheldur sérstaka orku verður aldrei útkljáð eða sannað. Til þess er nálgun fólks of ólík. Hitt er víst að fólk sem trúir staðfastlega á orku steinanna kemur hingað í hundraða vís á ári hverju.
Safnið er rekið af afkomendum Petrur, þeim Ingimari, Elsu, Sveini og Þórkötlu.
Safnarinn Petra
Söfnunaráhugi Petru einskorðaðist ekki við steinasöfnun. Petra safnaði merktum pennum, bollum og fleiri smáhlutum auk þess sem hún safnaði hverskonar skeljum og kuðungum í marga áratugi.
Petra safnaði líka vasaklútum en ástæða þeirrar söfnunar er nokkuð sérstök. „Þegar ég og Rósa vinkona vorum átta eða níu ára þá vorum við hérna upp í fjalli og ákváðum að gefa alltaf hvor annarri vasaklút í afmælisgjöf. Það mátti aldrei vera minna en vasaklútur, hann var skyldustykki. En á meðan að við værum sáttar þá átti að vera eitthvað meira. En það væru boð um að það væri ekki allt í lagi ef það kæmi bara vasaklútur. Og það kom alltaf vasaklútur á hverju ári og enn í dag og alltaf eitthvað meira.“ Á hverju ári endurnýjuðu þær heitið og með tímanum eignaðist Petra stórt og litríkt safn vasaklúta sem er minnisvarði um ævilanga vináttu.
Viðurkenning
Árið 1995 veitti Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti Íslands, Petru hina íslensku fálkaorðu sem viðurkenningu fyrir söfnun og varðveislu náttúruminja.
Petra var listakona í hjarta sínu. Steinarnir voru hennar farvegur til að fá útrás fyrir djúpstæða tjáningarþörf og gestabækurnar sýna að margir sem hingað koma upplifa heimili hennar sem listaverk. Petru tókst því að miðla þeirri fegurð sem hún naut á ferðum sínum, þó að það hafi ekki verið ætlun hennar í upphafi.
Petra bjó í Sunnuhlíð þar til árið 2007 en fylgdist þó vel með safninu þar til hún lést árið 2012.
© 2025 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd